Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 mars 2005

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Í sunnudagspistli mínum í gær fjallaði ég um stöðu og málefni Ríkisútvarpsins í ljósi umfjöllunar Morgunblaðsins. Þar kom margt mjög athyglisvert fram. Í skrifum mínum í gær ítrekaði ég skoðanir mínar og ennfremur mikilvægi þess að stokka stöðu mála þar upp. Kallaði ég eftir því að menn tækju á stöðu mála og kynnt væri hvað eigi að gera með málin þar. Fá hlutina á hreint. Til fjölda ára hefur verið reynt innan stjórnarflokkanna að landa þessu máli og knýja í gegn þær breytingar sem allir sjá að gera þarf. Eins og staðan er nú orðin sjá allir að þessar breytingar verða að eiga sér stað á næstu árum, það verður ekki umflúið. Í dag var loks tilkynnt um meginefni væntanlegs frumvarps sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, mun leggja fram til breytinga á útvarpslögum, og samstaða hefur náðst um í ríkisstjórn. Er þar gert ráð fyrir þeim breytingum sem eigi að gera. Hverjar eru þær breytingar, spyrja margir sig. Jú, rétt er að fara yfir það helsta í nokkrum orðum. Fyrsta breytingin, og ein sú helsta sem kynnt er, gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag, en fer samt ekki algjörlega inn á þá braut. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi.

Eins og kom fram í dagblaðsviðtali við menntamálaráðherra í síðasta mánuði verða afnotagjöldin lögð niður. Mun það væntanlega gerast á árinu 2008 endanlega. Í stað þess verður tekinn upp nefskattur á alla einstaklinga, eldri en 18 ára. Viðkomandi nefskattur á hvern landsmann gæti numið 10.000 krónum. Til sögunnar myndi koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunum er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Mín viðbrögð á þessar tillögur eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Í mínum huga verða tillögurnar að ganga lengra. Það sem nú liggur fyrir ber allan brag málamiðlana ólíkra stefna og skoðana. Það er því ljóst að ég vil taka meira af skarið og ganga lengra. Það er nauðsynlegt eigi að taka málin verulega fyrir og vinna það af krafti. Það sem hér blasir við er ekki grundvöllur þeirra breytinga sem ég tala fyrir, nema að mjög takmörkuðu leyti.

Guðjón Arnar KristjánssonUm helgina hélt Frjálslyndi flokkurinn svokallað landsþing sitt. Er það æðsta stofnun flokksins og ákvarðanir þess stefnumótandi og því þar teknar allar mikilvægustu ákvarðanir flokksheildarinnar. Það sem helst stendur eftir þessa fundarhelgi frjálslyndra er einkum tvennt. Í fyrra lagi það að flokkurinn er margklofinn í stefnu- og forystumálum, tekist er á um stefnu og forystumenn og samstaðan ekki mikil. Í seinna lagi að flokkurinn, sem stofnaður var sem hægrisinnaður miðjuflokkur, er kominn á vinstrikant íslenskra stjórnmála og fetar sig sífellt lengra til vinstri, eflaust til að þóknast hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Lengi voru vissir spekingar íslenskra stjórnmála að tala um að Frjálslyndi flokkurinn væri útibú frá Sjálfstæðisflokknum, þar væri samansafn óánægðra sjálfstæðismanna sem aldrei hefðu fengið neinu þar að ráða og aðhylltust sína versíón af sjálfstæðisstefnunni. Þessir spekingar geta tekið af sér spádómshattinn og talað um eitthvað annað. Frjálslyndi flokkurinn er vinstriflokkur, stefna hans og veganesti af þessu landsþingi er vinstristefna. Einfalt mál og mjög skýrt!

Í upphafi landsþingsins mætti formaður flokksins, kvótakerfisandstæðingur allra tíma, sjálfur Guðjón Arnar Kristjánsson, og flutti langa ræðu. Það sem helst stóð eftir hana var að hann lofaði 20 göngum á landinu. Ekki sagði hann þó neitt um hvar þau ættu að vera né það sem meira skipti hvernig ætti að fjármagna þau. Að hlusta á Guðjón tala um þessi mál var eins og að lesa góða skáldsögu og átta sig svo á að seinasta kaflann vantaði. Það vantaði lausnirnar og hvernig hnýta ætti málið saman. Kostulegt alveg, en einhverjir munu hafa gleypt við þessu. En eftir stendur að það vantar lausnir á góða hugmynd. En já Frjálslyndi flokkurinn sem svo er nefndur er vinstriflokkur. Það er engin furða að fólk líti svo á. Allar helstu vinstriáherslur sögunnar eru komnar saman í velferðarmálakaflana og svo stendur flokkurinn á móti einkavæðingu og mikilvægum hægriáherslum í efnahagsmálum. Hann er meira að segja á móti hlutafélagavæðingu RÚV. En það er vart skrítið með formann hollvina RÚV í forystusveit. Það er sláandi að lesa stefnu flokksins í mörgum lykilmálaflokkum og skynja á hvaða kúrs hann er á siglingunni. Hann fer sífellt meir til vinstri. Það er ekki að undra að helstu hægrimenn flokksins séu nokkuð teknir að ókyrrast og hugleiða hvort þessi fleyta haldi vatni og vindum og sé traustverðug til lengdar á pólitískri vegferð. Guðjón Arnar gat enda ekki sannfært stjórnanda Kastljóss í gær um að hann væri málsvari hægrisinnaðs stjórnmálaafls. Það er engin furða, enda er þetta vinstriflokkur, þvert á það sem stefnt var að við stofnun.

Punktar dagsins
Reykjavíkurflugvöllur

Í dag fór fram á Alþingi utandagskrárumræða um málefni Reykjavíkurflugvallar. Halldór Blöndal forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, var málshefjandi. Sagðist Halldór í upphafi ræðu sinnar hafa séð í Morgunblaðinu um helgina að gert hafi verið samkomulag af borgarstjóra og samgönguráðherra um að í samgönguáætlun næstu ára verði tillaga um að samgönguyfirvöld loki norðaustur-suðvestur flugbrautinni á vellinum á þessu ári. Vildi hann heyra mat ráðherra á þessu og hvort hægt væri að reka völlinn með einni braut. Í svari sínu sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, að hann ætti mjög erfitt að sjá það fyrir að hægt sé að reka völlinn með einni braut, eins og borgarstjóri hefur t.d. ljáð máls á. Var fróðlegt að heyra umræður á þingi um málefni flugvallarins og skoðanir þingmanna. Flestir þingmenn studdu flugvöll í Vatnsmýrinni. Annars má sjá skýr skil á afstöðu höfuðborgarþingmanna og þeirra sem eru á landsbyggðinni. Það blasir alveg við og línurnar eru vel skýrar.

Einna harðast gegn vellinum talaði Helgi Hjörvar varaborgarfulltrúi og fyrrum forseti borgarstjórnar. Eins og allir vita er R-listinn mjög samhentur að mestu gegn vellinum, en framsóknarmenn þar hafa þó lengi haldið einhverjum röddum uppi með vellinum á þeim vettvangi. Greinilegt er á orðum Helga og ennfremur borgarstjóra hver afstaða Samfylkingarinnar í Reykjavík er. Annars hefur vakið mikla athygli að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, hefur þagað eins og mest hún getur um þessi mál. Það er svosem engin furða, því það yrði henni varla styrkur í formannskjöri Samfylkingarinnar og baráttu sinni þar fyrir æðsta sessi flokksins að opinbera störf sín að málefnum vallarins í borgarstjóratíð sinni og skoðanir um hann almennt. Það væri ráð fyrir einhverja að reyna að draga Ingibjörgu úr holu sinni í þessu máli og fá fram afstöðu hennar. En umræðan á þingi var góð og Halldór á hrós skilið fyrir að draga enn betur fram með henni skoðanir þingmanna á málinu öllu. Munurinn þeirra á milli á stöðu málsins kom vel í ljós í dag.

Bobby Fischer

Sæmundur Pálsson hitti í dag skákmeistarann Bobby Fischer í fyrsta skipti í 33 ár. Segja má að fagnarfundir hafi orðið milli þeirra. Ef marka má fréttir af fundi þeirra og viðtal við Sæmund hefur Fischer látið mikið á sjá í varðhaldinu og hvorki látið klippa sig né raka til að mótmæla því að honum sé haldið í varðhaldi í Japan. Mun Sæmundur vart hafa þekkt Fischer, en þeir kynntust vel þegar Fischer kom hingað árið 1972 og Fischer var lífvörður hans og aðstoðarmaður hérlendis. Fleiri þáttaskil urðu í málinu í dag en Masako Suzuki lögmaður Fischers, fékk í dag formlega afhent íslenskt útlendingsvegabréf Fischers. Eins og fram hefur komið að ef rétt er að Fischer hafi verið handtekinn því hann hafi verið vegabréfalaus er ljóst að hann mun brátt verða frjáls ferða sinna, enda hlotið nú skilríki. Verður fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum málsins og hvað gerist á morgun þegar lögmaðurinn fer með vegabréfið til yfirvalda. Fái Fischer að yfirgefa Japan er ljóst að honum er frjálst að halda til Íslands. Mun þá væntanlega reyna á það hvort Fischer ætli að setjast hér að eða ætli sér að dvelja annarsstaðar. Þá og ekki fyrr á að reyna á hver næstu skref af hálfu íslenskra yfirvalda verði.

George H. W. Bush og Bill Clinton

Eins og ég sagði frá í síðasta mánuði ferðuðust George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forsetar Bandaríkjanna, saman um flóðasvæðin í Asíu og kynntu sér stöðu mála þar. Eru þeir báðir verndarar alheimssöfnunar til styrktar fórnarlömbum flóðanna og sýndu forystu sína í málinu með því að fara um svæðin. Þótti mér mjög merkilegt að sjá í dag frétt á erlendum fréttavef um ferð þeirra. Lengi hafa gengið sögur um að kalt hafi verið milli forsetanna fyrrverandi. Eins og flestum er kunnugt felldi Clinton, Bush eldri, af forsetastóli í kosningunum 1992. Í seinni tíð hafa samskipti þeirra batnað og þeir ræðast við þegar þeir hittast. Þótti mér mjög merkilegt að sjá að á ferð sinni um helstu svæðin hafi aðeins verið eitt rúm og muni Clinton hafa gefið það eftir til Bush, sem er mun eldri. Clinton hafi því sofið á gólfinu fyrir Bush eldri. Þetta fannst mér mjög merkilegt að lesa um. Sýnir þetta eflaust betur en margt annað að samskiptin milli þeirra hafa skánað. Í fréttinni er skemmtileg frásögn af þessu atviki, höfð eftir úr viðtali við Bush í erlendu tímariti. Bendi ég fólki á að lesa þessa umfjöllun. Sést af þessu að jafnvel harkalegir pólitískir andstæðingar geta grafið stríðsöxina, unnið saman og sofið á gólfinu jafnvel til að búa í haginn fyrir hinn. :)

Þráinn Bertelsson

Um daginn heyrði ég skondna sögu frá vini mínum. Þannig var að fyrir nokkrum vikum var haldið þorrablót Íslendinga í London. Aðalræðumaður þar mun hafa verið samsæriskenningasmiðurinn Þráinn Bertelsson leikstjóri, sem er eins og flestir vita á heiðurslistamannalaunum ríkisins, þá væntanlega fyrir kvikmyndir sínar. Honum mun hafa mælst svo illa við það tækifæri að hann hélt ekki athygli matargesta og mun hafa haft á orði oftar en einu sinni að hann væri hissa á því, að hann hefði verið beðinn um að tala þarna úr því að allir aðrir viðstaddir virtust vilja tala á sama tíma! Við svo búið mun einn viðstaddra hafa látið í ljósi hug sinn til hans með því að taka hljóðnema hans úr sambandi. Fannst mér þessi saga skondin en um leið og ég heyrði hana varð mér hugsað til þess þegar viðkomandi maður kom hingað til Akureyrar fyrir jólin og las upp úr lönguvitleysu sinni og mæltist svo illa að hann fékk ekki athygli þeirra sem voru viðstaddir á staðnum. Lauk því með því að það gall í einum manni sem var að skoða bókina: hver er annars þessi Þráinn Bertelsson?

Saga dagsins
1902 Sögufélagið var stofnað - lykilmarkmið félagsins allt frá upphafi var að vinna að því að gefa út ítarlegt og nákvæmt heimildarrit um sögu íslensku þjóðarinnar, allt frá miðöldum til nútímasögunnar
1922 Ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Eggerz tók við völdum - stjórnin sat við völd í rúmlega tvö ár
1946 Leikkonan Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce - hún var ein af svipmestu leikkonum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum kvenpersónum. Hún lést árið 1977. Mikið var deilt um einkalíf leikkonunnar eftir að dóttir hennar, Christina Crawford, gaf út bók um ævi sína og lýsti móður sinni sem skapmikilli og bráðri og hefði beitt sig andlegu ofbeldi til fjölda ára. Sú saga var færð í kvikmyndabúning í myndinni Mommie Dearest árið 1981. Í myndinni fór leikkonan Faye Dunaway algjörlega á kostum í hlutverki hinnar goðsagnakenndu leikkonu og túlkaði skapgerðarbresti hennar og sjálfsdýrkun með snilldarhætti
1981 Dægurlagið Af litlum neista, með Pálma Gunnarssyni, sigrar í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins
1996 Tímaritið Séð og heyrt hóf göngu sína - blaðið var allt frá stofnun umdeilt en vinsælt slúðurrit

Snjallyrðið
Humor is mankind's greatest blessing.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)