Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 maí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um góðar skipulagstillögur sjálfstæðismanna í Reykjavík sem gera ráð fyrir byggð á eyjunum við borgina. Tillögurnar hafa vakið verðskuldaða athygli og opnað á umræðu um skipulagsmál. Greinilegt er að R-listinn er gríðarlega fúll, sem von er auðvitað, með stöðu mála. Þau hafa misst frumkvæðið í þessum efnum til Sjálfstæðisflokksins. Sárindi þeirra og gremja leyna sér ekki. R-listinn er orðinn svo upptekinn af því að berja í sprungurnar sínar að þau hafa gleymt hinum almenna kjósanda og eru heillum horfin í einhverjum fílabeinsturni að því er virðist. Það sem vekur þó mikla athygli mína er að Steinunn Valdís gefur í skyn aðra stundina að hugmyndinni að skipulaginu sé stolið frá sér og á næsta augnabliki að þetta sé afleit hugmynd sem leiði til hækkunar á lóðaverði og sé því afleit. Þetta fer vart saman. Hvar og hvenær hefur R-listinn annars komið með hugmyndir í þá átt að byggt verði á Geldinganesi, Engey og Akurey? Já, eða þá bara mögulega í Viðey? Þeir eru að tala um að umræða hafi verið uppi um byggð jafnvel (takið eftir nota bene orðinu jafnvel) á Örfirisey og unnið þannig. En lengra nær framtíðarsýn þeirra ekki. Ennfremur vík ég að málefnum Vatnsmýrarsvæðisins og flugvallar í borginni.

- í öðru lagi fjalla ég um leiðaraskrif Morgunblaðsins á föstudag, þar sem blaðið talar fyrir uppstokkun í forystusveit stjórnmálanna. Skrif Moggans skilur eftir sig fleiri spurningar en nokkru sinni svör. Þegar litið er á nokkra punkta er enn erfiðara að skilja þessi skrif. Hvað hefur gerst í stjórnmálum á kjörtímabilinu sem nú er rétt rúmlega hálfnað, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, nefnum nokkur atriði - strax dettur mér í hug einir fimm punktar sem varpa ljósi á málið. Í fyrsta lagi: við upphaf kjörtímabilsins var samið um forsætisráðherraskipti er 15 mánuðir yrðu liðnir af kjörtímabilinu. Í öðru lagi: ákveðið var að nýr menntamálaráðherra tæki við á gamlársdag 2003. Í þriðja lagi: ákveðið var að umhverfisráðuneytið færi til Sjálfstæðisflokks og vegna þess kom Sigríður Anna Þórðardóttir inn í stjórn 15 mánuðum eftir kosningar. Í fjórða lagi: gefið var í skyn er Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrastól sinn fyrir tæpu ári að ráðherrahrókering yrði í Framsóknarflokki ekki seinna en árið 2006. Og síðast en ekki síst voru ákveðin forsetaskipti í þinginu sem gert er ráð fyrir að fari fram í októbermánuði. Það er því engin furða að þessi skrif veki furðu.

- í þriðja lagi fjalla ég um aðalfund Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem haldinn var í vikunni. Þar var kjörin ný stjórn fyrir næsta starfsár, sannkallaðan vinnuvetur á kosningaári. Verð ég formaður félagsins áfram næsta starfsárið. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Það mun bæta alla vinnu okkar í félaginu og starfið í heild sinni að hafa eignast vef. Hann er nauðsynleg upplýsingaveita til fólks, þarna koma fram skoðanir okkar á málum og fréttir af starfinu, þegar við á. Með tilkomu vefsins opnum við á tengsl við fólk utan félagsins, almennan lesanda og opnum leið inn í félagið fyrir þá sem ekki eru í því en vantar tengsl til að fara inn í starfið.

Að lokum fjalla ég um tveggja ára afmæli sunnudagspistlanna minna og heimasíðunnar í þeirri mynd sem lesendur þekkja hana. Það var þann 1. júní 2003 sem vefur minn í þessari mynd opnaði og fyrsti sunnudagspistillinn birtist þar.

Punktar dagsins
dr. Kristján Eldjárn forseti

Í gær opnaði forseti Íslands nýja Kristjánsstofu í Byggðasafninu Hvoli á Dalvík. Hún er til minningar um dr. Kristján Eldjárn þriðja forseta Íslenska lýðveldisins. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna. Er mjög ánægjulegt hversu kröftuglega Dalvíkingar standa vörð um að heiðra minningu þessa merka Svarfdælings.

Big Ben

Þau stórmerku tíðindi áttu sér stað að kvöldi föstudags að hin heimsþekkta klukka, Big Ben í London, hætti að ganga í tæpan einn og hálfan tíma. Þessi ein frægasta klukka heims hefur aðeins örsjaldan áður stoppast alveg og verið að margra mati talin áreiðanlegri en allt annað. Hvað sem á bjáti, alltaf sé Big Ben rétt. Er almennt talið að miklum hita í borginni sé um að kenna en þar hefur hitinn farið yfir 30 stig. Það var klukkan 22:07 að staðartíma á föstudagskvöldið sem klukkan stoppaðist. Hún fór aftur í gang skömmu síðar en stoppaði aftur á 22:20 og varð þá stopp samfellt í einn og hálfan tíma. Voru viðgerðarmenn þá komnir og komu þeir klukkunni af stað aftur og stilltu hana. Big Ben er tæplega 150 ára gömul og er eitt helsta tákn London-borgar. Nokkrar undantekningar eru þó á þessu þar sem klukkunni hefur seinkað og stundum stoppað alveg. Frægasta dæmi þess að hún hafi stoppað var árið 1962 er klukkan varð stopp vegna ísingar. Big Ben gekk alla seinni heimsstyrjöldina þrátt fyrir að sprengjuregn þýska flughersins hafi verið yfir borgina. Big Ben dregur nafn sitt af 13 tonna bjöllu sinni, er var nefnd eftir Sir Benjamin Hall sem reisti Big Ben.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stefnir, blað Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur nú komið út. Er það að þessu sinni í ritstjórn Snorra Stefánssonar og Kristins Más Ársælssonar. Mikið af spennandi efni er í blaðinu. Þar er ítarleg grein eftir Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra, er ber heitið: Hugleiðingar frá höfuðborg hins bjarta norðurs um íbúalýðræði. Þar fer Kristján Þór yfir íbúalýðræði og hugtök á bak við það með góðum hætti. Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, fara í athyglisverðri grein yfir þjónustu sveitarfélaganna og ný skref í þeirri þjónustu. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, fjallar um tískuhugtök vinstrimanna. Ásta Möller fyrrum alþingismaður, fjallar um stjórnsýslu í grein sinni. Atli Harðarson heimspekingur, skrifar svo athyglisverða grein um lýðræði og almannavilja. Síðast en ekki síst meðal áhugaverðra efna er grein Jóns Hákons Halldórssonar um ferð okkar SUS-ara til Cato Institute og spjall okkar við dr. Tom Palmer í ferð okkar til Washington í október 2004. Þetta er því í senn bæði áhugavert og spennandi blað. Það var mjög gaman að lesa það, ég hvet alla til að fá sér það.

Leikfélag Akureyrar

Leikárinu hjá Leikfélagi Akureyrar er nú lokið. Ljóst er nú að um glæsilegt starfsár hefur verið að ræða. Staða Leikfélagsins, sem til nokkurra ára, hefur verið afar slæm, er á góðri uppleið. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á leikárinu hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Er um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma er afgangur af rekstrinum. Er leikfélagið nú hálfnað við að greiða upp þann mikla skuldahalla sem safnast hafði þar upp. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Magnúsi Geir hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Hátt í 17.000 manns sáu sýningar LA á leikárinu. Enginn vafi er á að söngleikurinn Óliver hafi verið aðalaðdráttaraflið í vetur og komust færri að en vildu að lokum. Þetta er því glæsilegt starfsár sem nú er á enda. Það er fagnaðarefni fyrir okkur unnendur leiklistar í bænum að sjá hversu mikið leikhúsið er að rétta úr kútnum.

Saga gærdagsins
1972 Edward VIII deyr í Frakklandi, 77 ára að aldri. Edward varð konungur Englands í janúar 1936, en varð að segja af sér krúnunni í desember sama ár til að geta gifst unnustu sinni, Wallis Warfield Simpson. Hún var tvífráskilin og þingið og þjóðkirkjan sættu sig ekki við ráðahaginn. Frá afsögn sinni til dauðadags bjó Edward í útlegð í Frakklandi og sleit nær öllu sambandi við fjölskyldu sína, en hafði undir lok ævi sinnar mikil samskipti við Karl ríkisarfa, frænda sinn. Edward og Wallis hvíla í Windsor
1978 Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fellur - vinstriflokkar ná meirihluta í fyrsta skipti
1983 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli - gosið var frekar máttlítið og stóð aðeins ekki lengi
1994 R-listinn vinnur kosningasigur í borgarstjórnarkosningum - listinn hefur setið við völd síðan
1999 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 2003

Saga dagsins
1886 Lyfjafræðingurinn John Pemberton kynnir fyrsta sinni nýjan svaladrykk að nafni Coca Cola sem slær í gegn í fyllingu tímans. Coca Cola varð vinsælasti gosdrykkur sögunnar og alþjóðlegt tískutákn
1917 John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, fæðist í Brookline - Kennedy var kjörinn forseti árið 1960 og sat í embætti allt til dauðadags, þann 22. nóvember 1963, er hann féll í Dallas í Texas fyrir byssukúlum tilræðismanns. Morðið á Kennedy forseta er ráðgáta og hefur aldrei verið upplýst
1947 Flugvél er var á leið frá Reykjavík til Akureyrar ferst við Hestfjall í Héðinsfirði - 25 manns fórust, þ.á.m. Garðar Þorsteinsson alþingismaður. Um er að ræða mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar
1953 Edmund Hillary og Tenzing Norgay ná fyrstir manna á tind hins 8.847 m. fjalls, Mount Everest
1999 Selma Björnsdóttir varð í öðru sæti í Eurovision söngvakeppninni með lag sitt All Out of Luck - lagið hlaut 146 stig, 17 stigum færra en framlag Svía. Er besti árangur Íslands í keppninni til þessa

Snjallyrðið
There is nothing on this earth more to be prized than true friendship.
Thomas Aquinas heimspekingur (1225-1274)