Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 nóvember 2004

DalvíkurbyggðHeitast í umræðunni
Eins og ég sagði frá á mánudag sprakk meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar um seinustu helgi, vegna ágreinings milli flokkanna um framtíð skóla að Húsabakka í Svarfaðardal. Sjálfstæðismenn vildu leggja skólann niður en framsóknarmenn vildu fresta ákvörðun og setja málið í nefnd sem skilaði ekki tillögum fyrr en í mars 2005. Á þessar tillögur framsóknarmanna gátu sjálfstæðismenn ekki sætt sig við og meirihlutanum var slitið. Í framhaldinu hófust þreifingar um nýjan meirihluta. Sameining, listi vinstrimanna, sem verið hefur í minnihluta frá seinustu kosningum var komið í oddaaðstöðu og hóf viðræður við Framsóknarflokkinn um samstarf. Upp úr viðræðum þeirra slitnaði í gærkvöldi vegna þess að framsóknarmenn gátu ekki sætt sig við tillögur Sameiningar að málefnasamningi, nefndaskipan og hugmyndir Sameiningar um skiptingu embætta. Framsóknarflokkurinn sættir sig engan veginn við afstöðu Sameiningar til mála og telur tillögur þeirra leiða til aukinna útgjalda, sem ekki sé hægt að sætta sig við.

Ljóst er að stjórnarkreppa er skollin á í bæjarmálum á Dalvík og vandséð hvernig mynda eigi nýjan meirihluta með Sameiningu, annaðhvort með B- eða D-lista meðan vinstrimenn leggja áherslu á að fá meirihluta nefndarmanna í samstarfi eða þá að gera Svanfríði Jónasdóttur fyrrum alþingismann og bæjarfulltrúa vinstrimanna á Dalvík, að bæjarstjóra í sveitarfélaginu. Greinilegt er að framsóknarmenn sætta sig alls ekki við seinastnefnda kröfuna. Þótti mér alltaf blasa við að þeir ættu erfitt með að samþykkja þá kröfu, sérstaklega á þeim forsendum að Valdimar Bragason bæjarstjóri, er pólitískur leiðtogi Framsóknarflokksins og hann ekki tilbúinn né flokkurinn í heild til að afsala sér embættinu komi til samstarfs við aðra flokka. Á þessu byggist eflaust grunnur afstöðu framsóknarmanna til málsins. Skotin ganga nú samkvæmt fréttum á milli Framsóknarflokks og Sameiningar og greinilegt að enginn grundvöllur er fyrir samkomulagi að meirihluta, þeirra á milli. Ljóst er því nú að starfhæfur meirihluti verður ekki myndaður í sveitarfélaginu án Sjálfstæðisflokksins. Það verður Svanhildar Árnadóttur leiðtoga D-listans, að ákveða hvað gerist nú í málefnum Dalvíkurbyggðar. Sjálfstæðisflokkurinn er í oddastöðu í málinu. Tel ég rétt að Svansa vinkona mín, íhugi nú vel næstu skref. Persónulega tel ég rétt að fyrri meirihluti sitji áfram og klári tímabilið.

ÚkraínaMiklar deilur hafa staðið seinustu daga í Úkraínu vegna forsetakosninganna sem þar fóru fram á sunnudag. Þar stóð valið á milli þeirra Viktors Yanukovych forsætisráðherra Úkraínu, og Viktor Yushchenko leiðtoga stjórnarandstöðunnar og fyrrum forsætisráðherra. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni og var spáð sigri í kosningunum. Útgönguspár á sunnudag gáfu til kynna um að hann myndi sigra með 7-8% mun. Raunin varð sú að Yanukovych vann nauman sigur og hlaut 2% meira eftir að talningu lauk. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í norðurhéruðum landsins. Efndu stjórnarandstæðingar til fjöldamótmæla í Kiev á sunnudaginn og hafa þau staðið allt síðan, enda bendir allt til þess að stórfelld kosningasvik hafi átt sér stað. Vestræn kosningaeftirlit telja ljóst að kosningarnar hafi ekki farið heiðarlega fram, enda passi kosningatölur engan veginn saman í heildræna mynd.

Í dag var svo Yanukovych formlega yfirlýstur sem sigurvegari kosninganna af yfirkjörstjórn landsins. Mun það aðeins verða eins og olía á þann eld sem magnaður var með kosningunum. Borgarastyrjöld vofir yfir og gefur hvorugur aðilinn eftir. Stjórnarandstaðan heimtar það að kjörið verði endurtekið eða þá að úrslit kosninganna verði leiðrétt. Stjórnin undir forystu Leonid Kuchma fráfarandi forseta, neitar að verða við kröfunum og hættan blasir því við að hernum verði sigað á almenning á götum úti sem mótmæla. Hefur stjórnarandstaðan sagt að vitað sé um 11.000 tilvik þar sem brot hefðu verið framin gegn kosningalöggjöfinni í báðum umferðum kosninganna. Á þeim forsendum sé ómögulegt að taka undir úrslitin, enda fylgismunurinn ekki mikill. Haft hefur verið eftir einum leiðtoga andstöðunnar að nú væru öll lögfræðileg úrræði til að leysa þetta vandamál þrotin og gatan muni nú tala. Við blasir að kosningarnar fóru ekki heiðarlega fram. Vonandi er að niðurstaða náist í málið og ekki komi til blóðugra átaka. Vestræn yfirvöld eru mikilvægustu bandamenn stjórnarandstöðunnar og viðurkenna ekki úrslitin, stjórnvöldum í Úkraínu er því ljóst að með því að beita vopnavaldi brenna þau allar brýr að baki sér. Fróðlegt verður að fylgjast með því sem tekur við í Úkraínu nú.

Akureyrarkirkja á aðventu 2003Jólaundirbúningurinn
Í dag er mánuður til jóla. Jólaundirbúningurinn er því að fara af stað hjá flestum af krafti. Skammdegið er skollið á með sínu tilheyrandi myrkri, snjórinn sem fallið hefur seinustu daga hefur lýst upp myrkrið. Á stöku stöðum er fólk farið að setja upp jólaljós og bærinn er óðum að verða jólalegri. Starfsmenn Akureyrarbæjar eru nú í óða önn að koma bænum í jólabúninginn. Aðventa hefst á sunnudag, á laugardag verður kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti.

Flestir telja óhætt að hefja undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund. Ávörp munu flytja Helgi Jóhannesson konsúll Dana á Akureyri, og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri. Lúðrasveit Akureyrar mun leika létt lög við þessa hátíðarstund og kór eldri borgara ásamt Aðalsteini Bergdal syngja nokkur jólalög. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, er núverandi formaður kórs eldri borgara og hefur verið í kórnum allt frá stofnun árið 1988. Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.

Húmorinn
There is political talk of amending the constitution so that Arnold Schwarzenegger could be president. The Democrats are against it. First they want the constitution changed so a Democrat can be president again.

The Clinton Library is filled with more than 80 million presidential items, many that vibrate.
Jay Leno

There was another White House resignation today - Laura Bush. That's right. Laura Bush is stepping down. She is going to be replaced by Mary Tyler Moore.

Did you see that melee at the Pacers and Pistons game? There was screaming, shoving, rioting. Well, no big deal, it was just like Arafat's funeral
David Letterman

Dagurinn í dag
1963 Lee Harvey Oswald meintur morðingi Kennedy forseta, myrtur í Dallas - Oswald var skotinn af næturklúbbaeigandanum Jack Ruby í lögreglustöðinni í Dallas í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva er flytja átti hann í alríkisfangelsi Texas. Oswald lést síðar um daginn í Parkland sjúkrahúsinu, á sama stað og forsetinn var úrskurðaður látinn tveim dögum áður. Ruby upplýsti aldrei um tildrög morðsins
1963 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í ræðu í bandaríska þinginu um helstu áherslur stjórnar sinnar fram að forsetakosningunum 1964. Eitt aðalatriða í stefnunni var að herlið Bandaríkjanna í Víetnam skyldi styrkt til muna - stríðið leiddi til þess að hann varð sífellt óvinsælli. Hann ákvað að hætta sem forseti árið 1968 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakjöri það ár
1989 Kommúnistastjórnin í Tékkóslóvakíu fellur með mildum hætti - bylting stjórnarandstöðuaflanna hefur jafnan verið kölluð flauelsbyltingin sökum þess hversu mildilega hún gekk fyrir sig að lokum
1991 Freddie Mercury söngvari rokkhljómsveitarinnar Queen, lést úr alnæmi, 45 ára að aldri. Fráfall hans kom mjög óvænt, en aðeins degi áður en hann lést hafði verið tilkynnt formlega að hann væri HIV smitaður. Hann veiktist snögglega af lungnabólgu sem dró hann til dauða. Mercury var einn af risum rokktónlistarinnar á 20. öld og markaði þáttaskil með hljómsveit sinni í sögu tónlistarinnar
1998 Elísabet drottning, tilkynnir formlega í stefnuræðu ríkisstjórnar Verkamannaflokksins undir forsæti Tony Blair, um talsverðar breytingar á starfsemi hinnar sögufrægu bresku lávarðadeildar

Snjallyrði dagsins
Út til annarra landa
fer árlega fjöldi manns,
sem gerði lítið úr gróðri
síns gamla heimalands.

En svo koma fley úr förum
með ferðamennina heim,
og ættjörðin speglast aftur
í augunum á þeim.

Því lengri för sem er farin,
því fegra er heim að sjá,
og blómið við bæjarvegginn
er blómið sem allir þrá.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Blómið)