Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 desember 2004

Akureyri á vetrarkvöldiHeitast í umræðunni
Eyfirðingar virðast hafa vaxandi áhuga fyrir samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við fjörðinn, ef marka má niðurstöður könnunar sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hefur gert. Reikna má með því að það verði lagt í dóm kjósenda á næsta ári hvort rétt sé að sameina sveitarfélögin 10 við fjörðinn í eitt öflugt og kraftmikið sveitarfélag. Yrði slík sameining að veruleika yrði til eitt stærsta sveitarfélag landsins, með tæplega 22.000 íbúa. Líst mér mjög vel á niðurstöður rannsóknarstofnunar Háskólans, hef ég kynnt mér helstu atriði hennar og farið yfir. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur því að sveitarfélög í Eyjafirði myndu sameinast í eitt og verið þeirrar skoðunar í tæpan áratug að það væri skynsamasta skrefið að stefna að því. Hefur ferlið gengið mun hraðar fyrir sig en ég þorði í upphafi að vona og mikið gleðiefni ef kosið verður um sameiningu allra sveitarfélaganna strax á næsta ári og sameining í firðinum því jafnvel orðin að veruleika fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Í júní samþykktu Akureyringar og Hríseyingar að sameinast. Er að mínu mati um að ræða fyrsta skrefið á þeirri vegferð að Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag og mikilvægt að hefja ferlið með þeim hætti að Hrísey og Akureyri yrðu eitt sveitarfélag.

Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild, og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Ég finn það á fólki sem býr út með firði og ég hef þekkt til fjölda ára að sameining sveitarfélaga á sér sífellt fleiri stuðningsmenn en verið hefur. Andstaðan hefur verið mikil við sameiningu í vissum sveitarfélögum út með firði, en hlutirnir eru að breytast, sem betur fer. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild. Enginn vafi er á því í mínum huga að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Það er mikilvægt, mjög svo. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur markað sér þá stefnu að stuðlað verði að frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu og okkur er því mikið ánægjuefni að fara yfir niðurstöður skýrslu RHA og það sem þar kemur fram. Hugmyndir hafa vaknað um sameiningu Eyjafjarðarsvæðisins og Siglufjarðar með tilkomu Héðinsfjarðarganga á komandi árum og ennfremur að þetta verði allt eitt atvinnusvæði. Það er stefnt að því í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar að svo verði og göngin mikilvægur þáttur í því ferli að þetta verði að veruleika. Að mínu mati mun sá dagur renna upp innan næsta áratugar að öll þessi sveitarfélög á þessu svæði sameinist. Eins og fyrr segir er ánægjuefni að þetta ferli gangi svo vel og stefni jafnvel í að þetta náist í gegn fyrir næstu kosningar.

Kynningarmynd af 12 hæða blokk á BaldurshagareitnumSenn hverfur í aldanna skaut merkilegt ár í bæjarmálunum. Mörg mál hafa verið til umræðu í nefndum og bæjarstjórn Akureyrarbæjar og á árinu stækkaði sveitarfélagið okkar með sameiningu við Hrísey. Eitt mesta hitamál ársins í bæjarmálunum er Baldurshagamálið. Í pistli mínum á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna í bænum, fer ég yfir þetta mál. Orðrétt segir þar: "Tekist hefur verið á um þetta mál á grundvelli tilfinninga, umfram allt annað. Hefur fólk verið duglegt við að tjá skoðun sína, bæði þeir sem eru hlynntir því að byggt sé þarna og sérstaklega þeir sem eru því andvígir. Hafa þeir sem eru andvígir verið meira áberandi vissulega, en það er þó ljóst að fylkingarnar eru báðar stórar og margir bæjarbúar eru mjög hlynntir því að þessi kostur verði kannaður til fulls og ræddur vel. Það er það jákvæða við þetta mál að farið hefur fram gagnleg og almenn umræða um það og bæjarbúar tjáð sig óhikað, sem er vitaskuld hið allra besta mál. Ég og við í stjórn Varðar höfum allt frá aðalfundi í félaginu verið öflug í að tjá okkur um málefni bæjarins okkar og önnur heit umfjöllunarefni í stjórnmálum og tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni með ályktunum okkar. Meðal þess sem við höfum talið mikilvægt að tjá okkur um er þetta mál og skipulagsmál almennt í bænum."

Í lok pistilsins segir svo: "Á síðu Samfylkingarinnar hér í bæ er sagt að Vörður sé yfirlýsingaglatt félag og sagt að það sé gjarnan aðferð þeirra sem sitji í minnihluta að láta rödd sína heyrast. Ekki get ég sett mig í spor þeirra í minnihlutanum eða séð hlutina frá þeirra sjónarhorni. En hitt er þó jafnljóst að á meðan ég leiði félag ungra sjálfstæðismanna í bænum eða tek þátt í pólitísku starfi hér mun ég hafa skoðanir á málum, tjá þær af krafti á eigin heimasíðum, flokksvefnum eða í fjölmiðlum almennt og leitast við að vera sýnilegur í því að vera málsvari ungliðafélagsins hér og vinna fyrir flokkinn af krafti. Ég og við sem sitjum í stjórn félagsins erum í þessu starfi af áhuga og viljum vera virk í að hafa skoðanir og sýnileg við að tjá þær. Það er grundvallarsjónarmið af minni hálfu. Það er mikilvægt að hafa kraftmikið pólitískt starf svo þeir sem áhuga hafi á pólitík geti valið skoðunum sínum og pólitískum hugsjónum farveg og eigi vettvang. Það er mitt starf að tryggja það hér, og ég fagna öllum þeim sem vilja taka þátt með mér og hafa skoðanir á hitamálunum og tjá þær alveg óhikað og af krafti. Með því að tjá skoðanir okkar af krafti getum við haft áhrif á samfélag okkar og þá fylkingu sem við erum í. Hjá okkur er starfið opið og öllum er velkomið að taka þátt og hafa skoðanir og rökræða málin. Það gildir jafnt við um hugmyndir um blokkarbyggingu á Baldurshagareitnum, sem öll önnur."

Stefán Friðrik StefánssonAfmæli mitt
Í dag fagna ég 27 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum.

bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson

Húmorinn
Yesterday, I received a Christmas card from Donald Rumsfeld in the mail. Would have been nice if he had actually signed it!
David Letterman

Congratulations to President George Bush, Time magazine named him the Person of the Year. And, of course, when he heard the news he was stunned. Bush said: 'I don't even subscribe to Time magazine.' ... I still don't think Bush quite gets it. Today he was asking people, 'So where is Ed McMahon with my big check?

President Bush got man of the year and in a related story John Kerry got a free copy of Entertainment Weekly.

Now here is the latest on Social Security. It looks like Donald Rumsfeld is about to start collecting it.
Jay Leno

Dagurinn í dag
1897 Klukka var sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar

Snjallyrði dagsins
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson (Ó, helga nótt)