Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 desember 2004

Kókið er alltaf yndislega gott (sérstaklega fyrir 9 á kvöldin)Heitast í umræðunni
Sl. föstudag sendum við í stjórn Varðar frá okkur ályktun um undarlega þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar þess efnis að leggja bönn við auglýsingum á óhollum matvörum í fjölmiðlum til kl. 21:00 á kvöldin. Hefur ályktun okkar hlotið nokkra umfjöllun í blöðum sem og útvarpi. Í gær ræddi ég ályktunina og tengd málefni við þá Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason í síðdegisþætti Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis. Vildu þeir kynna sér skoðanir mínar og okkar í Verði betur, en þeir höfðu á föstudag rætt við einn af flutningsmönnum tillögunnar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur alþingismann Samfylkingarinnar. Tjáði ég í spjallinu það sem við blasir að í þessari tillögu er um að ræða allverulega frelsisskerðingu. Lagði ég áherslu á þann punkt málsins að fólk verði sjálft að standa vörð um heilsu sína, það væri út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt sé til. Gekk viðtalið vel og fórum við ítarlega yfir þetta og höfðu þeir greinilega mikinn áhuga á að heyra afstöðu ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri til málsins.

Þótti mér ekki verra að geta bætt í umfjöllun mína þeim ummælum Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í Íslandi í dag hjá Svansí og Þórhalli á föstudag, að tillagan væri illa ígrunduð. Fróðleg ummæli sem vert er að halda vel til haga. Er ekki hægt annað en að gera gott grín að þessu rugli þingmannanna. Vissulega má ræða matarvenjur Íslendinga, en hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál? Þetta er algjörlega út í hött og algjör tímaskekkja á okkar tímum. Ríkið á semsagt að hugsa og gera allt fyrir alla, jafnvel að hafa áhrif á matarvenjur fólks. Alveg kostulegt rugl. Frelsið er meira virði en svo að menn geti með góðu samþykkt svona forræðishyggju og vitleysu. Samhliða umfjöllun sinni voru þeir Þorgeir og Kristófer með viðhorfskönnun á heimasíðu Bylgjunnar og þar kom fram að 59% væru andvíg tillögu þingmannanna en 41% hlynnt henni. Verð ég að viðurkenna að þeir sem styðja þessa svartagallsvitleysu forsjárhyggjumanna á vinstrivængnum eru fleiri en ég átti von á, enda er þessi tillaga að mínu mati svo absúrd að það hálfa væri miklu meira en alveg nóg. En vissulega er þetta bara viðhorfskönnun og vart áreiðanleg sem vilji þjóðarinnar, en ég tel ólíklegt að svo margir séu í raun hlynntir þessari tillögu. En eftir stendur að flestir flokka tillögu þessara þingmanna sem óraunhæft tal. Hefur sést á viðbrögðum flestra að hún fær þau eftirmæli umfram allt.

ReykjavíkurflugvöllurAð mati okkar hér úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða bara til að fara í langferðir. Mikil umræða hefur verið seinustu vikurnar um málefni hans og sitt sýnist hverjum. Fróðlegt hefur verið að heyra skoðanir Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, á þessum málum, en hún hefur verið áberandi í að tjá sig eftir að hún tók við embætti 1. desember sl. Ekki er þó margt nýtt á döfinni í málflutningi hennar eins og búast mátti við, enda er hún sami flugvallarandstæðingurinn eftir sem áður og á sömu slóðum í málflutningi og áður sem formaður skipulagsnefndar borgarinnar. Ekki er heldur mikill blæbrigðamunur á afstöðu hennar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, sem sat á borgarstjórastóli 1994-2003 og beitti sér ákveðið gegn flugvellinum en reyndi að klæðast í felulitina í umræðunni um völlinn í kosningaslagnum til þings í fyrra.

Í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni, 28. nóvember sl. fjallaði ég um flugvallarmálið og fór yfir mikilvæga punkta tengda því. Þar kom fram það mat mitt að málefni flugvallarins væru verkefni og úrlausnarefni allra landsmanna, ekki bara afmarkaðs hóps í höfuðborg landsins. Tek ég undir ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, í fjölmiðlum í gær þess efnis að aðalatriði málsins sé ekki staðsetning flugvallarins, hvar nákvæmlega við borgina hann sé, heldur að samgöngur til og frá höfuðborginni verði jafn greiðar og þær eru í dag. Borgarstjóri hefur sagt seinustu daga að það sé ekki spurning um hvort, heldur aðeins hvenær, innanlandsflugið flytjist frá Reykjavík til Keflavíkur. Er hún þar greinilega bara að tala máli hluta umbjóðenda sinna. Eins og allir vita er Reykjavík höfuðborg Íslands alls og því vantar henni greinilega ýmsar pælingar í myndina svo hún smelli saman. Mikilvægt er að tryggja tengingu höfuðborgarinnar við aðra hluta landsins. Ef Reykjavík verður komin úr samgöngupunkti landsbyggðarinnar breytist að mínu mati hlutverk hennar, það er reyndar óhjákvæmilegt að við á landsbyggðinni lítum borgina öðrum augum ef tengsl okkar við hana samgöngulega séð verða verri en nú er. Þessu verður nýr borgarstjóri að gera sér sem fyrst fulla grein fyrir.

It's a Wonderful LifeJólamyndir
Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum. Tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2004 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við.

Miracle on 34th StreetEin besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök. Vonandi eigið þið góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum, nóg af úrvalsefni er í boði hjá sjónvarpsstöðvunum og kvikmyndahúsunum.

Áhugavert efni
Einnota eða teflon - pistill Fjólu Margrétar Hrafnkelsdóttur
Öllu má nú nafn gefa! - pistill Kristrúnar Lindar Birgisdóttur
Steinunn Valdís og R-listinn í orðaleikjum - pistill Vef-Þjóðviljans
Umfjöllun um ævisögu Hannesar Hafstein - pistill Vef-Þjóðviljans
Morð í Fallujah og ástandið í Írak - pistill Gísla Freys Valdórssonar

Dagurinn í dag
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverar hans. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun

Snjallyrði dagsins
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson frá Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)