Í janúar voru liðin 110 ár frá fæðingu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Hann er að mínu mati besta ljóðskáld landsins á 20. öld, meistari fallegs íslensks máls. Er rétt að fara örlítið yfir ævi hans og skáldferil í tilefni afmælis hans.
Davíð fæddist að Fagraskógi, 21. janúar 1895. Kenndi hann sig ávallt við æskuheimili sitt og varð það alla tíð fastur hluti af skáldnafni hans. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson bóndi og alþingismaður, og eiginkona hans, Ragnheiður Davíðsdóttir. Davíð var fjórði í röð sjö systkina. Fagriskógur var þá og er enn í dag eitt af helstu býlunum í Arnarneshreppi og mikið fremdarheimili. Ungur fór Davíð til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, lauk hann gagnfræðaprófi 16 ára gamall, 1911. Davíð dvaldist í Kaupmannahöfn 1915-1916 og komst á skrið sem skáld. Fyrstu ljóð Davíðs birtust í tímaritum á þessu tímabili.
Fór hann í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1919. Sama ár kom fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir út. Með útkomu hennar var braut skáldsins mörkuð. Bókinni var tekið mjög vel og varð ein af helstu ljóðabókum aldarinnar. Haustið 1920 hélt Davíð til útlanda og dvaldi víðsvegar um Evrópu, t.d. á Ítalíu. Samdi hann þar fjölda fallegra ljóða og setti Evrópuferðin mikinn svip á aðra ljóðabók hans, Kvæði, sem kom út árið 1922. Davíð kenndi sögu við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1922-1924 en hélt þá til Noregs og var þar í nokkra mánuði. Hann kom heim síðar sama ár og þá kom út þriðja ljóðabókin, Kveðjur. Með henni festi Davíð sig endanlega í sessi sem eitt vinsælasta ljóðskáld landsins.
Árið 1925 fluttist Davíð til Akureyrar þar sem hann bjó allt til æviloka. Hann varð bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri sama ár. Ennfremur reyndi hann þá fyrir sér við leikritagerð og hið fyrsta kom til sögunnar ári síðar, Munkarnir á Möðruvöllum. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1929 og bar heitið Ný kvæði. Árið 1930 vann Davíð til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði. Sá hluti kvæðisins sem helsta frægð hlaut var Sjá dagar koma, sem hefur löngum verið mikið hátíðarkvæði. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1933 og bar heitið, Í byggðum. Þóttu ljóðin í henni bera annan keim en þau sem áður höfðu komið út og vera nokkuð meiri félagsleg ádeila og horfa í aðra átt og sýna Davíð í öðru ljósi sem ljóðskáld. Ein þekktasta ljóðabók Davíðs, Að norðan, kom út árið 1936 og telst enn í dag marka mikil þáttaskil á ferli hans.
Á þessum árum hóf hann að safna bókum af miklum áhuga og átti við ævilok sín á sjöunda áratugnum mikið safn bóka sem ættingjar hans ánöfnuðu Amtsbókasafninu. Að norðan markaðist vissulega af því að Davíð fór eigin leiðir í yrkisefnum og leitaði sífellt meir til fortíðar í yrkisefnum og hugsunum í ljóðlist. Vinsældir hans voru mestar á þessu tímabili og má fullyrða að bókin Að norðan hafi átt stóran þátt í hversu vel hann festist í sessi sem eitt helsta ljóðskáld aldarinnar. Í kjölfarið fór Davíð í auknum mæli að leggja rækt við leikritagerð og skáldsagnaritun og sinnti því fleiru en ljóðunum. Árið 1940 kom út skáldsaga Davíðs í tveim bindum og bar heitið Sólon Íslandus. Fjallar hún um einn þekktasta flæking Íslandssögunnar, Sölva Helgason.
Ári síðar gaf Davíð út leikritið Gullna hliðið, byggt á hinni þjóðkunnu sögu, Sálin hans Jóns míns, sem hann hafði áður ort um þekkt kvæði. Leikritið varð strax mjög vinsælt og urðu söngljóðin í leikritinu landsfræg í þekktum búningi Páls Ísólfssonar sem gerði við þau þekkt lög. Davíð hóf aftur að yrkja um miðjan fimmta áratuginn. Árið 1947 kom út ljóðabókin Nýja kvæðabókin. Skömmu síðar veiktist hann alvarlega og varð óvinnufær næstu árin. Í upphafi sjötta áratugarins samdi hann leikritið Landið gleymda. Tæpum 10 ár liðu á milli þess að Davíð gæfi út ljóðabók, árið 1956 kom út ljóðabókin Ljóð frá liðnu sumri. Það síðasta sem birtist eftir Davíð meðan hann lifði voru Háskólaljóð árið 1961. Síðasta ljóðabók Davíðs Stefánssonar kom út árið 1966, að honum látnum. Bókin bar hið einfalda nafn Síðustu ljóð. Í þeirri ljóðabók birtist það síðasta sem skáldið orti fyrir andlát sitt.
Davíð Stefánsson fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.
Á sextugsafmæli Davíðs, 21. janúar 1955 var Davíð sýndur sá heiður að hann var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar. Er líða tók að ævilokum skáldsins varð hann sífellt minna áberandi. Hann sat oft heima við bókalestur og varð æ minna sýnilegur í skemmtanalífinu, en hann var rómaður gleðimaður og var þekktur fyrir að skemmta sér með veraldarbrag, eða ferðaðist sífellt minna um heiminn. Seinustu árin áttu Eyjafjörður og Akureyri hug hans allan, eins og sést af seinustu kvæðum hans og skrifum. Hugurinn leitaði heim að lokum. Fjörðurinn og það sem hann stóð fyrir að mati skáldsins var honum alla tíð mjög kær og jókst það sífellt eftir því sem leið að ævikvöldi hans.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þann 1. mars 1964, 69 ára að aldri. Seinustu árin hafði Davíð átt við veikindi að stríða og hafði kennt sér hjartameins sem að lokum leiddi hann til dauða. Akureyrarbær lét gera útför hans eins virðulega og mögulegt var og fór hún fram frá Akureyrarkirkju, þann 9. mars 1964. Mikið fjölmenni fylgdi Davíð seinasta spölinn. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í sveitinni heima, að Möðruvöllum í Hörgárdal. Eins og sagði í upphafi var Davíð skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
Þú varst minn vetrareldur.
Þú varst mín hvíta lilja,
bæn af mínum bænum
og brot af mínum vilja.
Við elskuðum hvort annað,
en urðum þó að skilja.
Ég geymi gjafir þínar
sem gamla helgidóma.
Af orðum þínum öllum
var ilmur víns og blóma.
Af öllum fundum okkar
slær ævintýraljóma.
Og þó mér auðnist aldrei
neinn óskastein að finna,
þá verða ástir okkar
og eldur brjósta þinna
ljós á vegum mínum
og lampi fóta minna.
Saga dagsins
1875 Öskjugos hófst - þetta er talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan að sögur hófust - aska náði allt til Svíþjóðar og áttu afleiðingar öskufallsins mikinn þátt í Ameríkuferðunum
1909 Safnahúsið við Hverfisgötu formlega vígt - það var þá og er enn eitt glæsilegasta hús landsins
1977 Leikarinn Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Howard Beale í Network. Það var sögulegt við að Finch hlaut óskarinn að hann lést snögglega nokkrum vikum áður, í janúar 1977. Það kom því í hlut ekkju hans, Elethu, að taka við verðlaununum. Sir Peter er eini leikarinn í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hefur hlotið óskarinn eftir andlát sitt. Finch var einn af svipmestu leikurum Breta og átti stjörnuleik í fjölda mynda og túlkaði marga glæsilega karaktera
1997 Leikkonan Frances McDormand hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinni kasóléttu og úrræðagóðu lögreglukonu Marge Gunderson í hinni stórfenglegu úrvalskvikmynd Coen-bræðra Fargo
2004 Leikarinn Sir Peter Ustinov lést í Sviss, 82 ára að aldri - Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Ustinov er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir túlkun sína á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik sinn í myndunum Spartacus og Topkaki. Seinustu árin vann Ustinov ötullega að mannúðarmálum og var til fjölda ára velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna
Snjallyrðið
Friendship... is not something you learn in school. But if you haven't learned the meaning of friendship, you really haven't learned anything.
Muhammad Ali hnefaleikameistari (1942)
<< Heim