Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 desember 2004

Halldór Kiljan LaxnessHeitast í umræðunni
Mikið hefur á seinustu árum verið rætt og ritað um nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness. Allt frá andláti hans í febrúar 1998 hefur Halldór verið áberandi bæði í ræðu og ekki síst á riti. Hefur þetta verið áberandi einkum seinustu tvö árin, en nú fyrir þessi jól og eins þau seinustu hafa komið út ítarlegar ævisögur um Halldór. Í fyrra kom út fyrsta bindið af þrem eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson um skáldið, sem bar nafnið Halldór. Fyrir þessi jól koma út annað bindi ritsins eftir Hannes, sem ber nafnið Kiljan, og ítarleg ævisaga Halldórs Guðmundssonar bókmenntafræðings, í einu bindi. Fjölskylda skáldsins var mjög andvíg því frá upphafi að Hannes ritaði um Halldór. Reyndi hún að hindra aðgang hans að skrifum skáldsins með því að loka bréfasafni hans næstu þrjú árin. Einungis Halldóri Guðmundssyni og Helgu Kress prófessor var veittur aðgangur að því. Eins og flestir vita er Hannes umdeildur vegna skoðana sinna, hann hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar. Væntanlega vegna þess tók fjölskylda skáldsins þá ákvörðun að loka bréfasafninu og gat ekki sætt sig við það að hann ritaði um ævi hans.

Um er að ræða þjóðskáld Íslendinga, að mínu mati merkasta rithöfund 20. aldarinnar, og hann settur á þann stall af vissum hópi þannig að ekki megi skrifa um hann nema af útvöldum. Mikið var rætt og ritað um fyrsta bindið eftir Hannes. Margir höfðu á því skoðanir, eins og gefur að skilja, enda bók skrifuð af umdeildum manni um enn umdeildari mann í sögu landsins. Athygli vakti þó jafnan að þegar spekingarnir sem dæmdu bók Hannesar fyrir ári voru spurðir að því hvort viðkomandi hefðu lesið bókina sem málið snýst um kom fram að svo var ekki. Var fróðlegt að margir höfðu skoðun á ritinu en ekki lesið það eða kynnt sér ítarlega áður en það felldi dóma yfir því. Stefndi lengi vel í það að annað bindið kæmi ekki út vegna tafa við vinnslu á lokahandritinu, vegna veikinda Hannesar og fleiri þátta. Liggur nú fyrir að hann gefi annað bindið út, vegna fjölda áskorana þeirra sem lásu bókina og höfðu áhuga á henni. Kemur það út 10. desember nk. Ég las fyrsta bindið um jólin í fyrra og las það aftur í sumar. Skrifar Hannes af mikilli virðingu um skáldið og verður bæði fróðlegt og gaman að lesa framhaldið, sem mun lýsa árunum 1932-1955 er hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels. Stefni ég að því að lesa báðar bækurnar um jólin. Ekki verður síður áhugavert að lesa bók Halldórs Guðmundssonar, enda hefur hann mjög stúderað í ferli skáldsins og gert t.d. þrjá fróðlega sjónvarpsþætti um hann. En það er ljóst að Halldór Kiljan Laxness verður áberandi í bókmenntaumræðunni fyrir og eftir þessi jólin.

BessastaðirVenju samkvæmt bauð forseti Íslands þingmönnum til veislu að Bessastöðum að kvöldi fullveldisdagsins, 1. desember. 17 af 22 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins voru forfallaðir og mættu því ekki í veislu forsetans. Eins og öllum er kunnugt breyttist eðli og staða forsetaembættisins mjög á þessu ári. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi skoðanir á ákvörðunum forsetans, einkum í máli ársins þar sem þjóðhöfðinginn stuðlaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að því að sundra þjóðinni og taka sér í hendur vald sem mjög er deilt um hvort sé til staðar og virkt í raun. Tel ég fullkomlega eðlilegt að fólk gagnrýni forsetann beint og embættið ef það telur ástæðu til þess. Ekki er því hægt að segja að fjarvera þingmanna komi óvænt eða sé óeðlileg. Vandséð er hvernig takast megi að brúa þá gjá sem myndast hefur milli Alþingis og þess forseta sem situr nú sitt þriðja kjörtímabil og á eftir að sitja í embætti, a.m.k. fjögur ár. Það þarf varla að vera undrunarefni fyrir pólitíska spekúlanta vinstrimanna, sem undrast fjarveru þingmanna, að svona sé komið. Þetta er umfram allt staðfesting þess að forsetinn er ekki lengur sameiningartákn þjóðarinnar. Einfaldara verður það nú varla. Er þetta bara sá raunveruleiki sem blasir við.

Ráðið
Ég skrifaði eins og flestir tóku eftir í gær um málefni tengd umfjöllun DV um tónleika styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Í umfjöllun blaðsins var ráðist mjög ósmekklega að Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara. Vinur minn, Helgi Vilberg skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri og ritstjóri Íslendings, vefs okkar sjálfstæðismanna í bænum, benti mér á gott ljóð í kjölfar skrifanna. Lýsir það vel í kjarnyrtu máli umfjöllun DV og aðkomu Reynis Traustasonar að því og framkomu í fjölmiðlum við að verja skrif sín. Ljóðið heitir Ráðið og er eftir eyfirska skáldið Pál J. Árdal.

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu, að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

En þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu " Hann brotlegur sannlega er,
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir.
En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir."

Svo legðu með andakt að hjartanu hönd.
Með hangandi munnvikum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happasælu ráð,
ég held þínum vilja þá fáir þú náð
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.
En máske, að þú hafir kunnað þau áður!

Áhugavert efni
Donald Rumsfeld verður áfram varnarmálaráðherra
Bernard Kerik tilnefndur sem ráðherra heimavarnarmála
Tilkynnt um tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna
Úrslit úkraínsku forsetakosninganna ógilt af hæstarétti landsins
Egill Helgason fer yfir fréttavikuna - Hemmi Gunn fer yfir fréttavikuna

Ályktun stjórnar SUS um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar
Tekjuskattur eða gjaldtaka - pistill Páls Jóhannessonar
Pælingar um fullveldisdaginn - pistill Hjartar Guðmundssonar
Umfjöllun um ábyrgðarsjóð launa - pistill Vef-Þjóðviljans

Dagurinn í dag
1739 Steinn Jónsson biskup á Hólum, lést, 79 ára að aldri. Steinn sat á biskupsstóli á Hólum í 28 ár
1970 Verslunarmiðstöðin Glæsibær í Reykjavík vígð - þar var þá stærsta matvöruverslun á landinu
1981 Menntamálaráðuneytið staðfesti þá ákvörðun Náttúruverndarráðs um að friðlýsa Þjórsárver
1992 Georgíumaðurinn Grigol Matsjavariani kom til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar, en hann var sjálfmenntaður í íslensku. Grigol dvaldi hér í hálft ár við fræðistörf. Hann lést í bílslysi í Tbilisi 1996
1998 Kvótadómurinn - Hæstiréttur kvað upp þann dóm að fimmta grein laga um stjórn fiskveiða væri í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Dómurinn var kenndur við Valdimar Jóhannesson

Morgundagurinn
1954 Kvikmyndin Salka Valka, gerð eftir sögu Halldórs Kiljans Laxness, var frumsýnd hérlendis
1971 Veitingahúsið Glaumbær við Fríkirkjuveg í Reykjavík brann. Glaumbær var einn af vinsælustu skemmtistöðunum í borginni í rúman áratug. Húsið var síðar gert upp, þar er nú Listasafn Íslands
1981 Stytta af heilagri Barböru var afhjúpuð á messudegi hennar í kapellu í Kapelluhrauni við Straumsvík. Lítið steinlíkneski af Barböru fannst í kapellunni árið 1950 og þótti sá fundur merkur
1991 Síðasta bandaríska gíslinum í Líbanon, fréttamanninum Terry Anderson, var sleppt úr haldi
1993 Bandaríska rokkgoðið og tónskáldið, Frank Zappa, lést úr krabbameini, 52 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
One ought never to turn one's back on a threatened danger and try to run away from it. If you do that, you will double the danger. But if you meet it promptly and without flinching, you will reduce the danger by half.
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)