Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um hryðjuverkin í London. Fer ég yfir stöðu mála og tjái skoðanir mínar á hryðjuverkaógninni og þeim þáttum sem ég tel standa eftir er farið er yfir það sem gerst hefur og sagt hefur verið um baráttuna gegn hryðjuverkum. Hryðjuverkaárásin í London er auðvitað ekki einvörðungu árás á breskt samfélag, breska þegna og tilveru þeirra. Um er að ræða vægðarlausa aðför að öllum sem tilheyra vestrænu samfélagi. Staðan er einfaldlega þannig að enginn getur verið óhultur fyrir hryðjuverkasamtökum á borð við al-Qaeda. Þau ráðast með grimmdarlegum hætti að vestrænum gildum og tilverunni sem við teljum skipta mestu máli, og einkennist af frelsi og lýðræði. Fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel leiðtogar heimsins sameinuðust í viðbrögðum sínum, t.d. á leiðtogafundinum í Gleneagles í vikunni. Þar stóðu þeir allir sameinaðir er Blair ávarpaði heimsbyggðina og las yfirlýsingu í nafni þeirra. Samstaða gegn hryðjuverkum kristallaðist þar með áberandi hætti. Sú samstaða skiptir gríðarlega miklu máli, er horft er fram á veginn í kjölfar þessarar mannskæðu hryðjuverkaárásar í Lundúnum.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í borgarpólitíkinni. Í gær birtist skoðanakönnun Gallups á fylgi stjórnmálaaflanna þar. Merkilegustu tíðindi þeirrar könnunar eru óneitanlega þau að Sjálfstæðisflokkurinn mælist þar með meirihluta. D-listinn mælist með 50,2%, R-listinn 49% og F-listinn mælist með tæpt prósent, 0,8%. Þetta eru merkilegar tölur og nýtt pólitískt landslag sem opnar nýja umræðu um stöðu borgarmálanna, nú þegar innan við ár er til borgarstjórnarkosninga. Sjálfstæðismenn í borginni geta vel við unað með stöðu mála. Þeir eru að uppskera vel þessa dagana. Skipulagstillögur D-listans voru metnaðarfullar og djarfar. Þær vöktu verðskuldaða athygli. Tillögurnar opnuðu nýja sýn í skipulagsmálum og nýja og metnaðarfulla umræðu um málaflokkinn. Það er alveg ljóst að skipulagsmálin verða kosningamálið í borginni í næstu kosningum. Það er alveg ljóst að sóknarfæri D-listans í komandi átökum í kosningabaráttunni eru til staðar og sigur ætti að vera innan seilingar ef rétt er haldið á spilum.

- í þriðja lagi fjalla ég um atvinnumótmælendurna fyrir austan, að Kárahnjúkum, og kostuleg vinnubrögð þeirra við að tjá skoðanir sínar. Nú hafa þessir atvinnumótmælendur tjaldað um hásumarið fyrir austan við Kárahnjúka til að reyna að vekja á sér athygli. Það er svosem varla stórtíðindi, að mínu mati, að fólk tjaldi svona um hásumarið á fögrum reit fyrir austan og kynni sér stöðu mála við Kárahnjúka. Ég ætla svona rétt að vona að þetta fólk hafi gaman af að kynna sér mikilvægar framkvæmdir við Kárahnjúka og nauðsynlega uppbyggingu til heilla austfirskri byggð og atvinnulífi í Fjarðabyggð. Verra er að heyra af mótmælum þeirra að Végarði í Fljótsdal þar sem þau eyðilögðu kynningabæklinga Landsvirkjunar og vöktu á sér athygli með því auðvitað. Tjái ég skoðanir mínar um þessi kostulegu mótmæli austur á fjörðum.


Pólitíska ræman
Thirteen Days

Thirteen Days er pólitísk úrvalsmynd eins og þær gerast bestar, byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um þrettán sögulega daga í októbermánuði 1962 er alheimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 náðu Bandaríkín og Sovétríkin ekki samkomulagi sín á milli um það hvernig ætti að ganga frá málefnum heimsins sem var í sárum eftir hið langa og mannskæða stríð. Fór svo að það skall á heiftúðug milliríkjadeila milli þessara stórvelda, hið svokallaða kalda stríð sem helgaðist af því að ríkin gripu ekki til vopna gegn hvoru öðru. Þessi saga gerist eins og fyrr segir í október 1962 en þá var kalda stríðið í hámarki. Bæði Bandaríkin og Sovétríkin höfðu þá vígbúist af kappi og reyndu ákaft að fylgjast með öllu því sem hinn aðilinn gerði. Njósnir urðu sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi ríkjanna og þegar bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu (sem var hertekin af kommúnistanum Fidel Castro árið 1959) ætlar allt um koll að keyra því þeim er beint að Bandaríkjunum, vöggu kapitalismans í heiminum.

John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, er á báðum áttum um hvað eigi að gera í málinu en ákvörðunin um næstu aðgerðir er hans, enda er forseti Bandaríkjanna einn valdamesti maður heims. Hershöfðingarnir vilja að forsetinn heimili að ráðist verði tafarlaust inn í Kúbu og eyjan verði hertekin með valdi, en það gæti þýtt hörð viðbrögð Sovétmanna og endað í heljarinnar kjarnorkustyrjöld stórveldanna. Ef Kennedy forseti aðhefst ekkert í málinu er hins vegar sá möguleiki vel fyrir hendi að stór hluti þjóðarinnar yrði þurrkaður út á einu augnabliki. Líf milljóna jarðarbúa eru þannig sett á herðar Kennedys Bandaríkjaforseta og fylgjumst við gaumgæfilega með 13 magnþrungnum dögum í lífi John Fitzgerald Kennedy forseta og ráðgjafa hans, sem reyna að komast að þeirri niðurstöðu sem bjargar mannkyninu frá eilífri glötun. Hörkuvel leikin og vönduð úrvalsmynd leikstjórans Roger Donaldson sem segir meistaralega frá þessum magnþrungnu dögum í mannkynssögunni sem voru áhrifamiklir bæði fyrir forsetatíð Kennedys og ekki síst heimsbyggðina alla.

Hér fara á kostum óskarsverðlaunaleikstjórinn Kevin Costner, Steven Culp, Dylan Baker, Henry Strazier og Bruce Greenwood sem fer á kostum í hlutverki John F. Kennedy, 35 forseta Bandaríkjanna. Semagt; pólitískt meistaraverk sem allir sagnfræðiáhugamenn jafnt sem spennumyndaunnendur mega alls ekki missa af. Ómissandi úrvalsmynd sem segir af 13 ógleymanlegum dögum!

Saga dagsins
1970 Dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eiginkona hans, Sigríður Björnsdóttir og dóttursonur, Benedikt Vilmundarson, fórust í eldsvoða á Þingvöllum. Bjarni fæddist 30. apríl 1908. Á löngum stjórnmálaferli var hann borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og iðnaðarráðherra. Bjarni gegndi embætti forsætisráðherra frá árinu 1963. Bjarni var formaður Sjálfstæðisflokksins í 9 ár, frá 1961.
1970 Ríkisstjórn undir forsæti Jóhanns Hafstein tók við völdum við andlát Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra - stjórn Jóhanns sat í rúmt ár, allt til valdatöku vinstristjórnarinnar, 14. júlí 1971.
1980 Viðskipti með kort frá Eurocard hófust formlega á Íslandi - fyrstu Visa kortin komu árið eftir.
1985 Rainbow Warrior, skip Greenpeace-samtakanna, sprengt upp í Auckland-höfn í Nýja Sjálandi.
2004 Thomas Klestil fyrrv. forseti Austurríkis, jarðsunginn í Vín - hann sat á forsetastóli 1992-2004.

Snjallyrðið
Ein í huga mér
lifir þín mynd
svo heil og sönn.
Sem aðeins lítil stund
væri mér liðin hjá
síðan þú varst
hér enn í faðmi mér.

Ein í hjarta mér
lifa þín orð,
þitt vinarþel
sem aldrei sveik þó ég
gæti ei skilið allt
sem þú gafst
mér þá af hjarta þér.

Þó ár og fjarlægð skilji okkur að
og engin geti komið í þinn stað
mun samt minning þín lifa
á meðan lifi ég.
Og ég þakka vil
þá dýru gjöf
að lífið leit til mín
og leiddi mig til þín.
Friðrik Erlingsson rithöfundur (Minning þín)