Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 desember 2004

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, flutti í gær ræðu í Þjóðmenningarhúsinu, í tilefni þess að hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis heimastjórnarinnar á þessu ári er nú formlega lokið. Í ræðu sinni fór Halldór yfir afmælisárið og það sem einna helst hafði gerst í hátíðarhöldum vegna þess. Eftir stutta umfjöllun um það vék forsætisráðherra talinu að stjórnskipan landsins og ítrekaði þau orð sem hann flutti í stefnuræðu sinni í október, þess efnis að mikilvægt sé að hefja sameiginlegt starf allra flokka að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ítrekaði hann að rétti tíminn væri nú runninn upp til að skýra betur hlutverk forseta, Alþingis og ríkisstjórnar í stjórnskipuninni. Lýsti hann því að loknu yfir að hann hefði fyrr um daginn ritað bréf til formanna allra stjórnmálaflokkanna og óskað eftir tilnefningum frá þeim í stjórnarskrárnefnd sem hafi það hlutverk að vinna að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Mun nefndin verða skipuð níu fulltrúum; þremur sem tilnefndir eru af Sjálfstæðisflokki, tveimur fulltrúum frá Samfylkingu og Framsóknarflokki og einum fulltrúa vinstri grænna og Frjálslynda flokksins. Mun forsætisráðherra skipa formann nefndarinnar úr hópi nefndarmanna.

Að auki mun fjögurra manna sérfræðinganefnd starfa náið með stjórnarskrárnefndinni, en formaður hennar mun verða Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Aðrir í sérfræðingarnefndinni verða Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði og Björg Thorarensen lagaprófessor. Miðað við það sem á undan er gengið í samskiptum forseta og Alþingis leikur enginn vafi á því að nauðsynlegt er að breyta 26. grein stjórnarskrárinnar og fleiri stjórnarskrárþáttum tengdum embætti forsetans, að mínu mati. Það getur ekki gengið að sá skuggi sé yfir störfum þingsins að einn maður geti með geðþóttavaldi stöðvað af mál sem lýðræðislega kjörið Alþingi til fjögurra ára, samþykkir með réttmætum hætti. Það er skoðun mín nú sem ávallt fyrr að forseti eigi ekki að hafa það vald sem 26. greinin gaf í skyn að hann hefði og því mikið gleðiefni að taka eigi þetta til endurskoðunar og pólitísk samstaða hefur náðst um að setja á stofn nefnd til að vinna að uppstokkun stjórnarskrárinnar og stuðla að breytingum. 26. greinin sem lengi hefur verið umdeild, verður nú tekin væntanlega til ítarlegrar umræðu og sennilega rækilegrar endurskoðunar. Ég tel eðlilegast að þetta neitunarvald forseta verði numið brott en í staðinn jafnvel sett ákvæði um að viss hluti þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur eða viss fjöldi landsmanna geti þrýst á slíkt. Það er mun eðlilegra en að einn maður sitji með það í skauti sínu að geta upp á sitt einsdæmi hindrað meirihluta þingsins í að sinna sínum störfum. Breytingin er því þörf og löngu tímabær. Halldór hafði annars í mörg horn að líta í gær og var gestur Kastljóssins í gærkvöldi. Þar var hann í ítarlegu viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni og Sigmari Guðmundssyni, og fékk margar krefjandi spurningar og hart að honum sótt.

The New York TimesVæntanleg kynningarherferð og söfnun hinnar svokölluðu 'Þjóðarhreyfingar' fyrir því að kaupa auglýsingu í The New York Times, hefur vakið athygli og ekki síður deilur í samfélaginu. Í gær birtist pistill minn á vef Heimdallar þar sem ég fór yfir þetta mál. Þar sagði: "Hvaðan fá forsvarsmenn hinnar sjálfskipuðu 'Þjóðarhreyfingar' (sem virðist ekki halda neina félagaskrá en virðist í grunninn þó samanstanda af fjórum til fimm einstaklingum) valdið sem þeir setja í eigin hendur til að tala fyrir hönd okkar allra Íslendinga á alþjóðavettvangi með þessum hætti? Hvernig getur hún auglýst í nafni allra Íslendinga í riti á borð við The New York Times eða þá á hvaða öðrum vettvangi sem valinn er? Hvaða lýðræðislega umboð hafa þessir einstaklingar eiginlega til þess að tala fyrir hönd allrar þjóðarinnar sem slíkrar? Ekki kem ég í fljótu bragði á það hvaðan það er komið. Þessi 'Þjóðarhreyfing' sakar stjórnvöld um að hafa á ólýðræðislegan hátt lagt nafn Íslendinga við innrásina í Írak.

Í upphafi yfirlýsingarinnar segir eftirfarandi: "Tveir ráðherrar lögðu nafn Íslendinga - okkar allra - við aðgerðir innrásarhersins í Írak - þrátt fyrir eindregna andstöðu þjóðarinnar.? Það er ekkert annað en það já, en hvað gerir hreyfingin svo í kjölfarið? Nú, hún virðist ætla að gera nákvæmlega það sama og þeir saka stjórnvöld um, þ.e. að leggja nöfn allra Íslendinga - okkar allra - við eitthvað sem ljóst er að allir Íslendingar styðja ekki." Gott er að þessi pistill vakti athygli, enda er mikilvægt að tjá þessar skoðanir og vera kraftmikill við það. Í gær birtist ennfremur góð grein eftir Torfa Kristjánsson á Deiglunni, þar sem hann er að tjá í raun sömu skoðanir og ég. Samhljómurinn er allavega mikill með skoðunum okkar, sem er mikið ánægjuefni. Er nauðsynlegt að fólk sé öflugt að tjá sig um þetta mál og segja skoðanir sínar. Enginn vafi er á því að orðalagið er umdeilanlegt og veldur misskilningi á alþjóðavettvangi að óbreyttu. Er enda talað um að "Við, íslendingar, mótmælum" og svo stendur undir 'Þjóðarhreyfingin' sem á ensku hljómar The National Movement. Þetta hljómar eins og breiðfylking Íslendinga sé að baki og að auki að þetta sé í nafni allra landsmanna. Undarlegt orðalag forsvarsmanna hreyfingarinnar þess efnis að kommur breyti orðalaginu eða merkingu þess hljómar ekki sannfærandi, nema síður sé.

Stefán Friðrik StefánssonAukaaðalfundur Varðar - framboð til stjórnar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, hefur ákveðið að boða til aukaaðalfundar í félaginu á laugardag kl. 17:00 í húsnæði flokksins að Kaupangi við Mýrarveg. Á fundinum verður lögð fram stjórnmálaályktun félagsins og jafnframt tillaga stjórnar að lagabreytingu þess efnis að fjölga stjórnarmönnum í félaginu.

Dagskrá fundarins verður svohljóðandi
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
3. Umræður um skýrslu og reikninga.
4. Lagabreytingar.
5. Umræður og afgreiðsla stjórnmálaályktunar.
6. Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda og eins til vara.
7. Önnur mál.
8. Ræða Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra.

Hef ég ákveðið að gefa kost á mér á ný til formennsku í félaginu, enda aðeins nokkrir mánuðir frá seinasta aðalfundi. Telur fráfarandi stjórn rétt að boða til fundar til að fjölga stjórnarmönnum og hefja að því loknu kraftmikið vetrarstarf í félaginu. Með mér eru í framboði sex til stjórnar og þrír til varastjórnar. Í framboði til stjórnar auk mín eru: Bergur Þorri Benjamínsson nemi í viðskiptafræði við HA, Henrik Cornelisson nemi við Menntaskólann á Akureyri, Júlíus Kristjánsson nemi við Menntaskólann á Akureyri, Sigurgeir Valsson nemi við Menntaskólann á Akureyri, Sindri Alexandersson nemi við Menntaskólann á Akureyri, og Sindri Guðjónsson laganemi við HA. Í framboði til varastjórnar eru: Atli Hafþórsson nemi, Jóna Jónsdóttir kynningarfulltrúi Háskólans á Akureyri, og María H. Marinósdóttir leikskólakennari. Er þetta öflugur hópur góðs fólks sem er staðráðinn í að vinna vel fyrir félagið og flokkinn hér í bænum á komandi starfsári.

Áhugavert efni
Umfjöllun á vísir.is um auglýsingu 'Þjóðarhreyfingarinnar'
Leyfum öndunum að lifa - pistill Halldórs Blöndal forseta Alþingis
Jólagjöf R-listans til Reykvíkinga - tilkynning D-listans í borgarstjórn
Slæm hugmynd - pistill Torfa Kristjánssonar um væntanlega auglýsingu í NYT
Stjórnarskrá ESB er ógnun við lýðræði, frelsi og grósku - pistill Vef-Þjóðviljans

Dagurinn í dag
1879 Jón Sigurðsson forseti, lést í Kaupmannahöfn, 68 ára að aldri. Hann var jarðsettur í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur, konu sinni, sem lést skömmu síðar, 16. desember 1879
1881 Minnisvarði um Jón Sigurðsson forseta, var afhjúpaður á gröf hans og eiginkonu hans í kirkjugarðinum við Suðurgötu, tveim árum eftir lát hans. Minnisvarðinn var gerður fyrir samskotafé
1941 Japanir ráðast óvænt á herstöð Bandaríkjanna í Pearl Harbor á Hawaii - 2400 Bandaríkjamenn létu lífið í árásinni, sem varð til þess að Franklin Roosevelt forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir stríði á hendur Japönum. Bandaríkjamenn urðu með þessu beinn þátttakandi að seinni heimsstyrjöldinni
1975 Indónesar ráðast inn í Austur-Tímor, sem Portúgalar höfðu yfirgefið nokkrum mánuðum fyrr
2001 Áhöfn þyrlu varnarliðsins bjargaði skipbrotsmanni úr Sigurborgu við mjög erfiðar aðstæður, en skipið hafði strandað við Svörtuloft á Snæfellsnesi. Þrír fórust. Eitt mesta björgunarafrek seinni ára

Snjallyrði dagsins
Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.
Á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur sólin aldrei niður í sæ.

Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja
og hreimur sætur fyllir bogagöng
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Gígjan)