Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 janúar 2005

ÁramótÁramótakveðja 2005
Í upphafi ársins 2005 vil ég þakka lesendum þessa vefs samfylgdina í gegnum tíðina og jafnframt óska þeim farsæls og gleðilegs árs. Ennfremur vil ég færa þeim öllum kveðju sem ég hef kynnst í gegnum skrifin hér fyrir gagnleg skoðanaskipti og umræður um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Ég hef kynnst mörgum í gegnum skrifin og pólitíska þátttöku á liðnu ári og fyrir það þakka ég af heilum hug, samskipti við fólk um pólitík eða aðra þætti eru nú sem fyrr mjög mikilvæg og gagnleg þegar málefni samtímans eru rædd. Ég vil þakka öllum þeim sem litu á vefinn á liðnu ári fyrir að lesa pistla mína og hugleiðingar um hitamál samtímans. Árið sem að baki er var einkar viðburðaríkt og eftirminnilegt. Margir stórviðburðir áttu sér stað. Fyrir þá sem skrifa um málefni samtímans var nóg að fjalla um. Á seinasta ári ritaði ég um 100 pistla, vikulega birtust sunnudagspistlar um helstu fréttir hverrar viku og margir ítarlegir pistlar um fleiri málefni voru ritaðir og ég hélt úti þessum bloggvef með nær daglegri umfjöllun um helstu málefnin. Ég lít því yfir árið með gleði í huga. Margt gott gerðist á þessu merka ári, mörg ný tækifæri komu til sögunnar og mörg krefjandi verkefni eru að baki. Vonandi verður árið 2005 jafn viðburðaríkt og spennandi eins og hið liðna ár.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2005 fjalla ég um áramótapistil minn sem birtist á gamlársdag og það sem í mínum huga stendur uppúr frá liðnu ári. Einnig fer ég yfir áramótauppgjör almennt. Á gamlársdag birtust t.d. venju samkvæmt áramótagreinar eftir forystumenn stjórnmálaflokkanna í Morgunblaðinu. Birtist ítarleg grein eftir Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, á miðopnu blaðsins. Eins og ávallt er gaman að lesa pólitískar hugleiðingar Davíðs. Að kvöldi gamlársdags ávarpaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þjóðina frá Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Halldór kom mér skemmtilega á óvart í ávarpi sínu. Ávarp hans var gott og hann talaði um hluti sem skipta svo sannarlega máli. Sérstakan samhljóm fann ég með skoðunum mínum og hans um gildi fjölskyldunnar og mikilvægi hinna sönnu fjölskyldugilda. Fagna ég því að hann hafi ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Ekkert á að skipta okkur meira máli en gildi fjölskyldunnar og mikilvægt er að halda vel utan um heilbrigt fjölskyldulíf og styrkja undirstöður hennar, með því styrkjum við allt sem okkur er og á ávallt að vera kærast. Án traustra fjölskyldugilda er lífið allt litlausara og verra. Halda verður vörð utan um þessi gildi af krafti. Ennfremur fjalla ég um umræðuna í Kryddsíld á gamlársdegi.

Kosið verður um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði í apríl á þessu ári og stefnir allt í kosningu um sameiningu allra sveitarfélaganna 10 í eitt. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur markað sér þá stefnu að stuðlað verði að frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu og okkur er því mikið ánægjuefni að fara yfir niðurstöður nýrrar skýrslu RHA, sem styrkir mjög undirstöður í sameiningarmálunum. Enginn vafi er á því í mínum huga og okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega hér á Akureyri og í Dalvíkurbyggð, að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Í samræmi við þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Akureyrar þann 30. desember sl. að leggja til að kosið verði 23. apríl um sameiningu Akureyrarbæjar við Siglufjörð og önnur sveitarfélög í Eyjafirði. Að lokum fjalla ég um umræðuna um sérstakt framboð Akureyringa til Alþingis í næstu þingkosningum eftir tvö ár. Athygli vakti að í áramótaþætti Aksjón lýsti Ragnar Sverrisson einn forsvarsmanna Akureyrarframboðs, því yfir að Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus, væri gjaldkeri framboðsins og lykilbakhjarl. Jóhannes sem sat úti í sal og fylgdist með hreyfði engum andmælum við þessu og því um stórtíðindi að ræða. Einn umfangsmesti kaupmaður landsins virðist vera fjárhagslegur bakhjarl þessa framboðs og virðist vera í lykilhlutverki í stofnun þessa stjórnmálaafls sem að líkum lætur og ef marka má yfirlýsingar í fjölmiðlum er í pípunum. Fjalla ég um þetta og fleira í lok pistilsins.

ÁramótÁramótaþættirnir
Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag voru bæði áramótaþættir Sunnudagsþáttarins og Silfurs Egils, horfði ég á Egil en tók hinn upp. Báðir mjög áhugaverðir. Sérstaklega skondið að sjá Hallgrím Helgason ræða um þvælupistilinn sinn í Fréttablaðinu. Það er frjótt í höfðinu hans Hallgríms greinilega. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Spjallið þar var mjög líflegt og skemmtilegt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um fjölmiðlamálið og náttúruhamfarirnar í Asíu. Klukkan þrjú hófst áramótaþátturinn á bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón, Gaffalbitar. Þar tóku Bjarni Hafþór, Hilda Jana, Sigrún og Þráinn á móti góðum gestum. Í lokin var rætt við bæjarstjóra og Ragnar Sverrisson kaupmann í JMJ, það var einkar skemmtilegt spjall, þar sem rætt var um pólitík af krafti. Einkum var þá vikið að umræðunni um Akureyrarframboð og þar lýsti Raggi því yfir að Jóhannes í Bónus væri einn bakhjarla framboðsins. Merkileg yfirlýsing. En já góður og ferskur þáttur. Reynir og Hjálmar áttu góð innslög með vísur sínar. Um kvöldið var horft á ávarp forsætisráðherra og annálana. Áramótaskaupið var mjög gott, margir góðir punktar. Með því betra seinustu árin. Bestu mómentin voru hiklaust þegar Davíð í eigin persónu kom allri þjóðinni á óvart og reis af skurðarborðinu hjá Saxa lækni (Davíð alltaf frábær), Alfreð í peningakasti siðblindra, rappatriðin tvö og síðast en ekki síst atriðin með Kristjáni. Mjög gott skaup og mikið hlegið. Eftir miðnættið var skotið upp flugeldum og farið svo út að skemmta sér langt fram á nótt. Á nýársdag var horft á gamlar og góðar kvikmyndir og slappað vel af. Var mjög góð helgi hér.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, var í gær sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu sveitarstjórna og byggðamála. Óhætt er að fullyrða að Kristján verðskuldi þennan heiður, enda verið kraftmikill forystumaður á vettvangi sveitarstjórna í tæpa tvo áratugi sem bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og Akureyri allt frá árinu 1986. Ég óska Stjána og Guðbjörgu innilega til hamingju.


Saga dagsins
1871 Stöðulögin - konungur staðfesti lög um stjórnunarlegu stöðu Íslands í konungssambandinu við Danmörku. Þar sagði að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með landsréttindum. Lögin féllu úr gildi með sambandslögunum 1918. Konungssambandi var slitið með stofnun lýðveldis árið 1944
1899 Kristilegt félag ungra manna, KFUM, var formlega stofnað í Reykjavík af sr. Friðriki Friðrikssyni
1931 Leikrit var flutt í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu - flutt var þá leikritið Jólanóttin eftir Henrik Ibsen
1986 Davíð Oddsson þáv. borgarstjóri, kveikti ljós á sex öndvegissúlum við borgarmörk Reykjavíkur. Kveikt var á súlunum í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar og logaði á þeim út allt afmælisárið
1999 Tónlistarsalurinn í Tónlistarhúsi Kópavogs vígður með tónleikum - hann hlaut nafnið Salurinn

Snjallyrðið
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Hvað boðar nýárs blessuð sól?)