Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 janúar 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum í gær, lýsti Ragnar Sverrisson kaupmaður og einn forsvarsmanna Akureyrarframboðs, því yfir í áramótaþætti Aksjón á gamlársdag að Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus, væri gjaldkeri framboðsins og lykilbakhjarl. Jóhannes sem sat úti í sal og fylgdist með hreyfði engum andmælum við þessu og því þótti um stórtíðindi að ræða. Einn umfangsmesti kaupmaður landsins virtist vera fjárhagslegur bakhjarl þessa framboðs og hafa lykilhlutverk í stofnun þess. Athygli vekur því að sjá í fréttum í kvöld haft eftir Jóhannesi að hann neiti orðum Ragnars í þessum þætti og vísi á bug að hann ætli sér eitthvert hlutverk innan framboðsins eða sé gjaldkeri þess. Segir Jóhannes að Ragnar hafi farið fram úr sjálfum sér og sagt eitthvað sem ekki standi til og sé ekki raunveruleiki mála. Undarlegt var því að hann skyldi þaga í áramótaþættinum þar sem hann sjálfur var gestur. Hann hefði átt að leiðrétta þetta strax þar. Hinsvegar var ekki að sjá á honum við þetta tilefni að hann væri á móti þessari hugmynd. Þetta er því allt mjög fróðlegt. Ekki virðist þetta vera vel útpælt hjá þessum aðilum, sennilega er þetta bara eitt trix til að hafa áhrif á flokkana. Hallast æ meir að því.

Skoðun mín á þessari pælingu Ragga og þeirra sem með honum eru að velta þessari hugmynd upp liggur vel fyrir og kom fram í pistlinum í gær. Að mínu mati eigum við sem tökum þátt í stjórnmálum að velja okkur flokka og berjast þar fyrir að fá okkar fólk inn á lista og í forystu. Þar er vettvangurinn til að láta að okkur kveða. Með prófkjöri getum við Akureyringar komið okkar fólki að og stutt það rétta leið til forystu. En sérstakt framboð Akureyringa til þings er fjarstæðukennd hugmynd að mínu mati. Hver yrði árangur þeirra sem jafnvel næðu inn á þing í nafni þess? Segjum að framboðið fengi tvo til fjóra menn, eitthvað á því bili. Hvert yrði hlutskipti þeirra, hvað mætti þeim eftir kosningabaráttu? Ég fullyrði það að það yrði aldrei nema stjórnarandstaða og vera meðhöndlaður sem fulltrúar í ætt við einhvern sértrúarsöfnuð sem enginn tæki mark á, jú hlustað væri á þá en vart meira. Við eigum að nota flokkana sem til staðar eru og fá okkar fólk inn, einfalt mál af minni hálfu. Í lokin vil ég segja að staða okkar Akureyringa er vissulega ótæk, eigum aðeins einn þingmann og okkar rödd þarf að heyrast af meiri krafti. Við brotthvarf Tómasar Inga Olrich af þingi og úr ríkisstjórn misstum við einn öflugasta talsmann Akureyrar í stjórnmálum. Skarð hans þarf að fylla með kraftmiklum einstaklingi í næstu kosningum. Úr þessu munum við sjálfstæðismenn bæta fyrir næstu þingkosningar og ekki vantar okkar kandidata til þingmennsku héðan, svo mikið er víst. En framboð Akureyringa utan flokka og sem sérframboð er eins og fyrr segir algjörlega fjarstæðukennt að mínu mati.

SkjaldarmerkiVinna í stjórnarskrárnefnd þeirri sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ákvað að stofna til í lok síðasta árs, mun brátt hefjast. Var rætt um þetta mál og væntanlega nefndarmenn í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag. Þar upplýsti Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að nefndarmenn að hálfu flokksins yrðu Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Birgir Ármannsson alþingismaður. Sérstaka athygli mína vakti að heyra að Þorsteinn yrði í nefndinni, var ánægjulegt að heyra það, enda Þorsteinn reyndur stjórnmálamaður og hefur setið í forsæti ríkisstjórnar. Einnig kom fram í þættinum að formenn stjórnarandstöðuflokkanna yrðu í nefndinni af hálfu flokka sinna en óljóst er hver verði í öðru af tveim sætum Samfylkingarinnar í nefndinni og hverjir verði þar að hálfu Framsóknarflokksins. Fyrir liggur að annar framsóknarmannanna verði formaður nefndarinnar.

Eins og kom fram í áramótaávarpi forsætisráðherra að kvöldi gamlársdags er mikilvægt að fram fari umræða um stjórnskipan landsins af fullri víðsýni án tengsla við einstök deilumál. Það er komið að því að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og velta upp nýjum þáttum og fá fram fjölbreytta umræðu um málin. Mikilvægt er að reyna að tryggja að sjónarmið sem flestra komist að við þessa vinnu og verði sýnileg. Þegar kosið verði um tillögurnar í næstu þingkosningum eftir tvö ár verði þá að baki ítarleg og gagnleg umræða um alla þætti málsins. Að mínu mati er mikilvægast að huga að 26. grein stjórnarskrárinnar. Það getur vart gengið lengur að sá skuggi sé yfir störfum Alþingis Íslendinga að einn maður geti með geðþóttavaldi stöðvað af mál sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings til fjögurra ára, samþykkir með réttmætum hætti. 26. greinin sem lengi hefur verið umdeild, verður nú tekin væntanlega til ítarlegrar umræðu og sennilega rækilegrar endurskoðunar. Ég tel eðlilegast að þetta neitunarvald forseta verði numið brott en í staðinn jafnvel sett ákvæði um að viss hluti þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur eða viss fjöldi landsmanna geti þrýst á slíkt. Það er mun eðlilegra en að einn maður sitji með það í skauti sínu að geta upp á sitt einsdæmi hindrað meirihluta þingsins í að sinna sínum störfum. Breytingin er því þörf og löngu tímabær. Mikilvægast er þó að þessi löngu tímabæra vinna við uppstokkun stjórnarskrár hefjist brátt.

KvikmyndaræmaKvikmyndir ársins 2004
Á gamlársdag birtust á kvikmyndir.com listar yfir bestu kvikmyndir ársins af þeim sem skrifa á vefinn. Voru það ég, Jón Hákon Halldórsson, María Margrét Jóhannsdóttir og Eggert Páll Ólason sem komum með álit okkar á hvaða myndir hefðu skarað fram úr á árinu. Á mínum topp 10 lista sem ég setti saman voru eftirtaldar eðalmyndir: Kill Bill: Vol. 2, Lost in Translation, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, The Passion of the Christ, Touching the Void, Collateral, The Incredibles, Shrek 2, Ladder 49 og 21 Grams. Næstar komu: Monster, House of Sand and Fog, Cold Mountain, Spider-Man 2, The Village, Harry Potter and the Prisoner of Azkaban, American Splendor, The Last Samurai, Big Fish og The Manchurian Candidate. Enginn vafi er í mínum huga um að seinni hluti Kill Bill skari fram úr öðrum sem sýndar voru hér í bíó í fyrra. Er magnaður endir á flottu heildarverki, stórbrotnu meistaraverki Quentin Tarantino. Í báðum myndunum gengur allt upp kvikmyndalega séð: tónlist, handrit, kvikmyndataka og leikur, allt er í úrvalsflokki. Allt skapar þetta hið magnaða andrúmsloft. Flott bardagaatriði og frábær persónusköpun, einkum og sér í lagi hvað varðar persónur brúðarinnar og Bill. Mjög eftirminnilegir karakterar í túlkun Umu Thurman og David Carradine. Sannkölluð kvikmyndabomba. Skrifaði ég á árinu leikstjórapistla og fleira efni á kvikmyndavefinn en hef lítið tekið þar þátt á seinustu mánuðum. Brátt verður breyting þar á. Mun ég skrifa á næstunni um Golden Globe verðlaunin og Óskarsverðlaunin, helstu kvikmyndaverðlaun samtímans. Áfram munu birtast á vefnum ítarlegar leikstjóragreinar. Það er gott að vera hluti af góðum hópi á vefnum.

Saga dagsins
1597 Heklugos hófst með miklum eldgangi og jarðskjálftum - varð eitt stærsta Heklugos sögunnar
1888 Kristín Bjarnadóttir kaus fyrst kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík og varð fyrst kvenna til að notfæra sér kjörrétt til sveitarstjórna sem veittur var 1882. Kosningaréttur kvenna var lögfestur 1915
1925 Benito Mussolini tilkynnir að hann taki sér einræðisvald á Ítalíu - sat þar að völdum allt til 1943
1948 Þýskur togari bjargaði fjórum skipverjum sem hrakist höfðu í nær átta sólarhringa á hafi úti á vélbátnum Björgu eftir að vél bátsins bilaði - voru þeir orðnir kaldir og hraktir er þeim var bjargað
1990 Íslandsbanki hóf formlega starfsemi - bankinn var stofnaður með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans, Iðnaðarbankans og Útvegsbankans. Tók hann yfir mestöll fyrri viðskipti bankanna

Snjallyrðið
Hvað er nú tungan? - Ætli engin
orðin tóm séu lífsins forði.
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Íslensk tunga)