Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 mars 2005

Bobby Fischer í hamHeitast í umræðunni
Með ólíkindum hefur verið að horfa á framgöngu og talsmáta nýjasta Íslendingsins, skákmeistarans Bobby Fischer. Á föstudaginn langa hélt Fischer blaðamannafund á Hótel Sögu. Þar kjaftaði á honum hver tuska. Lét hann þar ýmis orð falla og dró ekkert undan. Sérstaka athygli vöktu öfgakennd og ógeðfelld ummæli hans um gyðinga. Er með ólíkindum að lesa fréttir erlendra fréttamiðla af orðalagi skákmeistarans. Öfgakenndar skoðanir Fischers eiga ekkert skylt við þreytu eða óróleika vegna stöðu hans eins og sumir hafa látið í veðri vaka. Þessi ummæli og tilburðir í þessa átt er ekkert nýtt. Þetta hefur sést margoft áður og komið vel fram. Þeir sem muna eftir viðtali Egils Helgasonar við Fischer á Skjá einum árið 2002 muna vel eftir því hvernig hatrið og öfgarnar vall upp úr honum, svo mikið að meira að segja Agli var nóg boðið. Okkur Íslendingum er að lærast það núna endanlega að koma Fischers verður okkur ekkert nema vesin og vandræði. Er enda svo að erlend og áhrifamikil dagblöð ausa yfir okkur neikvæðri umfjöllun fyrir það að hafa tekið Fischer upp á sína arma og gert hann að íslenskum ríkisborgara. Um helgina sáum við beitt skrif Washington Post og Guardian, þar sem ákvörðun okkar um að taka Fischer á okkar arma var gagnrýnd.

Sérstaklega var merkilegt að sjá skrif hins vinstrisinnaða demókrataskotna dagblaðs Washington Post. Í leiðaraskrifum þar segir að Fischer hafi fyrir margt löngu sagt skilið við háttprýði og heiðvirða framkomu. Hann sé heiftúðugur gyðingahatari sem hafi fagnað hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin ellefta september 2001. Blaðið segir það hafa verið sorgardag þegar íslenska þingið hafi samþykkt að veita Fischer ríkisborgararétt. Í greininni segir að Fischer sé hetja í augum Íslendinga sem sé skákelskandi þjóð. Sigur hans á Boris Spassky í Reykjavík 1972 hafi verið ein stórbrotnasta stund í skáksögunni ekki sé deilt um skáksigra Fischers. Íslendingar hafi kosið að muna Fischer eins og hann var á hátindi frægðar sinnar en þing lýðræðisríkis eigi ekki að horfa framhjá því hversu djúpt skákmeistarinn hafi sokkið síðan hann vann sína mestu sigra. Í einangrun sinni hafi Fischer orðið heiftúðugur gyðingahatari og árið 1992 hafi hann teflt í Júgóslavíu þvert á viðskiptabann og refsiaðgerðir á sama tíma og mannfall hafi verið mikið í Bosníu. Blaðið vitnar til ummæla hans á Filippseyjum árið 2001. Þar hafi hann sagt fréttir að árásunum yndislegar og látið í ljós þá von að herinn myndi taka völdin í Bandaríkjunum. Öllum samkunduhúsum gyðinga yrði þá lokað, allir gyðingar yrðu handteknir og mörg hundruð leiðtogar þeirra færðir í varðhald. Nú hefur Boston Globe t.d. bæst við. Ekki er hægt að kenna hér pólitík um eins og sumir hafa reynt við að verja Fischer. Vinstra- og hægrafólk í bandarískri pólitík er illa við Fischer og hefur fengið nóg af honum eins og þessi skrif kristalla vel. Er með ólíkindum að fylgjast með Fischer og talsmáta hans og ekki laust við að það staðfestist að það var kolröng ákvörðun að stuðla að því að hann kæmi hingað til lands.

Kofi AnnanSeinustu vikur og mánuðir hafa verið erfiðar fyrir Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hefur hann verið undir miklu ámæli vegna málefna sonar síns, Kojo Annan. Hefur verið deilt um það hvort Annan hafi haft vitneskju um það að svissneskt fyrirtæki sem sonur hans starfaði hjá, hafi gert samninga í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíusölu frá Írak meðan á viðskiptabanninu við landið stóð. Í gær lauk formlegri rannsókn eða úttekt á málinu. Niðurstaða hennar er að ekki séu nægar vísbendingar fyrir hendi um að Annan hafi vitað um málið fyrirfram. Hinsvegar er Annan gagnrýndur harkalega í úttektinni um málið fyrir að ganga ekki úr skugga um hvernig sonur hans tengdist fyrirtækinu. Þau liggja engar beinar sannanir fyrir um það að Annan hafi beitt sér fyrir því að SÞ samdi við fyrirtækið. Hafði verið talið fyrirfram að úttektin myndi hreinsa Annan af öllum grun, og því enginn vafi á að þetta er áfall fyrir hann að hann er ekki alveg hreinsaður af málinu, enda m.a. sagt að hann hafi fyrirskipað eyðingu gagna eftir að rannsóknin hófst.

Enginn vafi leikur á að sonur Annans hefur leynt föður sinn þó því að hann væri að vinna hjá fyrirtækinu. Hafði hann sagt föður sínum áður að hann væri hættur þar störfum, meðan svo var ekki. Annan er ekki sakaður um spillingu í úttektinni. Engar beinar sannanir liggja fyrir um þátt Annan en tengslin eru honum til vansa og munu án vafa verða skuggi yfir hans störfum hjá Sameinuðu þjóðunum. Annan hefur verið umdeildur eins og fyrr segir seinustu ár. Hann hóf störf af krafti í ársbyrjun 1997 og ávann sér sterkan sess fyrstu árin. Hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 2001. Sama ár var hann skipaður að nýju til fimm ára í embættið. Getur framkvæmdastjóri að hámarki setið í embættinu í 10 ár og því ljóst að hann mun láta af störfum í lok næsta árs. Hinsvegar hefur trúverðugleiki hans skaddast vegna þessara mála. Hafa íhaldsmenn í Bandaríkjunum, sem jafnan hafa haft horn í síðu hans, notað málið gegn honum og krafist afsagnar hans. Er ólíklegt að hann víki vegna málsins og klári því þann tíma sem hann á eftir í embættinu. Hinsvegar er ljóst að málið hefur allt skaðað hann og trúverðugleika hans. Það er vissulega leitt að jafnöflugur maður og Annan láti svona smávægilegt mál leika sig jafngrátt og hafi ekki komið fram af hreinskilni allt frá upphafi rannsóknarinnar og láti það eyðileggja annars ágæt störf hans.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Eins og ég sagði frá í gær var mjög átakanlegt að fylgjast með Jóhannesi Páli páfa II á páskadag er hann kom fram opinberlega til að blessa mannfjöldann sem saman var kominn á Péturstorgið. Greinilegt var að hann var sárkvalinn og gat t.d. ekki tjáð sig eða flutt bæn vegna þess hversu óskýrmæltur hann var. Tal hans varð ein ósamfella sem var óskiljanlegt. Þetta er skelfilegt á að horfa og greinilegt að páfi er sárkvalinn. Í dag kom svo páfi fram aftur og gat hann ekki talað í dag heldur. Virkaði hann enn veiklulegri í dag og var tekinn í andliti. Hefur framkoma hans í þessi tvö skipti vakið mikla umræðu um heilsu hans og hver staða hans sé. Í dag var tilkynnt að páfi fengi nú næringu í gegnum slöngu sem þrædd er gegnum nef hans og niður í maga. Er þetta gert til að tryggja honum næga næringu. Með þessu er ljóst að hann heldur ekki mat niðri og getur ekki nærst með eðlilegum hætti. Er alveg ljóst núna að hverju stefnir. Er heilsa páfa orðin svo bágborin að hann getur varla nærst. Það blasir því við að hann eigi skammt ólifað nema heilsa hans batni fljótlega. Engum duldist á páskadag að páfi er bæði veikburða og þjáður. Lítill vafi leikur á, eins og staðan er, að brátt líður að þeim tímapunkti að löngum ferli páfa ljúki.

Listagilið

Ungir sjálfstæðismenn ætla að hittast á Café Karólínu á Akureyri á föstudaginn kl. 17. Á fundinum mun ég kynna starf Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri, og fara yfir hvað hefur verið gert og ennfremur minna á ályktanir okkar og vinnu í vetur. Að því loknu mun Jón Hákon Halldórsson framkvæmdastjóri SUS, kynna starf Sambands ungra sjálfstæðismanna. Rætt verður um undirbúning að 75 ára afmæli SUS, næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem verður væntanlega í október, og fleiri þætti sem lúta að starfi ungra sjálfstæðismanna. Allir sjálfstæðismenn eru velkomnir á fundinn. Þeir sem vilja taka þátt í starfinu hér eða koma á framfæri skoðunum á pólitíkinni, ungliðastarfinu hér á svæðinu og almennt eru hvattir til að mæta á staðinn, eiga gott spjall og fara yfir stöðuna. Hef ég alltaf minnt á mikilvægi þess að hafa kraftmikið pólitískt starf svo þeir sem áhuga hafi á pólitík geti valið skoðunum sínum og pólitískum hugsjónum farveg í pólitísku starfi. Allavega er öllum frjálst að mæta, ræða málin og fara yfir hvað er að gerast. Hvet alla sem áhuga hafa til að mæta og kynna sér stöðu mála hér og væntanleg verkefni.

Deiglan

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri, hafa boðað til opins fundar um þróun íslenska velferðarkerfisins á föstudaginn ennfremur, föstudaginn 1. apríl. Fundurinn verður í sama húsi og fundur okkar ungra sjálfstæðismanna, nema veggurinn er á milli, enda er fundurinn á Deiglunni og hefst kl. 18.00. Mun Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs, opna fundinn, en síðan munu Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, fjalla um stöðu mála. Umræður verða svo í fundarlok. Margar áleitnar spurningar koma eflaust fram. Til dæmis: munu Íslendingar kjósa að halla sér í æ meira mæli að bandaríska velferðarmódelinu eða halda í það norræna? Hver er raunveruleg staða íslenska velferðarkerfisins? Af hverju eru fleiri konur en karlar undir fátækramörkum? Hvernig er hlúð að barnafjölskyldum? Einstæðum foreldrum? Börnum með sérþarfir? Áhugaverður fundur, hefði reynt að fara á hann hefði öðruvísi staðið á. Spennandi efni og verður þetta án vafa merkilegur fundur og vonandi verður hann vel sóttur.

Bob Woodward - Plan of Attack

Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkilega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President´s Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Saga dagsins
1949 Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á Alþingi - mikil mótmæli urðu vegna þess við Alþingishúsið við Austurvöll og í fyrsta skipti í sögu landsins var táragasi beitt á mannfjölda
1955 Leikkonan Grace Kelly hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Georgie Elgin í The Country Girl - hún var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum. Hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún kvæntist Rainier fursta af Mónakó, 1956. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Grace fórst í bílslysi árið 1982, 53 ára að aldri
1981 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, særist lífshættulega í skotárás fyrir utan Hilton hótelið í Washington. Geðbilaður maður, John Hinckley, skaut sex skotum að forsetanum og lífvörðum hans er forsetinn var að yfirgefa hótelið eftir að hafa flutt ræðu. Skaut hann blaðafulltrúa forsetans, James Brady, í höfuðið og slapp hann naumlega lifandi frá skotárásinni. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington-spítala til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í skurðaðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvöl. Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu landsins þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans - sat á forsetastóli til 1989 og lést 2004
1992 Leikararnir Sir Anthony Hopkins og Jodie Foster hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á mannætunni Hannibal Lecter og alríkislögreglukonunni Clarice Starling í myndinni The Silence of the Lambs. Hopkins er einn af bestu leikurum Breta og hefur átt stórleik í fjölda kvikmynda á löngum ferli og verið öflugur sviðsleikari ennfremur. Foster er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og átt margar glæsilegar leikframmistöður og hlaut óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í The Accused
2002 Elísabet drottningarmóðir, ekkja George VI Englandskonungs og móðir Elísabetar drottningar, lést í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri. Eiginmaður hennar, George VI, var konungur Englands í 16 ár, frá 1936 til dauðadags 1952. Frá þeim tíma var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar og var alla tíð rómuð fyrir tignarlegan glæsileika

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)