Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 nóvember 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Seinustu daga hefur farið fram á Alþingi umræða um fjárlagafrumvarp ársins 2005. Skrautlegt hefur verið að fylgjast með stjórnarandstöðunni í málinu, eins og ég sagði hér fyrr í vikunni er skrautlegast þó að sjá þingmenn Samfylkingarinnar sem lögðu fram 16 milljarða skattalækkunarpakka fyrir landsmenn í seinustu kosningabaráttu segja að ekkert svigrúm sé til að lækka skattana. Það hefur greinilega ekkert samræmi verið á milli loforða þeirra og efnda á þeim. Þessi fögru loforð andstöðunnar hefðu vart verið efnd ef marka má þessi orð sem falla í þingsölum nú. Sami söngurinn hefur nú vaknað og oft áður hjá vinstrisinnuðustu þingmönnum Samfylkingarinnar og öllum græningjunum sem telja það heimsendi ef talað er um skattalækkanir. Hver þingmaðurinn á eftir öðrum kemur í ræðustól af hálfu andstöðuflokkanna og segja hver í takt við annan að ekki megi lækka skatta. Það megi gera þetta segja þeir sumir, en bara ekki á þessum tímapunkti.

Þessi málflutningur er skondinn og allathyglisverður svo ekki sé nú meira sagt, þegar litið er yfir sviðið. Stjórnarflokkarnir eru að efna kosningaloforð sem lögð voru fyrir kjósendur. Hvaða söngur ætli hefði nú heyrst ef ekki hefði verið staðið við skattalækkunarloforðin? Hefði þá ekki sama krummagalið heyrst frá vinstrimönnum, sem reyna að nota allt til að krúnka yfir. Lengi vel reyndi stjórnarandstaðan að segja að þessar breytingar högnuðust aðeins afmörkuðum hópi fólks, talað var um hátekjufólk og hvað eftir öðru. Í gærkvöldi var svo ítarleg fréttaskýring í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 og farið yfir málið. Þar kom fram að þriðji hver skattgreiðandi myndi hagnast á því að eignaskattur yrði afnuminn. 60% þeirra sem græða á afnámi skattsins eru með innan við 200.000 krónur í mánaðarlaun og hagnast að meðaltali um rúmar 35.000 krónur á ári. Samkvæmt tölum frá fjármálaráðuneytinu nam eignaskattur einstaklinga rúmum 2,4 milljörðum í fyrra. Tæplega 230 þúsund Íslendingar greiddu skatt í fyrra, þar af greiddi tæpur þriðjungur þeirra, eða rúmlega 67 þúsund manns, eignaskatt. 40 þúsund úr hópi þeirra sem tilheyra lægstu tekjuhópum samfélagsins greiða eignaskatt og nam hann samtals í fyrra rúmlega 1380 milljónum króna, eða vel rúmur helmingur alls þess eignaskatts sem innheimtur var í fyrra. Verði eignaskattur felldur niður á næsta ári, eins og stefnt er að í skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, hagnast þetta fólk að meðaltali um tæplega 35 þúsund krónur á ári. Hvað er svo í lokin eftir þessa talnarunu, hægt að segja um málflutning stjórnarandstöðunnar? Fá orð fá held ég lýst þeim hráskinnaverknaði sem kemur fram af þeirra hálfu þessa dagana.

Mótmæli í ÚkraínuStjórnarandstaðan í Úkraínu mótmælir í dag, fimmta daginn í röð, úrslitum forsetakosninganna í landinu. Mótmælin fara fram í miðborg Kiev, höfuðborgar landsins. Fólk lætur sig hafa það að standa úti í ískulda, en vetrarfrost og snjókoma var t.d. í gærkvöldi í borginni. Viktor Yushchenko forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar, kom fram á fundi með almenningi í miðborginni í gærkvöldi og hvatti alheiminn að sýna stuðning sinn í verki við glæpaverkum stjórnarforystunnar sem hafði fyrr um daginn staðfest formlega úrslit forsetakosninganna. Þar er Viktor Yanukovych forsætisráðherra, lýstur sigurvegari kosninganna. Stjórnarandstaðan hefur hvatt almenning til að leggja niður vinnu og lama samfélagið til að sýna mátt fylkingarinnar. Miklar deilur eru uppi og vandséð hvernig sameina megi ólík sjónarhorn og fá einhverja niðurstöðu sem báðum fylkingum líkar við. Evrópusambandið, Bandaríkjastjórn hefur opinberlega tilkynnt að ómögulegt sé að staðfesta úrslit kosninganna sem lagðar hafi verið fram, enda greinilega röngu verið beitt víða í talningu og tölur passi ekki saman.

Lech Walesa handhafi friðarverðlauna Nóbels 1982 og fyrrum forseti Póllands og leiðtogi Samstöðu, er nú kominn til Úkraínu, til að reyna að miðla málum milli fylkinganna. Stjórnarandstaðan hefur áfrýjað úrslitum kosninganna til Hæstaréttar Úkraínu. Verður fróðlegt að sjá hvað gerist í málum þar, en stjórnarforystan hefur tögl og hagldir í öllu stjórnarkerfi landsins. Þó er ekki vitað hvað Hæstiréttur gerir í stöðunni sem upp er komin. Greinilegt er að stjórnarandstaðan reynir þá leið til að fá úr skorið með stöðu sína. En á meðan samningaviðræðum og málaferlum stendur heldur almenningur mótmælum áfram og tjáir andstöðu sína við stöðu mála. Ruslana Lezhychko, sem er ein helsta poppstjarna landsins og sigraði í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí með lagi sínu Wild Dances, hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni og hefur hafið hungurverkfall til þess að mótmæla kosningasvikunum. Ágreiningur er kominn upp milli Rússa og ESB um þetta mál. Kom það vel fram á fundi þeirra í Haag í dag. Vladimir Putin forseti Rússlands, studdi framboð forsætisráðherrans heilshugar og hefur varið úrslit kosninganna og sagt engan ágreining vera uppi. Putin hefur þó sagt rétt að dómstólar beiti sér í stöðunni ef það megi lægja öldur. Greinilegt er að óánægjuöldurnar krauma undir í Úkraínu og borgarastyrjöld vofir yfir landinu að óbreyttu.

Íslenskar krónurRíkiskassinn - hvað kostar?
Mikið af gagnlegum og góðum upplýsingum er að finna á vef fjármálaráðuneytisins. Einkum er athyglisvert að skoða þar undirvef sem ber nafnið Ríkiskassinn. Þar koma fram athyglisverðar upplýsingar um ríkiskassann okkar allra, sem við borgum í og eigum þátttöku í að halda vörð um. Athyglisverðar tölur er þar að finna, t.d. það að íslenska ríkið veitir um 280 milljörðum króna á ári í sameiginleg verkefni okkar og að um 20.000 manns starfa hjá ríkinu við að veita þjónustu. Vefnum er ætlað að varpa ljósi á ríkisbúskapinn og hlutverk hans í hagkerfinu, hvers vegna og hvernig einstök verkefni eru valin og með hvaða hætti ríkið sinnir skyldum sínum við landsmenn, hvernig farið er með peningana okkar. Sérstaka athygli mína vakti einn af vefum sem þar er að finna og ber nafnið Hvað kostar?. Þar er að finna athyglisverðar tölur um kostnað við ýmsa hluti, svona meðaltalstölur við kostnað. Gott dæmi er landbúnaðurinn. Hverjum hefur í gegnum tíðina ekki blöskrað báknið í kringum hann á kostnað mín og þín og ekki síður Jóns og Gunnu í næstu götu. Um landbúnaðinn segir á vefnum: "Ríkið tekur þátt í kostnaði við framleiðslu á mjólk, sauðfjárafurðum og grænmeti samkvæmt samningi við samtök framleiðenda. Að auki leggur ríkið Bændasamtökum Íslands til rekstrarframlag og leggur fé í ýmsa sjóði landbúnaðarins. Í fjárlögum 2004 eru greiðslur vegna þessa áætlaðar 7,6 milljarðar króna eða um 26.000 kr. á hvern landsmann." Fróðlegt, ekki satt? Líttu á, sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Húmorinn
Dan Rather announced that he's stepping down as the anchor of the CBS Evening News. I had a feeling something was coming yesterday when he signed off with, 'I'm Dan Rather and you can all bite me.

Dan Rather is actually leaving the anchor desk, I can't believe it! Though Rather said he hasn't been able to verify it yet. So it's not official.

He uses all those Texas expressions. He said: He'd leave when the kettle starts whistling at the frying pan. What does that mean?
Jay Leno

Dagurinn í dag
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, var jarðsunginn við hátíðlega athöfn í Washington - eftirminnileg er svipmyndin er sonur hans, John Fitzgerald yngri kvaddi föður sinn við dómkirkjuna, en hann varð þriggja ára þennan dag. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington
1973 George Papadopoulos forseta Grikklands, steypt af stóli í valdaráni hersins - herstjórn tók við völdum sem sat aðeins í rúmt ár. 1974 var lýðræði komið á og Constantine Karamanlis kjörinn forseti
1984 36 heimsþekktir söngvarar frá Bretlandi og Írlandi koma saman í hljóðveri í London til að syngja jólalag: Do They Know It's Christmas, til styrktar hungruðum í Eþíópíu - var endurhljóðritað 2004
1992 Þing Tékkóslóvakíu samþykkir að skipta því í tvennt, Tékkland og Slóvakíu, frá 1. janúar 1993
2002 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, undirritar ný lög, svokölluð heimavarnarlög, sem sett voru til styrktar vörnum landsins í kjölfar hryðjuverka í New York og Washington, 11. september 2001

Snjallyrði dagsins
Því allt sem var
er með henni farið burt frá þér,
sem fugl að hausti horfinn er.
Eins og sólin heit í sumarhjarta
er sökk í myrkrið svarta.

En ég veit,
að sólin vaknar á ný,
handan vetrarins, þú mátt trúa því.
Og ef þú opnar augu þín
muntu sjá hana þíða sorg úr hjarta þínu.
Karl Mann (Hjartasól)