Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 febrúar 2005

Anders Fogh RasmussenHeitast í umræðunni
Ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen hélt velli í þingkosningunum í Danmörku í gær. Stjórnarflokkarnir og Danski þjóðarflokkurinn, sem hefur stutt stjórnina og varið hana falli, hlutu 95 þingsæti á danska þinginu en stjórnarandstöðuflokkarnir hlutu 80 sæti. Í ræðu sem forsætisráðherrann flutti á sigurfögnuði Venstre sagði hann að þrjú markmið sín fyrir kosningarnar hefðu öll náðst í kosningunum: stjórnin héldi velli, Venstre væri enn stærsti flokkurinn á danska þinginu og dönsku borgaraflokkunum hefði tekist að halda meirihlutanum og vinstriflokkunum frá stjórn landsins. Gladdist hann sérstaklega með að meirihlutinn hefði stækkað. Venstre hlaut 52 þingmenn, missti 4 frá kosningunum 2001. Konservative hlaut 19 og bætti við sig þrem. Dansk Folkeparti sem varið hefur stjórnina falli, eins og fyrr segir, hlaut 24 þingmenn og bætti við sig 2. Það er því ljóst að stjórnin hefur unnið merkilegan sigur. Eflaust eru það helstu gleðitíðindin fyrir forsætisráðherrann að Venstre er áfram stærsti flokkur landsins og heldur því velli sem öflugasta stjórnmálaaflið.

Það þótti sögulegt árið 2001 þegar Venstre tókst að verða stærsti flokkur landsins. Það var í fyrsta skipti í sögu danskra stjórnmála sem annar flokkur en Jafnaðarmannaflokkurinn varð stærsti flokkur landsins. Það hafði verið sess sem flokkurinn hafði alla tíð haft og lengst af drottnað yfir öllum öðrum í fylgi og leitt stjórn landsins lengst af, ef tekið er frá valdatímabil borgaraflokkanna 1982-1993 er Konservative var í ríkisstjórn með Venstre undir forsæti íhaldsmannsins Poul Schluter. Segja má að það hafi verið sálfræðilega mikill áfangi fyrir borgaraöflin að ná völdum síðast eftir langan valdaferil Poul Nyrup Rasmussen, sem var forsætisráðherra 1993-2001. Það munaði reyndar litlu að vinstristjórnin félli í kosningunum 1998. Það munaði þá aðeins 100 atkvæðum að hún dytti upp fyrir og að Uffe Elleman-Jensen, sem var utanríkisráðherra í hægristjórninni 1982-1993 og leiðtogi Venstre til fjölda ára, yrði forsætisráðherra. Atkvæði frá Færeyjum undir lok talningarinnar breyttu stöðu mála og stjórnin hélt velli. Uffe axlaði ábyrgð á tapinu og hætti sem leiðtogi flokksins. Það var þá sem Fogh tók við forystunni, en hann hafði verið náinn samstarfsmaður Uffe til fjölda ára innan flokksins. Það var því hann sem leiddi flokkinn á sigurbraut loks árið 2001 og að krötum var komið frá völdum og úr forystusessi í þinginu. Þau úrslit mörkuðu mikil þáttaskil og leiddu til sögulegra breytinga í dönskum stjórnmálum.

Mogens LykketoftÚrslit kosninganna voru svo sannarlega reiðarslag fyrir Mogens Lykketoft leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Ekki aðeins mistókst flokknum að ná sessi sínum aftur sem stærsti flokkur landsins, heldur missti hann fylgi frá þingkosningunum 2001. Hlaut flokkurinn innan við 26% atkvæða og hlaut 47 þingmenn og missti 5. Það er óneitanlega sögulegt að Jafnaðarmannaflokkurinn er enn annar stærsti flokkur landsins en enn sögulegra að hann dali enn eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu. Flokkast þessar niðurstöður sem mikill persónulegur ósigur fyrir Lykketoft, sem hafði lagt allt í sölurnar í kosningabaráttu seinustu vikna og unnið mjög af krafti við að reyna að byggja flokkinn upp eftir valdamissinn fyrir fjórum árum og reynt að stefna að sigri í kosningunum og því að leiða stjórnina næstu árin. Tilkynnti hann í ræðu á kosningavöku flokksins að hann myndi nú draga sig í hlé og biðjast lausnar frá leiðtogaembættinu og myndi því ekki leiða flokkinn í næstu kosningum. Ferli Lykketofts í dönskum stjórnmálum er nú væntanlega lokið.

Lykketoft sem er 62 ára gamall hefur verið til fjölda ára einn af lykilmönnum Jafnaðarmannaflokksins og var t.d. fjármála- og utanríkisráðherra í stjórnum Nyrups 1993-2001 og lykilmaður í starfi flokksins og stefnumótun til fjölda ára. Varð hann leiðtogi flokksins árið 2002 og þótti hann stinga Nyrup, vin sinn og samstarfsmann til fjölda ára, í bakið eftir langa samvinnu í pólitík. Nyrup vildi ekki hætta sem leiðtogi þá og hafði sýnt áhuga á því að leiða flokkinn aftur í næstu kosningum. Leiddi Lykketoft andspyrnu gegn honum, sem varð til þess að hann vék af þingi og sagði af sér leiðtogaembættinu og varð þingmaður Dana á Evrópuþinginu. Hann hefur víða komið við og starfað í innstu víglínu til fjölda ára. Það verður nú verkefni, væntanlega eins af yngri þingmönnum flokksins, að taka við keflinu og leiða flokkinn næstu árin og í komandi kosningum eftir fjögur ár. Stærstu sigurvegarar þessara kosninga í Danmörku voru hinsvegar róttækir vinstrimenn í Radikale Venstre. Flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt frá kosningunum 2001 og er ljóst að það er að mestu að þakka leiðtoga flokksins, Marianne Jelved. Verður fróðlegt að fylgjast með danskri pólitík næstu árin, eftir þennan sigur dönsku borgaraflokkanna.

Punktar dagsins
Alþingi

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi, þess efnis að endurskoðaða skuli vinnureglur á þingi. Víkur þetta að klæðaburði þingmanna og ávarpsvenjum þeirra í ræðustóli. Samkvæmt fréttum vilja þeir að forsætisnefnd þingsins sé falið að vinna að endurskoðun mála og leggja tillögur þar að lútandi fram fyrir þinglok í vor. Sérstaklega vilja þeir með tillögum sínum gera kleift að alþingismenn klæðist alþýðlega í þingsal og sé frjálst að vera t.d. ekki í jakkafötum í þingsal og við þingstörf. Benda þeir sérstaklega á stöðu mála í danska þinginu sem fyrirmynd þess sem þeir vilji að taki við í íslenska þinginu. Vilja þeir halda því að kalla þingforseta í ræðustóli sérstaklega, með orðunum, hæstvirtur eða virðulegur forseti. Í staðinn detti út orðin hæstvirtur ráðherra og háttvirtur þingmaður. Er ég algjörlega ósammála þessari tillögu þingmanna Frjálslynda flokksins og undrast satt best að segja að þingmenn þessa flokks hafi ekkert þarfara að gera. Er það reyndar vel kunnugt að þingmenn þessa flokks hafa fá málefni til umræðu og úrvinnslu og því eflaust ekkert betra við tímann að gera. Ég tel viðeigandi að þingmenn séu vel klæddir í þingsal, karlmenn í jakkafötum og konur í drögtum eða öðrum fínum fötum. Finnst mér eðlilegt að þingmenn ávarpi hvor aðra með virðingu, einkum ráðherra.

John Kerry

Um helgina var John Kerry öldungadeildarþingmaður, í viðtali hjá nokkrum sjónvarpsstöðvum og fór þar yfir stöðuna frá bandarísku forsetakosningunum 2. nóvember, þar sem hann tapaði fyrir George W. Bush forseta. Sagði hann að hann hefði unnið kosningarnar hefði myndbandið með Osama bin Laden ekki komið til á lokasprettinum. Sagði hann semsagt að það hefði ráðið úrslitum um að Bush hélt velli og að almenningur studdi Bush og vildi ekki breytingar. Ansi eru þetta nú ódýrar skýringar hjá Kerry. Það hafði semsagt ekkert með hann að gera að honum var hafnað í kosningunum og demókrötum í raun í heild sinni. Greinilega ekki. Þetta eru alveg kostulegar lýsingar. Lengst af kosningabaráttunnar hafði Bush mjög gott forskot. Það var ekki fyrr en í kappræðunum seinustu vikurnar sem Kerry náði einhverri fótfestu og bætti við sig. Í raun var hann aldrei með markvisst forskot á Bush, en spennan var vissulega nokkur seinustu dagana. En útreið demókrata í forseta- og þingkosningunum segir allt um stöðu þeirra. Þeir fóru mjög flatt út úr kjördeginum almennt. Já, þetta er semsagt allt bin Laden að kenna, allt ólán demókrata. Ansi er þetta ódýrt hjá Kerry. En sennilega er betra að kenna öðrum en sjálfum sér um.

Murder on the Orient Express

Var rólegt kvöld í gær, mikið litið í tölvuna og rýnt í tölur vegna dönsku þingkosninganna og tók ég þátt í skondinni umræðu um kosningarnar á spjallvef einum. Leit ennfremur á kvikmyndina Murder on the Orient Express. Vönduð og vel gerð úrvalsmynd byggðri á þekktri skáldkonu Agöthu Christie, sem skartar fjölda heimsþekktra leikara í aðalhlutverkum. Hér er uppskriftin gefin að öllum Agatha Christie-spennusagnamyndunum sem fylgdu í kjölfarið, en allt frá því þetta meistaraverk kom út hafa verið gerðar fjöldi kvikmynda og framhaldsþátta byggðar á þekktum sögum Christie. Hér er valinn maður í hverju rúmi og myndar ógleymanlega kvikmynd. Hercule Poirot tekur sér á hendur ferð með Austurlandahraðlestinni árið 1935 eftir að hafa leyst mál og gengur ferðin vel þar til hana fennir inni í snjóskafli á leiðinni. Er uppgötvast að einn farþeganna hefur verið myrtur á hrottalegan hátt, hefur Poirot morðrannsókn sína og uppgötvar fljótt sér til mikillar skelfingar að allir farþegar lestarinnar tengdust hinum myrta í gegnum barnsrán í kringum 1910 sem kennt var við Daisy Armstrong-málið. Nú er hann í vanda staddur og áttar sig á að allir farþegarnir höfðu nægilega ástæðu og tilefni til að hafa myrt hinn látna. En hver er morðinginn?

Það er hrein unun að fylgjast með þessari stórfenglegu kvikmynd og fylgjast með úrvalsleikaranum Albert Finney í hlutverki Hercule Poirot og fylgjast með honum fást við þetta dularfulla og undarlega morðmál áður en hann hóar hinum grunuðu saman og bendir á hina seku. Stjarna í hverju hlutverki og leikstjóri myndarinnar, úrvalsleikstjórinn Sidney Lumet, stjórnar öllu saman með velviðeigandi blöndu af húmor og spennu. Að öllum ólöstuðum er stjarna myndarinnar fyrir utan Albert Finney, óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman, sem fer hér á kostum í hlutverki Gretu, sænsks trúboða sem er farþegi í lestinni. Hún hlaut sinn þriðja og jafnframt síðasta óskar fyrir hreint magnaðan leik sinn í þessari mynd. Ennfremur má meðal leikarana nefna Lauren Bacall, Martin Balsam, Wendy Hiller, John Gielgud, Vanessu Redgrave, Sean Connery og Dame Wendy Hiller. Einnig eru hér leikararnir Anthony Perkins, Richard Widmark, Rachel Roberts, Jacqueline Bisset og Michael York. Sannkölluð stórmynd með úrvalsleikurum, vel leikstýrð og afar vel útfærð. Þeir sem hafa gaman af stórbrotnum sakamálamyndum með ekta bresku ívafi mega ekki missa af þessari. Sannkölluð klassamynd.

Ekkert er fallegra en Eyjafjörður

Allt frá 1. febrúar 2004 hef ég birt hér á þessum vef sögulega punkta hvers dags. Hef ég talið upp fimm atriði tengt sögu dagsins sem ég hef viljað benda á og hafa sem fylgihlut með annarri frásögn og umfjöllun. Hafa margir sent mér póst vegna þessa og bent mér á merkisatburði og ekki síður lýst bara ánægju sinni með þetta. Hef ég alltaf haft gaman af sögunni og því tilvalið að nota daglegar færslur hér til að safna saman nokkrum punktum tengt sögu dagsins sem um ræðir. Hef ég nú safnað atburðum hvers dags á ársbasis og á því orðið uppsafnaða umfjöllun um hvern dag inni í gagnasafninu. Það er því orðið lítið mál að setja þetta upp. Fyrst var þetta sett saman dag hvern eftir hendinni, en eftir því sem leið á setti ég saman fyrir hvern mánuð fyrir sig og gat því gengið að hverjum degi sem uppsettu. Þannig er þetta nú orðið með alla daga ársins. Er það sannfæring mín að þetta sé tilvalið með færslunni. Vil ég þakka þeim sem hafa sent komment á þennan lið og þakka þeim fyrir góðar kveðjur og ekki síður góðar hugmyndir að efni í þetta. Tilvalið er einnig að þakka þeim sem senda komment á annað efni hérna og fylgjast með því frá degi til dags hvað ég er að skrifa um.

Saga dagsins
1833 Baldvin Einarsson lögfræðingur, lést, 31 árs að aldri - Baldvin gaf út ársritið Ármann á Alþingi
1950 Öldungadeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy sakar rúmlega 200 starfsmenn bandaríska utanríkisráðuneytisins um að vera kommúnistar - leiddi til mestu ofsókna almennt vegna pólitískra skoðana í sögu landsins. McCarthy sat í öldungadeild þingsins fyrir Wisconsin allt til dauðadags 1957
1982 Sjór flæddi um Pósthússtræti og Austurstræti - yfirborð sjávar var 5 m. hærra en venjulega
1984 Maður með lambhúshettu yfir höfði rændi um bjartan dag á fjórða hundrað þúsund krónum í útibúi Iðnaðarbankans í Breiðholtshverfi - málið þótti mjög dularfullt en bankaránið upplýstist aldrei
2003 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og þáverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar (í kosningabaráttunni til Alþingis 2003) flutti fyrri kosningaræðu sína í Borgarnesi - markaði upphaf persónuskítkasts hennar og flokksins í baráttunni þar sem ráðist var að persónu Davíðs Oddssonar

Snjallyrðið
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein,
ó, ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn,
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.
Þorsteinn Erlingsson skáld (1858-1914) (Sólskríkjan)