Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka og mótmælt þar væntanlegri virkjun og álveri á Austurlandi. Framan af voru þessi mótmæli mjög friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Fólk kom vissulega á framfæri skoðunum sínum og það með hófsömum hætti að mestu leyti. Það er eðli þjóðmálaumræðu að uppi séu ólíkar skoðanir og ólík sýn meðal fólks á hitamál samtímans. Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð eru eins og allir vita eitt mesta hitamál þjóðmálaumræðunnar á seinustu árum. En það er alveg hægt að fullyrða að vinnubrögð atvinnumótmælendanna seinustu daga að Kárahnjúkum hefur farið algjörlega yfir strikið. Mótmælendur hafa að undanförnu hlekkjað sig við vinnuvélar, málað ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og ennfremur verið með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu. Lögreglan greip til sinna ráða í nótt og skakkaði leikinn með nauðsynlegum hætti. Það er alveg ljóst að það sem gengið hefur á þarna að undanförnu af hálfu mótmælendanna er með öllu óásættanlegt.
Nú hefur svo leyfið fyrir tjaldbúðunum verið afturkallað eftir læti seinustu daga. Prestsetrarsjóður veitti leyfið, enda eru tjaldbúðirnar í landi prestsetursins Valþjófsstaðar. Á morgun mun lögregla grípa til sinna ráða til að koma fólkinu burt og vísa því frá. Hafa mótmælendur sagst halda mótmælum áfram með einum hætti eða öðrum, ef marka má vefrit þeirra, savingiceland.org. Verður merkilegt að fylgjast með atburðum þarna á næstunni. Eru þessi mótmæli svo sannarlega ekki neinum til sóma. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að allir séu sammála um virkjun og álver fyrir austan, en það á að vera hægt að búast við að mótmæli séu bæði málefnaleg og friðsamleg. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita þar. Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á staðnum verði fyrir skemmdum og ráðist sé að þeim sem þarna vinna. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna á staðnum og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið.
Eins og flestir vita er framundan verslunarmannahelgin, ein af stærstu ferðahelgum ársins. Eins og oft áður er haldin hér á Akureyri fjölskylduhátíð þar sem margt er skemmtilegt á dagskrá. Búast má við miklum mannfjölda í bænum og skemmtilegu andrúmslofti eins og fyrri ár. Í fyrra var fjölmennasta útihátíð ársins hér í bænum og var virkilega gaman að fara um bæinn. Þá streymdi fólk í bæinn og voru 15-16.000 gestir hér. Mikið blíðviðri var alla helgina og hátíðin að mestu leyti til fyrirmyndar. Mestan skugga á hátíðina settu vandræðin með tjaldsvæðið hér í Þórunnarstrætinu. Á því hefur nú verið tekið með nýjum reglum um svæðið, þar sem nú mega aðeins vera fjölskyldufólk með fellihýsi, tjaldvagna og húsbíla. Var gott að tekið var á þeim málum og vonandi mun þessi ágalli, annars góðrar útihátíðar, heyra sögunni til. Enginn vafi er að Ein með öllu er mikil lyftistöng fyrir verslunar- og þjónustuaðila í bænum og mun hátíðin styrkja bæinn og stöðu hans til muna, eins og jafnan áður. Meðal skemmtiatriða verða Sálin, Papar, Stuðmenn, Nýdönsk, Hildur Vala, Nylon og Davíð Smári. Svo er auðvitað rúsínan í pylsuendanum brekkusöngurinn á íþróttavellinum að kvöldi sunnudagsins. Framundan er því hin besta helgi.
Sir Edward Heath fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, var jarðsunginn frá dómkirkjunni í Salisbury í gær. Rúmlega 1600 manns voru viðstödd útförina, þar á meðal allir eftirmenn Heath á leiðtogastóli flokksins og meðal þeirra því t.d. fyrrum forsætisráðherrar landsins, þau Margaret Thatcher barónessa, og Sir John Major. Bæði hafa þau minnst Heath með glæsilegum hætti eftir andlát hans, hinn 17. júlí sl. Thatcher felldi Heath af leiðtogastóli flokksins árið 1975 og milli þeirra ríkti kalt stríð um stefnuáherslur innan flokksins eftir það, en ennfremur viss gagnkvæm persónuleg virðing. Ennfremur voru viðstaddir útförina fjöldi breskra stjórnmálamanna sem bæði höfðu unnið með Heath á löngum ferli innan flokksins og eins þeir sem voru pólitískir andstæðingar hans. Í pistli mínum hinn 18. júlí sl. fjallaði ég um Heath, feril hans og persónuna á bakvið pólitíkusinn. Fór ég jafnframt yfir álit mitt á honum sem stjórnmálamanni. Heath hafði mikil áhrif í breskum stjórnmálum - hann var kjörinn á breska þingið í þingkosningunum 1951 og sat á þingi í hálfa öld, allt til þingkosninganna í júní 2001. Heath var leiðtogi breska Íhaldsflokksins í áratug, 1965-1975, og var forsætisráðherra Bretlands í fjögur ár, 1970-1974. Við leiðarlok er Heath, að mínu mati, minnst sem öflugs forystumanns og litríks talsmanns hægristefnu.
Um síðustu helgi fór ég austur í bústað fjölskyldunnar í Núpakot í Aðaldal og þar var gott að slappa af í góðra vina hópi. Það var grillað, skemmt sér og síðast en ekki síst hlegið dátt saman - það er ekkert betra en gleði og tær ró á góðum stað. Frábært var að geta átt helgi án tölvu, sjónvarps og að mestu var slökkt á símanum - algjör friður eins og best gerist. Hið besta var auðvitað að nær allan tímann var mikill hiti og tær sumarblíða. Var gaman að fara í smáferðalag á laugardeginum. Haldið var um Tjörnesið austur fyrir að Ásbyrgi. Alltaf er gaman að koma í Ásbyrgi. Þar er yndisleg náttúrufegurð sem gaman er að sýna gestum og ekki síður að njóta sjálfur. Þar er falleg kyrrð og sannkölluð ró. Það jafnast fátt á við það að vera þar. Dvaldist ég í tvö sumur í sumarbúðunum á Ástjörn. Svæðið þekki ég því vel - þar var gott að vera og gaman að njóta náttúrufegurðar og geta dvalið í friði og ró, en nóg er af því á svæðinu. Þetta er sannkölluð náttúruperla. Á heimleiðinni litum við í minjasafnið að Mánárbakka en safnið hefur fyrir löngu vakið athygli og hvet ég alla til að skoða safnið hans Aðalgeirs á Mánárbakka. Alltaf er svo gaman að spjalla við Aðalgeir. En já þetta var góð helgi fyrir austan - þar sem ró og skemmtun var aðalsmerki.
Notalegt og gott sumarveður hefur verið hér á Akureyri seinustu dagana. Það er notalegt þessa dagana að hafa það rólegt, fara í sund, grilla, hjóla um og labba í Kjarnaskógi. Það er alltaf gaman af fallegu sumri og góðu veðri. Þessa dagana er ég að lesa ljóðabækur meistara Davíðs frá Fagraskógi. Hann hefur alltaf heillað mig með ljóðasnilld sinni. Hann talar beint til hjartans míns oft og hefur alla tíð verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Það er alltaf styrkjandi að lesa ljóð Davíðs, þar fær maður gleði og líka kraft til að horfast í augu við lífsins gátur og flækjur hvunndagsins. Í ljóðabókinni Að norðan, sem kom út árið 1936, orti hann um bæinn við fjörðinn fagra. Er við hæfi að enda í dag á lokaerindi þessa fallega kvæðis.
Því gleðin angar frá iðjagrænum hlíðum,
ástin streymir þaðan, með sumarblænum,
tignin ljómar af fjallatindum fríðum,
fjörðurinn safnar gjöfum handa bænum,
loftið er milt og mjöllin hvergi hreinni,
máninn fegri, né stjörnuskinið bjartara.
Hér gætu menn numið af náttúrunni einni
að njóta lífsins - fagna af öllu hjarta.
Saga dagsins
1945 Verkamannaflokkurinn vinnur öllum að óvörum þingkosningarnar í Bretlandi - stríðshetjan Sir Winston Churchill missir forsætisráðherrastólinn til Clement Attlee leiðtoga stjórnarandstöðunnar, mjög óvænt - Churchill leiddi stjórnarandstöðuna eftir tapið og varð forsætisráðherra 6 árum síðar.
1952 Eva Peron forsetafrú Argentínu, deyr úr krabbameini, 33 ára að aldri - Eva naut mjög mikilla vinsælda í Argentínu og var elskuð af landmönnum og dauði hennar var þjóðinni nokkuð reiðarslag.
1956 Stjórnvöld í Egyptalandi ríkisvæða Súez-skurðinn - þeirri ákvörðun var mótmælt um allan heim.
1963 Þúsundir manna farast eða slasast lífshættulega í jarðskjálfta í bænum Skopje í Júgóslavíu.
2000 George W. Bush velur Dick Cheney sem varaforsetaefni sitt - unnu kosningarnar 2000 og 2004.
Snjallyrðið
Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Íslandsminni)
<< Heim