Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli að þessu sinni fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um heimilisrifrildið innan R-listans þar sem innri valdaerjur kristallast vel þessa dagana. Tók umræðan um stöðuna innan þessa meirihlutaafls í borginni nýja stefnu í viðræðunefndinni í vikunni þar sem mál voru settluð með merkilegum hætti og reynt að breiða yfir heimiliserjurnar. Eftir að viðræðunefndin var sett af tímabundið og umræðan færð að nýju í bakherbergin, sem eru að verða aðalsvistarverur R-listans, áttu margir von á að svefn færðist yfir málið fram yfir verslunarmannahelgi. Ekkert myndi gerast - ró og friður tækju við í bakherbergjunum við að plottast um völdin, stólana og áhrifin sem fylgja völdunum sem flokkarnir hafa haft í rúman áratug. Það sem gerst hefði jafnan myndi gerast enn eina ferðina, plottið tæki völdin og menn létu sig hverfa úr sviðsljósinu og allir leyfðu því að hafa sinn gang og óánægjuraddirnar myndu þagna fljótt. Sú varð, merkilegt nokk, alls ekki raunin. Undir lok vikunnar tók Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður og fyrrum formaður flokksins, að hefja skrif á bloggvef sínum með afgerandi hætti um stöðu borgarmálanna og viðræðnanna um áframhaldandi R-listasamstarf. Talar hann þar af krafti um stöðu mála. Fer ég yfir stöðu mála vegna merkilegrar atburðarásar seinustu vikuna.

- í öðru lagi fjalla ég um Sir Edward Heath, sem lést um helgina, 89 ára að aldri. Fer ég yfir stjórnmálaferil hans og það sem ég tel skipta máli er fjallað er um þann litríka karakter sem Heath bjó yfir. Heath var einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Breta á 20. öld og verður minnst sem slíks, en hann var forsætisráðherra Bretlands í upphafi áttunda áratugarins, leiddi Íhaldsflokkinn í áratug og sat á breska þinginu samfellt í hálfa öld.


Sir Edward Heath
1916-2005


Sir Edward Heath (1916-2005)

Sir Edward Heath fyrrum forsætisráðherra Bretlands, er látinn, 89 ára að aldri. Óhætt er að fullyrða að með Heath er fallinn í valinn einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands á 20. öld. Hann var umdeildur og ennfremur heillandi að merkilegu leyti. Tekist á um kosti hans og galla. Hann sannaði hinsvegar vel á löngum stjórnmálaferli hvers hann var megnugur og var kraftmikill maður sem barðist með kjafti og kló fyrir málefnum sínum og hugsjónum flokksins sem hann leiddi. Hann var sannur í forystu og verkum og ennfremur öflugur í að standa vörð um það sem hann trúði á í pólitískum veruleika Bretlands og þau gildi sem hann taldi hin einu réttu. Ted Heath var risi í breskum stjórnmálum, eins og Margaret Thatcher benti réttilega á í yfirlýsingu við andlát hans. Hann var kjörinn á breska þingið í þingkosningunum 1951 og sat á þingi í hálfa öld, allt til þingkosninganna í júní 2001. Var Heath alla tíð áberandi í þingsalnum í Westminster. Heath lét finna fyrir sér og var óhræddur við að tjá skoðanir sínar, sama á hverju gekk innan flokks sem og í stjórnmálatilverunni í Bretlandi. Hann kom öllum á óvart með því að sigra með nokkuð afgerandi hætti í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins árið 1965 og leiddi hann flokkinn í gegnum súrt og sætt í áratug.

Sir Edward Heath (1916-2005)

Heath varð fyrsti maðurinn af almúgaættum til að leiða Íhaldsflokkinn. Fram að því höfðu það verið hefðarmenn af öflugum ættum sem höfðu verið valdir til forystu þar. Kjör hans markaði því þáttaskil í sögu flokksins. Íhaldsflokknum mistókst að komast til valda undir forystu Heath í kosningunum 1966. Árið 1970 var aftur komið að kosningum. Þá sigraði Heath og Íhaldsflokkurinn, Harold Wilson þáv. forsætisráðherra og Verkamannaflokkinn, með naumum hætti. Heath lofaði því í kosningabaráttunni að standa fyrir "hljóðlátri byltingu" til að binda enda á langvarandi samdrátt í bresku efnahagslífi. Sigurinn var það naumur að Wilson neitaði að játa ósigur sinn fyrr en liðið var fram á annan sólarhring eftir kosninguna. Hann baðst lausnar og Heath fékk umboð drottningar til að mynda stjórn. Heath sat á forsætisráðherrastóli í fjögur ár, allt til ársins 1974. Sá tími markaðist af miklum verkefnum og fjölda úrlausnarefna. Þrátt fyrir loforðin mistókst Heath að efna loforðið vegna harðvítugra vinnudeilna og átaka við verkalýðshreyfinguna. Hann boðaði til þingkosninga og spurði kjósendur hverjir ættu að stjórna landinu, hann eða vinstriöflin. Hann tapaði kosningunum og Wilson komst til valda að nýju.

Segja má að Heath verði helst minnst fyrir það á stormasömum valdaferli að hafa samið um aðild Bretlands að Efnahagsbandalagi Evrópu, EBE, árið 1972 og hafa leitt landið þar inn ári síðar með formlegum hætti. Heath tókst á forsætisráðherraferlinum að breyta ímynd sinni með nokkuð áberandi hætti og verða alþýðlegur leiðtogi, þó með íhaldssömum hætti og hélt í grunngildi hægristefnu sem leiðarljós sitt við stjórnvölinn. Þrátt fyrir að honum mistækist að halda völdum í þingkosningunum 1974 og tapaði aukakosningum síðar sama ár var hann alla tíð virtur fyrir verk sín á valdastóli og stjórnmálalega forystu. En þrátt fyrir að hafa verið risi innan síns flokks á tíu ára leiðtogaferli og virtur fyrir forystu sína var gerð atlaga að honum árið 1975 og Margaret Thatcher, sem var menntamálaráðherra í ráðuneyti Heath, bauð sig fram í leiðtogakjöri. Þáttaskil höfðu orðið og Thatcher var táknmynd nýrra tíma í breskum stjórnmálum og kom með ferska sýn í hugsjónaheim hægrimanna í Evrópu. Henni tókst að sigra Heath í fyrri umferð leiðtogakjörsins, hlaut 130 atkvæði gegn 119 atkvæðum hans. Það var ekki nóg til að tryggja sigur Thatcher og náði hún kjöri í seinni umferðinni eftir að Heath hafði dregið sig formlega í hlé frá leiðtogaembættinu.

Sir Edward Heath og Margaret Thatcher

Þrátt fyrir að Edward Heath og Margaret Thatcher sýndu hvoru öðru kurteisi í kjölfar kjörsins var öllum ljóst að hann fyrirgaf henni aldrei það að hafa farið fram gegn sér og komið sér frá völdum innan flokksins. Kuldinn milli þeirra varði alla tíð síðan. Lágstemmd kurteisi var þeirra á milli við opinberar athafnir en bakvið tjöldin innan þingflokks Íhaldsflokksins geisaði kalt stríð þeirra á milli um stefnu og áherslur. Hann neitaði að taka sæti í skuggaráðuneyti Thatchers eftir tapið í leiðtogakjörinu og tók sæti á aftari bekkjum þingsalarins og talaði með sínum hætti um málin og tók upp eigin stíl við framsetningu skoðana sinna. Hann afþakkaði ennfremur ráðherrasæti í stjórn frú Thatchers er Íhaldsflokknum tókst loks að komast í ríkisstjórn í maí 1979, eftir fimm ára stjórnarandstöðu. Thatcher ríkti í ellefu og hálft ár og leiddi flokkinn samfellt í fimmtán ár. Hún varð einn sigursælasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu Bretlands. Engu að síður var skuggi Heath alltaf að baki henni og hann hikaði ekki við að reyna með lítt duldum hætti að finna að forystu hennar og stefnu. Hann átti erfitt með að leyna gleði sinni er Thatcher var steypt af stóli í innri valdabaráttu í Íhaldsflokknum árið 1990.

Fræg er sagan af því er fréttamaður BBC spurði Heath að því í desember 1990 hvort hann hafi brugðist við falli Thatcher með því að kalla "gleði - gleði!". Hann hikaði örlítið við spurningunni en svaraði svo með háðsku glotti. "Nei, ég sagði það þrisvar". Heath tók aldrei sæti í lávarðadeild breska þingsins og var áberandi í forystu breskra stjórnmála með sínum hætti allt fram á nýja öld, eftirmönnum sínum á leiðtogastóli flokksins til lítillar gleði. Hann varð aldursforseti breska þingsins í kjölfar kosninganna 1992, en þá lét Margaret Thatcher af þingmennsku. Heilsu hans hrakaði ört í kjölfar þess að hann vék af þingi fyrir fjórum árum og hann lést að kvöldi sunnudags að heimili sínu í Salisbury. Þingmenn og forystumenn bresku flokkanna í gegnum seinustu áratugina minntust Heath við andlát hans. Sérstaklega hjartnæm var kveðja Margaret Thatcher til forvera síns á leiðtogastóli og þótti mér merkilegt að lesa yfirlýsingu hennar vegna andláts Heaths. Ennfremur var hans minnst í breska þinginu í dag þar sem Tony Blair og Michael Howard fluttu glæsilegar ræður þar sem þeir minntust pólitískrar forystu Heaths.

Sir Edward Heath (1916-2005)

Við andlát Ted Heath minnast evrópskir hægrimenn öflugs forystumanns sem setti sterkan svip á alþjóðastjórnmál og pólitíska litrófið í Bretlandi. Persónulega þótti mér alltaf mikið til hans koma sem stjórnmálamanns. Hann var þekktur fyrir að tala með áberandi hætti þegar hann hafði skoðanir og ekki síður að vera sannur í baráttu fyrir þeim verkefnum sem hann barðist fyrir. Þannig eiga stjórnmálamenn auðvitað að vera. Heath var þekktur fyrir að vera blíður og hvass í senn, í merkilegum hlutföllum. Persónulega þótti mér merkilegt að kynna mér pólitíska forystu hans þegar ég var yngri. Skrifaði ég ritgerð um hann í framhaldsskóla á sínum tíma og er þessi frásögn að nokkru byggð á henni. Þó að Thatcher sé að mínu mati merkasti leiðtogi breskra íhaldsmanna frá dögum Churchills, er Heath ekki fjarri að baki henni. Bæði höfðu þau áhrif, nútímavæddu breska Íhaldsflokkinn og færðu hann rétta leið til valda og áhrifa. Þá sýn vantar í dag og þegar Heath er kvaddur vakna spurningar um hvert flokkur þeirra stefni nú. En við leiðarlok er Heath, að mínu mati, minnst sem öflugs forystumanns og litríks talsmanns hægristefnu.

Saga dagsins
1918 Nelson Mandela fæðist í bænum Qunu í S-Afríku - hann sat á forsetastóli í S-Afríku 1994-1999.
1918 Samningar um frumvarp til sambandslaga undirritaðir. Frumvarpið var svo að lokum samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þremur mánuðum síðar. Lögin tóku svo formlega gildi hinn 1. desember 1918.
1947 Breytingar samþykktar á hinni formlegu valdaröð Bandaríkjanna, á eftir forseta og varaforseta koma forseti fulltrúadeildarinnar, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni og utanríkisráðherra, sem fram að því hafði verið þriðji í valdaröðinni. Misskilningur á valdaröðinni varð heimsfrægur er Reagan forseti var skotinn í mars 1981 og Alexander Haig sem var utanríkisráðherra, tók sér þá forsetavald meðan George Bush varaforseti, var á leiðinni frá Texas til Washington. Haig var af blaðamönnum bent á að Tip O'Neill forseti fulltrúadeildarinnar hefði forsetavaldið. Reagan setti Haig af árið eftir.
1969 Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, keyrir bifreið sinni framaf brú og lendir í tjörn á Chappaquiddick eyju í Massachusetts-fylki. Kennedy slapp lifandi, en ung kona, Mary Jo Kopechne drukknaði. Kennedy tilkynnti ekki um slysið fyrr en 10 tímum síðar, líklegast þótti að Kennedy hefði verið drukkinn og ekki þorað að tilkynna slysið vegna skaðans sem það ylli ferli hans. Síðar varð ljóst að hann hafði verið próflaus í fimm mánuði fyrir slysið afdrifaríka. Ferill Kennedys skaðaðist nokkuð og náði hann ekki árangri í forsetaframboði 1980. Kennedy hefur átt sæti í öldungadeildinni frá 1962.
2003 Dr. David Kelly vopnasérfræðingur breska varnarmálaráðuneytisins, finnst látinn í skóglendi skammt frá heimili sínu í Oxfordshire. Í kjölfar dauða hans kom í ljós að hann var einn af helstu heimildarmönnum BBC fyrir fréttum um að breska ríkisstjórnin hafi ýkt einum of ógnina af íröskum stjórnvöldum og vopnaeign þeirra, en því hafði áður verið neitað. Litlu munaði að dauði dr. Kelly, eftirmálinn og rannsókn á vinnubrögðum ríkisstjórnar Bretlands myndi fella Tony Blair af valdastóli.

Snjallyrðið
Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn
og dregur andann djúpt og rótt
um draumabláa júlínótt.

Við ystu hafsbrún sefur sól
og sofið er í hverjum hól
í sefi blunda svanabörn
og silungur í læk og tjörn.

Á túni sefur bóndabær
og bjarma á þil og glugga slær.
Við móðurbrjóstin börnin fá
þá bestu gjöf sem lífið á.

Nú dreymir allt um dýrð og frið
við dagsins þögla sálarhlið,
og allt er kyrrt um fjöll og fjörð
og friður drottins yfir jörð.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú sefur jörðin)