Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 janúar 2005

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með borgarmálum í fjölmiðlum að undanförnu og stjórn R-listans á borginni er nú sem fyrr mjög umdeilanleg. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu vakið athygli á skattahækkunum og sviknum loforðum R-listans. Það var gert með enn markvissari hætti með auglýsingu í Morgunblaðinu í gær undir yfirskriftinni: "Jólagjöfin sem þú getur ekki skilað". Eins og fram hefur komið var eitt síðasta verk R-listans fyrir jólin að staðfesta verulegar skatta- og gjaldahækkanir á Reykvíkinga í fjárhagsáætlun fyrir árið 2005, þvert á þau loforð, sem forystufólk framboðsins t.d. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrum leiðtogi listans og borgarstjóri 1994-2003, gáfu fyrir borgarstjórnarkosningarnar 25. maí 2002. Í auglýsingu borgarfulltrúanna eru tekin þrjú dæmi vegna hækkunar útsvars: fasteignaskatta, sorphirðugjalds og leikskólagjalds þar sem annað foreldri er í námi: í fyrsta lagi að hjón með 6 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 m.kr. greiða 25.772 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004. Í öðru lagi að hjón með 3 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 milljónir króna og með barn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 68.652 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004. Í þriðja og síðasta lagi að hjón með 3 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 milljónir kr. og með 2 börn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 109.065 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004.

Þessi dæmi segja allt sem segja þarf um hvernig kosningaloforð R-listans hafa verið svikin og þarfnast varla frekari útskýringa við. Nægir að líta á blaðaviðtal við þáverandi leiðtoga framboðsins í maí 2002. Lengi vel neituðu forystumenn R-listans að viðurkenna skuldastöðu borgarinnar og slæma stöðu hennar. Nú ber annað við og allt í einu nú er feluleiknum að mestu hætt og spilin lögð á borðið. Enn er R-listinn þó í algjörri afneitun greinilega á vissum stigum málsins. Er mikilvægt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tjái sig með auglýsingunni og vekji Reykvíkinga til umhugsunar um fjármálastjórn R-listans. Viðbrögð borgarstjóra við auglýsingunni voru þau að fara með hefðbundnar rangfærslur og útúrsnúninga að hætti R-listans. Hélt hún því fram að auglýsingin væri villandi og fullyrti að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu væru að hækka sömu gjöld með sama hætti. Þetta er einfaldlega rangt. Til dæmis hefur útsvar ekki verið hækkað í Garðabæ og Seltjarnarnesi, en þar fara sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta. Í Kópavogi nemur hækkun útsvars 0,09% en Reykjavíkurborg hækkar útsvarið hinsvegar um 0,33%. Svo einfalt er að ekkert sveitarfélag á Íslandi hefur hækkað útsvar jafn mikið frá árinu 1998 og Reykjavíkurborg. Það er eftirtektarvert að langstærsta og öflugasta sveitarfélag landsins sé að hækka skatta umfram önnur minni sveitarfélög. Þvert á móti ætti Reykjavík að geta rekið opinbera þjónustu með minni tilkostnaði en önnur sveitafélög fyrir tilstuðlan hagkvæmni sem hlýst af stærð sveitarfélagsins. Það er ekki hægt að vísa á önnur og minni sveitarfélög og reyna að finna þar réttlætingu fyrir fjármálaóstjórninni í Reykjavík. Meginástæðan fyrir skattahækkunum R-listans er einfaldlega léleg fjármálastjórn og stóraukin skuldasöfnun.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherraHalldór Ásgrímsson forsætisráðherra, skipaði í dag Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, sem formann stjórnarskrárnefndar. Eins og ég sagði frá hér í gær hefur nefndin það hlutverk að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og hefja umræðu um breytingar sem lagðar verði fram fyrir þingkosningar eftir tvö ár. Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður varaformaður nefndarinnar. Auk þeirra verða í nefndinni: Þorsteinn Pálsson sendiherra og fyrrum forsætisráðherra og Birgir Ármannsson alþingismaður (að hálfu Sjálfstæðisflokksins), Jónína Bjartmarz (að hálfu Framsóknarflokksins), Össur Skarphéðinsson alþingismaður, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi (að hálfu Samfylkingarinnar), Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður (að hálfu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs) og Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður (að hálfu Frjálslynda flokksins). Með nefndinni mun starfa fjögurra manna sérfræðinganefnd. Í henni verða Eiríkur Tómasson lagaprófessor, sem verður formaður, og ennfremur Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði og Björg Thorarensen lagaprófessor.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að endurskoðunin verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt skal að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár. Báðum nefndum er ætlað að hefja störf hið fyrsta. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Mjög mikilvægt er að gera skýrt í eitt skipti fyrir öll hvert sé valdsvið forseta og eyða öllum vafaatriðum um embættið. Nú er loksins komið að hinni pólitísku forystu að taka af skarið í þessum efnum. Fagna ég því að það hafi verið gert með skipun nefndar af hálfu forsætisráðherra og ferlið sé því komið af stað. Eins og ég lýsti yfir hér í gær er mikilvægt að taka sérstaklega til opinnar umræðu málefni 26. greinarinnar: hvernig eigi að breyta henni og hvort forseti eigi áfram að hafa þann möguleika opinn að geta stöðvað af þingmál lýðræðislega kjörins þings. Mín skoðun liggur vel ljós fyrir, en nú er komið að því að taka umræðuna í samfélaginu. Mikilvægt er að sem flestir hafi skoðun á þessu máli. Svo þarf nefndin að taka á öllum vafaatriðum tengdum þessum málum, sem hefur verið deilt um að undanförnu.

Sumarblíða í Fljótsdal á AusturlandiÁramótakveðja Ríkisútvarpsins
Á gamlárskvöld flutti Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, áramótakveðju frá Ríkisútvarpinu. Að þessu sinni ávarpaði Markús þjóðina frá Skriðuklaustri í Fljótsdal á Austurlandi, en þar bjó Gunnar Gunnarsson skáld, í mörg ár og þar er nú safn til minningar um hann. Inn á milli atriða með Markúsi var fléttað tónlistaratriðum þar sem einsöngvarar, kórar og hljómsveit á Austurlandi fluttu tónlist eftir austfirsk tónskáld, t.d. Inga T. Lárusson, Björgvin Guðmundsson og Jón Þórarinsson. Seinustu ár hefur áramótakveðja Ríkisútvarpsins verið að þróast í þá átt að kynna tónlist og menningarlíf úti á landi og minna á þekktar perlur íslenskra tónskálda og textahöfunda seinustu aldar. Hófst þetta með þessum hætti fyrir tveim árum en þá flutti Markús Örn ávarp sitt héðan frá Akureyri og var ávarp hans tekið þá upp á Sigurhæðum, heimili sr. Matthíasar Jochumssonar, og Bjarkarstíg 6, sem var heimili Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þar eru nú söfn til minningar um þá. Kórar og tónlistarhópar í bænum fluttu þá tónlist eftir ljóð þeirra. Í fyrra var dagskráin tekin upp á Ísafirði og lög Sigvalda Kaldalóns hljómuðu.

Er þetta vel til fundið og mikilvægt að leitað sé í þennan merka tónlistararf og kynnt lög og ljóð merkra Íslendinga, sem eru þjóðinni mjög kær. Eiginlega er það menningarleg skylda RÚV sem ríkisstofnunar að gera þetta, meira mætti gera af þessu ef stofnunin á að standa undir nafni sem slík. Nú var mjög ánægjulegt að heyra lög meistarans austfirska Inga T. Lárussonar, en óhætt er að fullyrða að fáum mönnum á seinustu öld hafi tekist betur að semja falleg og táknræn lög sem hittu beint í hjartastað með fegurð sinni. Lengi hef ég verið mikill aðdáandi laga Inga T. Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, sem bjó á Eskifirði í 50 ár og taldi sig alltaf Austfirðing, þó hún hafi reyndar verið fædd í Eyjafirði en flutt ung austur og búið svo í Eyjafirði seinustu 26 ár ævi sinnar, kenndi mér að meta lög Inga. Henni voru þau alltaf kær. Að hennar mati auðnaðist engum betur að semja frá hjartanu lög með tilfinningu, lög með sanna sál. Með árunum hef ég sífellt betur séð að þetta er rétt. Ingi T. Lárusson var einstakur snillingur, lagahöfundur af guðs náð. Þegar líða tók að ævilokum ömmu minnar lagði hún áherslu á það við mig að tryggja að við útför hennar hljómuðu þessi lög. Það tryggði ég og þegar hún var kvödd á Eskifirði við útför hennar þann 22. janúar 2000, hljómuðu þrjú af bestu lögum Inga að hennar mati: Átthagaljóð, Hríslan og lækurinn og Það er svo margt. Austfirska taugin var sterk og tónlistarsmekkurinn var ekki síðri hjá þessari merku kjarnakonu. Alla tíð hef ég metið Austurland mikils og þau bönd sem tengja mig þangað. Það var því mjög ánægjulegt að horfa á þetta ávarp og heyra þessi fallegu lög og þá kveðju sem útvarpsstjóri flutti að kvöldi gamlársdags.

Saga dagsins
1891 Konráð Gíslason málfræðingur, lést, 31 árs að aldri - hann var einn Fjölnismanna og var mikill brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð. Flestir Fjölnismanna dóu ungir en höfðu þó söguleg áhrif
1917 Fyrsta ráðuneyti Jóns Magnússonar tók við völdum - Jón var forsætisráðh. til dauðadags 1926
1989 Stórbruni varð að Réttarhálsi 2 í Reykjavík þar sem Gúmmívinnustofan hf. og önnur fyrirtæki voru til húsa. Tjónið nam á fimmta hundrað milljónum króna og var hið mesta í sögu brunamála
1994 Samið var við Bandaríkjamenn um samdrátt í rekstri varnarliðsins - orrustuþotum af gerðinni F-15 fækkaði úr 12 í 4 og lokað var hlustunarstöð og miðunarstöð. Hermönnum fækkaði þá um alls 380
2004 Dr. Mikhail Saakashvili kjörinn forseti Georgíu - hafði gegnt embættinu frá nóvember 2003

Snjallyrðið
Man ég þig, mey,
er hin mæra sól
hátt í heiði blikar.
Man ég þig, er máni
að mararskauti
sígur silfurblár.

Hví hafa örlög
okkar beggja
skeiði þannig skipt?
Hví var mér ei leyft
lífi mínu
öllu með þér una?

Sólbjartar meyjar,
er ég síðan leit,
allar á þig minna.
Því geng ég einn
og óstuddur
að þeim dimmu dyrum.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Söknuður)