Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 mars 2005

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Það hefur varla farið framhjá neinum að skákmeistarinn Bobby Fischer kom til landsins að kvöldi skírdags. Sjónvarpsáhorfendur Stöðvar 2 urðu þá vitni að einhverjum mesta fjölmiðlasirkus í sögu landsins. Í pistli mínum á föstudaginn langa fjallaði ég um komu Fischer til landsins og því þegar íslenskt fjölmiðlafyrirtæki allt að því tók Fischer á vald sitt því að hann hafði flogið til landsins frá Svíþjóð í einkaflugvél þeirra. Mikið hefur verið rætt og ritað um komu Fischers nú um helgidagana. Umfram allt stendur eftir sameiginlegt mat fólks að umfjöllun Stöðvar 2, frá því er skákmeistarinn kom til landsins, hafi verið eitt tilþrifamesta fíaskó íslenskrar fjölmiðlasögu, sannkallað skot í myrkrið hjá fréttastofu sem vill láta taka sig alvarlega í vinnubrögðum sínum. Sérstaklega var með hreinum ólíkindum að fréttastjóri Stöðvar 2 var þátttakandi í vinnubrögðunum og Stöð 2 fór með skákmeistarann eins og hann væri algjörlega á þeirra valdi. Sama hvernig Stöð 2 snýr málinu, eða reynir að gera það öllu heldur, stendur ennþá eftir sú staðreynd að fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar skoraði eitt tilþrifamesta og mest áberandi sjálfsmark í sögu íslenskrar fjölmiðlunar með vinnubrögðum sínum þá. Um þetta er vart deilt.

Eini maðurinn sem stigið hefur fram til að reyna að verja aumingjaleg vinnubrögð fréttastofunnar er Páll Magnússon fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, maðurinn sem settist í farþegasætið í Range Rover jeppanum margfræga. Óneitanlega var skrautlegt hvernig farið var með skákmeistarann undir yfirskini þess að hann væri "örþreyttur" og þyrfti að koma honum á burtu sem fyrst. Samt sem áður var hann ekki þreyttari en svo að komið var með hann eftir nokkra stund á sama stað, þegar aðrir fjölmiðlar voru annað hvort farnir eða búnir að taka niður búnað sinn. Hann varð eins og ódýrt sirkusdýr sem er til sýnis lokað í búri. Nema sá var munurinn að þessu sirkusdýri var keyrt um á rándýrum Range Rover að hálfu fjölmiðlafyrirtækis. Ekki var betur hægt að sjá en að lögreglan væri þátttakandi í vinnubrögðum Stöðvar 2 á staðnum. Fulltrúum annarra fjölmiðla og þeim sem börðust hvað mest fyrir komu skákmeistarans var einfaldlega bara stjakað frá af lögreglunni og til að kóróna allt gat fréttamaður Stöðvar 2 farið beint upp að Fischer er hann kom úr Baugsvélinni meðan öðrum var ekki hleypt nær. Það sést því vel hver stjórnaði för við komu Fischer. Á föstudaginn langa sendi fréttastjórinn út fréttatilkynningu og bar af sér þær sakir að hann hefði fjarstýrt komu Fischers og atburðarásinni. Sú skýring hljómar mjög hjáróma þegar horft er á þessa dæmalausu útsendingu. Það virðist vera sem að fréttastjórinn treysti á að fólk sé svo skyni skroppið að geta ekki reiknað saman tvo og tvo. Þeir sem horfa á útsendinguna sjá eitt fyrirtæki eigna sér stóran fjölmiðlaatburð og taka aðalpunkt atburðarins og gera hann að sinni eign. Það er grátlegt að fylgjast með aðförum hans og hann á að sjá sóma sinn í að víkja sem fréttastjórnandi.

Ásdís Halla BragadóttirÞað er mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún hefur verið bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélagi. Sérstaklega er gaman að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum. Er það ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar.

Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar. Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Á fleiri sviðum er Ásdís Halla að standa sig vel. Sérstaklega er gaman að kynna sér málefni nýs vefs bæjarins. Nýi vefurinn boðar alger tímamót í rafrænum samskiptum sveitarfélags við íbúa sína. Allir Garðbæingar geta fengið lykilorð að vefnum og gert eigin útgáfu af vefnum, tekið þátt í umræðum og ákvarðanatöku almennt. Meðal þess sem hægt er að skoða á vefnum er staða gjalda svo sem fasteigna- og leikskólagjalda. Hægt er að senda formleg bréf til bæjarstjórnar og senda inn athugasemdir við auglýst skipulag. Ánægjulegt hvernig unnið er í málum þarna. Hvet alla til að kynna sér vefinn. Vonandi er þetta það sem koma skal varðandi vefi sveitarfélaga. Ásdís stendur sig vel, gaman að fylgjast með verkum hennar.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Átakanlegt var að fylgjast með Jóhannesi Páli páfa II á páskadag er hann kom fram opinberlega samkvæmt venju um trúarhátíðina. Í fyrsta sinn í páfatíð sinni flutti páfinn ekki páskamessu í Péturskirkjunni, vegna veikinda sinna, en hann hefur verið mjög veiklulegur að undanförnu í kjölfar barkaskurðar sem gerður var á honum í síðasta mánuði. Hinsvegar kom páfi út í glugga íbúðar sinnar í Vatíkaninu og blessaði tugþúsundir pílagríma sem safnast höfðu saman á Péturstorginu. Ávarpaði hann ekki mannfjöldann, þó að aðstoðarmenn hans hafi verið tilbúnir með hljóðnema fyrir hann. Virtist sem páfi væri að reyna að segja nokkur orð, en svo fór að hann gerði krossmark og hljóðneminn var svo fjarlægður. Var óneitanlega nokkur kaldhæðni í því að á sama tíma og kristnir menn minntust pínu frelsarans horfðu kaþólskir upp á trúarleiðtoga sinn fársjúkan og augljósa pínu hans við að reyna að sinna verkum sínum. Gat hann ekki tjáð sig og reyndi augljóslega af veikum mætti að sinna sínu. Þetta er átakanlegt á að horfa og vekur spurningar um hversu fáránlegt það er að maðurinn sinni áfram þessum starfa þegar hann augljóslega getur það ekki.

Skattframtöl

Lagt hefur verið fram á þingi, frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Á föstudaginn langa fór ég yfir málið í ítarlegum pistli á ihald.is og talaði um þingumræðu þar sem vinstrimenn töluðu margir hverjir gegn þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þar segir svo um málið: "Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál. Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík."

James Callaghan (1912-2005)

James Callaghan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést á laugardag. Honum vantaði þá aðeins sólarhring upp á að verða 93 ára gamall. Callaghan var til fjölda ára einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Bretlands og var í fremstu víglínu Verkamannaflokksins í fjóra áratugi. Hann er eini maðurinn í sögu landsins sem hefur náð að gegna öllum fjórum valdamestu ráðherraembættum landsins: forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra. Callaghan var kjörinn á breska þingið árið 1945 og átti þar sæti allt til ársins 1987 fyrir Cardiff í Wales. Hann var samgönguráðherra 1947-1951. Hann varð lykiltalsmaður flokksins í stjórnarandstöðu 1951-1964. Loks þegar langri valdatíð íhaldsmanna lauk 1964 varð hann fjármálaráðherra. Hann var innanríkisráðherra 1967-1970 en vinstrimenn misstu þá völdin. Er flokkurinn komst aftur til valda 1974 varð hann utanríkisráðherra. Er Harold Wilson hætti snögglega í pólitík 1976 var tími Callaghans loks kominn og hann varð eftirmaður hans sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins. Hann sat í embætti allt til maímánaðar 1979 er flokkurinn missti völdin til íhaldsmanna. Hann lét af leiðtogastöðunni árið eftir. Nýlega varð Callaghan elstur allra þeirra sem setið hafa á forsætisráðherrastóli. Lést hann snögglega á laugardag, aðeins 11 dögum eftir andlát eiginkonu sinnar, Audrey. Með láti Callaghans er einn af helstu forystumönnum Verkamannaflokksins á 20. öld fallinn í valinn.

Margaret Thatcher og John Major

Meira um breska pólitík. Um páskana las ég pólitíska ævisögu breska stjórnmálamannsins John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Lengi hef ég haft mikinn áhuga á breskri pólitík og haft gaman af að lesa pólitískar ævisögur lykilleiðtoga sögu Bretlands og fara yfir feril þeirra og pólitískan feril í fremstu víglínu. Major er langt í frá uppáhaldsstjórnmálamaður. Hef ég mun meiri álit á risum breskra stjórnmála á öldinni, t.d. Margaret Thatcher, Harold Macmillan, Harold Wilson og Sir Winston Churchill. En þáttur Major í stjórnmálasögu Bretlands er nokkur og má ekki vanmeta hann þó hann hafi ekki verið jafnáhrifamikill og þau sem fyrr eru nefnd. Kosningasigur hans í bresku þingkosningunum í apríl 1992, þvert á allar skoðanakannanir, er stórmerkilegur og telst eitt af helstu mótsögnum kannana í stjórnmálasögu 20. aldarinnar. Bókin er áhugaverð, mjög svo. Í henni fer Major yfir stjórnmálaferil sinn. Major var fyrst kjörinn á breska þingið fyrir Huntingdon hérað í maímánuði 1979. Í þeim kosningum vann flokkurinn sögulegan kosningasigur undir forystu Margaret Thatcher, og komst til valda eftir fimm ár í stjórnarandstöðu.

Eftir þingkosningarnar 1983 varð hann aðstoðarráðherra í stjórnum frú Thatchers og forystumaður í þingflokknum. Í kjölfar kosninganna 1987 varð Major viðskiptaráðherra Bretlands. Árið 1989 varð Major utanríkisráðherra og tók skömmu fyrir lok þess árs við embætti fjármálaráðherra, og var þarmeð orðinn einn valdamesti ráðherra flokksins. Frú Thatcher neyddist til að víkja af valdastóli í nóvember 1990 eftir innbyrðis valdaerjur og gaf Major kost á sér í leiðtogaslag flokksins. Hann var kjörinn eftirmaður hennar í leiðtogakjöri þann 27. nóvember 1990. Hann tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands sólarhring síðar. Hann vann sigur í þingkosningunum 1992, þvert á allar spár. Árið 1995 réðst hann að andstæðingum sínum innan flokksins og efndi til leiðtogakjörs sem hann vann. Hann beið ósigur í þingkosningunum 1997 fyrir Verkamannaflokknum og vék þá jafnframt af leiðtogastóli flokksins, hafði þá setið á valdastóli tæp 7 ár. Hann lét af þingmennsku í kosningunum 2001. Hvet alla til að lesa þessa góðu bók. Annars var páskahelgin róleg og góð, fín afslöppun og mikil notalegheit, eins og vera ber á langri og góðri helgi.

Saga dagsins
1947 Heklugos hófst - þá voru 102 ár liðin frá því að gosið hafði í Heklu. Gosið var mjög kraftmikið og náði gosmökkurinn upp í 30 þúsund metra hæð og aska barst allt til Bretlands. Gosið stóð í ár
1961 Lög um launajöfnuð kvenna og karla samþykkt á þingi - markaði tímamót í jafnréttisbaráttu
1982 Leikararnir Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hjónunum Norman og Ethel Thayer í myndinni On Golden Pond. Þetta var síðasta hlutverk Fonda í kvikmynd á löngum og glæsilegum leikferli og hans einu óskarsverðlaun. Hann lést í ágúst 1982. Hepburn var svipmesta og glæsilegasta kvikmyndaleikkona 20. aldarinnar og lék í miklum fjölda úrvalsmynda á ferli sem spannaði sex áratugi. Hún hlaut fjórum sinnum óskarsverðlaun, oftar en nokkur annar til þessa og var tilnefnd alls 12 sinnum til verðlaunanna. Hepburn vann áður óskarinn 1933 fyrir Morning Glory, 1967 fyrir Guess Who's Coming to Dinner og 1968 fyrir The Lion in Winter. Hún hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1987. Kate Hepburn lést í júní 2003
1988 Leikarinn Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Raymond Babbitt, einhverfum manni, í kvikmyndinni Rain Man - Hoffman hlaut óskarinn níu árum áður fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer. Hoffman er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið lof kvikmyndaunnenda
1993 Heimir Steinsson útvarpsstjóri, segir Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu upp störfum - nokkrum dögum síðar var Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Sjónvarps af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra. Leiddi til átaka innan Ríkisútvarpsins í garð stjórnvalda. Hrafn leysti af Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóra, í ársleyfi hans og lét svo af störfum hjá RÚV

Snjallyrðið
I don't want to achieve immortality through my work. I want to work, and work hard while I am living. Those who appreciate will appreciate, others don´t. That´s fine by me. I am not working for others, this is my work and my choice of living.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)