Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 desember 2004

Skelfilegt ástand í AsíuHörmungar í Asíu
Staðfest hefur nú verið að rúmlega 120.000 manns hafi farist í náttúruhamförunum í Asíu. Óttast er nú að sú tala muni allt að tvöfaldast, vegna hættu á farsóttum. Talið er að aðeins í Indónesíu einni hafi allt að 100.000 manns látið lífið. Ömurlegar afleiðingar hamfaraflóðanna blasa alls staðar við í suðurhluta Asíu og skelfilegt er að sjá myndir af flóðunum sem hafa verið sýndar í fréttatímum seinustu daga. Öldurnar hrifsa þar með sér fólk og hluti eins og ekkert sé, rústa heilu bæjunum og þorpunum og eyðileggur líf fjölda fólks. Afleiðingarnar eru skelfilegar, mannfall er alveg gríðarlegt, milljónir manna hafa glatað lífsviðurværi sínu og heimili og standa eftir slyppir og snauðir, misst ættingja sína og allt annað sem það á. Nú þegar hafa rúm 80.000 lík fundist í Indónesíu, enn eru lík að reka á land og að finnast við strendur landsins og óttast er að mun fleiri séu látnir þar. Ljóst er eins og fyrr segir að ekki færri en 120.000 hafi látið lífið. Ekki hafa færri en 27.000 manns látist á Sri Lanka Tugmilljónir eiga því við sárt að binda við Indlandshaf og vofir þar hungursneyð og farsóttir yfir. Ljóst er að mun fleiri Svíar hafa farist en fyrst var talið, munu þeir vart vera færri en 1500, ef marka má yfirlýsingu Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar. Deilt hefur verið á stjórnvöld í Svíþjóð fyrir að bregðast seint við stöðu mála. 10 Íslendinga er enn saknað.

Um heim allan er fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim er safnað til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf í landinu. Alls hafa nú rúmar 50 milljónir króna safnast í söfnun Rauða kross Íslands fyrir fórnarlömb hamfaranna. Aldrei hefur áður safnast svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Nú hafa rúmlega 20.000 manns hringt í söfnunarsímann 907 2020 og gefið þannig eitt þúsund krónur. Er ástæða til að hvetja alla til að hringja í símann og gefa í söfnunina með þeim eða öðrum hætti. Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fram eina milljón króna til fjársöfnunarinnar. Athygli hefur vakið að ríkisstjórn Íslands hefur aðeins veitt vilyrði fyrir styrk til þessa máls að upphæð 5 milljónir. Að mínu mati þarf sú upphæð að verða mun hærri. Hefur það vakið undrun margra að ekki sé veitt hærri upphæð af hálfu Íslands í þetta mál. Eflaust mun hún verða hækkuð á næstu dögum og væntanlega verður tilkynnt um það fljótlega. Vart getur annað verið en að hærri upphæð verði veitt til þessa máls. Forsætisráðherra átti í dag samtöl við forsætisráðherra Svíþjóðar og Noregs vegna þessa máls. Vottaði hann með því persónulega samúð sína til forsætisráðherranna vegna þeirra Norðmanna og Svía sem látist hafa í Asíu og kom á framfæri samúðarkveðjum frá íslensku þjóðinni, ef marka má fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag. Skýrði Halldór forsætisráðherrunum frá því að hugur Íslendinga væri hjá frændum vorum á stundu sem þessari. Báru forsætisráðherrarnir þrír saman bækur sínar um ástandið á hamfaraslóðum. Ennfremur bauð forsætisráðherra fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi.

Þorvaldur IngvarssonÁramótapistill Þorvaldar Ingvarssonar
Þorvaldur Ingvarsson læknir og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, ritar í dag áramótahugleiðingar á Íslending, vef sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þar fer hann yfir pólitíkina og það sem uppúr stendur í lok ársins. Orðrétt segir Þorvaldur í athyglisverðum pistli: "Engar skýringar höfum við sjálfstæðimenn í grasrótinni fengið á því hvers vegna þurfti að setja (fjölmiðla)lög með þessum flýti né hvað olli því að ekki var tekið á málefnum Ríkisútvarpsins í frumvarpinu. Á þessu kunna að vera eðlilegar skýringar en þær hafa ekki náð eyrum okkar. Ekki lagaðist málið við það að forseti Íslands synjaði lögunum. Upphófst þá ferli sem var gjörsamlega óskiljanlegt. Skyndilega var allt það sem okkur hafði verið kennt um synjunarvald forsetans óljóst og menn lögðu mismunandi skilning í það atriði stjórnarskrárinnar. Ekki var hægt að túlka þetta á annan hátt en þann svo að mönnum hugnaðist ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er næsta öruggt að allt þetta á sér skýringar og að vafi getur leikið á öllum hlutum ef það hentar. Málið hefur þó fengið farsæla lausn (í bili a.m.k) með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur skipað þverpólitíska nefnd um fjölmiðlalög. Við hljótum að gera þá kröfu til forseta lýðveldisins, ráðherra og þingmanna að þeir leysi sín persónulegu ágreinismál utan þings og utan opinberra starfa. Ef þeir treysta sér ekki til þess þá eiga þeir að víkja. Hitt er svo annað að framkoma stjórnarandstæðinga var með ólíkindum í þessu máli sem og öðrum og eina skýringin sem manni dettur í hug er málefnafátækt."

Ennfremur segir Þorvaldur: "Frjálsræði í viðskiptum og almennt í þjóðfélaginu hefur aukist og höft í viðskiptum heyra sögunni til. Einkavæðing ríkisfyrirtækja gekk hratt og vel fyrir sig og virðist þar hafa skipt sköpum að ríkisbankarnir voru báðir seldir. Sóknarfæri einkafyrirtækja hafa verið nýtt til hins ýtrasta og nú er svo komið að markaðurinn á Íslandi dugar ekki til, íslensk fyrirtæki eru farin að leita á erlenda markaði hvert á fætur öðru. Hagvöxtur er með ágætum, fjárlög ríkisins eru gerð upp ár eftir ár með afgangi og erlendar skuldir greiddar niður. Seinasta útspil hins frjálsa markaðar var vaxtarlækkun til íbúðarkaupanda sem gerir íbúðarlánasjóð í raun óþarfan. Aðeins spurning um tíma hvenær hans skeið rennur til enda. Atvinnuleysi er lítið, verðbólgan sömuleiðis. En samt svífur óróleiki yfir vötnunum sem birtist í málefnafátækt stjórnarandstöðunnar. Viku eftir viku storma þingmenn stjórnarandstæðunnar í ræðustól Alþingis og ausa auri í allar áttir ýmist vegna þess að ekki er rétt að lækka skatta núna heldur seinna, minntir á sín eigin kosningarloforð þá er dregið í land og sagt að það eigi að lækka skatta öðruvísi! Áfram er haldið og sá furðulegi málatilbúnaður er uppi að nú sé tími til kominn að draga í land í Írakstríðinu? Sú skoðun kann að vera eðlileg að Ísland hafi ekki átt að vera á lista hinna "staðföstu þjóða" en bakka nú þegar Íslendingar geta sjálfir lagt sitt að mörkum orkar tvímælis. Nú við áramót erum við enn minnt á hversu náttúruöflin geta leikið okkur grátt og hversu lítið maðurinn getur spyrnt við fótum þegar þau láta á sér kræla. Hér á ég við jarðskjálftana í Asíu og afleiðinga þeirra en þegar þetta er skrifað eru afleiðingar flóðanna að koma í ljós og virðast geigvænlegar. Hugur okkar verður hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara náttúruhamfara nú um áramótin." Ég hvet alla til að lesa þennan athyglisverða pistil Þorvaldar.

Eiður Smári GuðjohnsenEiður Smári valinn íþróttamaður ársins 2004
Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hjá Chelsea, var í gær valinn íþróttamaður ársins 2004 í árlegu vali íþróttafréttamanna. Þórey Edda Elísdóttir varð í öðru sæti og Rúnar Alexandersson í því þriðja. Tilkynnt var um valið í hófi á Grand hótel, þar sem einnig var tilkynnt um val á íþróttafólki ársins í öllum greinum. Enginn vafi leikur á því að Eiður Smári verðskuldar mjög þennan titil. Hann náði hápunkti á sínum ferli á árinu. Hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur titilinn í 17 ár, eða frá því að faðir hans, Arnór Guðjohnsen hlaut þennan titil. Eiður átti mjög gott ár með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og að það komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Hann var yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári verður fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur þennan titil en áður höfðu auk Arnórs og Eiðs hlotið titilinn þeir Ásgeir Sigurvinsson (tvisvar), Guðni Kjartansson og Jóhannes Eðvaldsson.

Eiður Smári gat ekki verið viðstaddur athöfnina í gær, en hann fékk ekki leyfi til heimfarar frá Jose Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea, enda eru margir leikir í ensku deildinni þessa dagana og mikið álag á leikmönnum. Þetta var í fyrsta skipti frá 1984 sem íþróttamaður árins er ekki viðstaddur kjörið. Eiður og Arnór eru aðrir feðgarnir sem hljóta þessi verðlaun en áður höfðu þeir Vilhjálmur Einarsson og Einar Vilhjálmsson fengið þau, Vilhjálmur vann reyndar fimm sinnum og Einar þrisvar. Þórey Edda og Rúnar verðskulda svo sannarlega sínar viðurkenningar enda verið áberandi í íþrótt sinni á árinu og gekk vel á Ólympíuleikunum í Aþenu í haust. Mikla athygli vekur þó vissulega að Kristín Rós Hákonardóttir hljóti ekki verðlaunin eða sé ekki einu sinni meðal þriggja efstu. Náði hún toppnum á sínum ferli á árinu, setti hvert heimsmetið á eftir öðru á ólympíuleikum fatlaðra í haust og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir glæsilegan árangur sinn. Það vekur athygli og undrun að hennar framlag sé ekki meira metið þegar íþróttaárið er gert upp með þessum hætti. En eftir stendur að Eiður verðskuldar sigurinn, en fjarvera Kristínar frá topp þrjú listanum er alveg æpandi áberandi.

Dagurinn í dag
1887 Bríet Bjarnhéðinsdóttir, er þá var 31 árs gömul, flutti fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík um kjör og réttindi kvenna. Þetta var í fyrsta skipti sem kona hérlendis flutti opinberlega fyrirlestur. Bríet varð forystukona kvenréttindasinna og leiddi baráttu þeirra í nokkra áratugi
1935 Níu manns fórust er eldur kom upp á jólatrésskemmtun í samkomuhúsi ungmennafélagsins í Keflavík. Húsið brann allt á innan við klukkustund. Um 190 manns náði að komast naumlega út áður
1947 Michael Rúmeníukonungur, sagði af sér - konungdæmi var þar lagt niður og það varð lýðveldi
1958 Uppreisn stjórnarandstöðunnar á Kúbu styrkist og nær hámarki - andspyrnan færist sífellt nær borginni. Kommúnistar náðu yfirráðum í Havana á nýársdag og tóku við völdum. Fidel Castro varð forseti Kúbu og hefur setið á þeim stóli síðan og er orðinn einn þaulsetnasti leiðtogi sögunnar
1965 Ferdinand Marcos verður forseti Filippseyja - hann sat við völd í tæp 20 ár og stjórnaði þar með harðri hendi, eða þar til stjórn hans var felld í uppreisn almennings í landinu snemma árs 1986

Snjallyrði dagsins
Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg,
stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.
Blésu þeir á sönglúðra, og bar þá að mér fljótt,
og bjöllurnar gullu á heiðskírri nótt.

Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund,
hornin jóa gullroðnu blika við lund,
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,
hló að mér og hleypti hestinum á skeið.
Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér?
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) (Álfareiðin)