Óhætt er að fullyrða að Ríkisútvarpið sé á krossgötum. Á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun þessa rótgróna ríkisfjölmiðils. Um þessar mundir eru einnig að eiga sér stað breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir eftir rúman mánuð, þann 1. september nk. Þann dag tekur hann til starfa í utanríkisþjónustunni og mun í vetur verða sendiherra Íslands í Kanada. Deilt var um störf Markúsar í vetur samhliða fréttastjóraráðningu hjá fréttastofu útvarps og hann hefur nú ákveðið að skipta um vettvang. Markús Örn starfaði lengi hjá RÚV, var lengi fréttamaður hjá Sjónvarpinu og varð útvarpsstjóri, eftir störf að stjórnmálum, árið 1985. Hann var ráðinn borgarstjóri í Reykjavík árið 1991 og hætti sem útvarpsstjóri. Hann var borgarstjóri í þrjú ár en hóf aftur störf hjá RÚV er hann var ráðinn framkvæmdastjóri útvarps árið 1996. Markús Örn var að nýju ráðinn sem útvarpsstjóri árið 1997. Nú þegar að Markús Örn er á útleið, endanlega að því er virðist óneitanlega, úr starfi útvarpsstjóra og lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir langt starf blasir við að breytingar séu framundan hjá Ríkisútvarpinu og þar þurfi að stokka verulega upp.
Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um Ríkisútvarpið og það sem framundan er þar. Framundan er þar ráðning á nýjum útvarpsstjóra, eins og fyrr segir. Í gær rann út umsóknarfrestur um embættið. Er fresturinn rann út höfðu 22 lagt inn umsókn, þ.á.m. reynt fjölmiðlafólk og áhugafólk um ríkisfjölmiðilinn af ýmsu tagi ennfremur. Margt hefur breyst í fjölmiðlaumhverfinu á undanförnum árum og við Ríkisútvarpinu blasir allt annað landslag á fjölmiðlamarkaði en fyrir einungis átta árum er Markús Örn Antonsson var öðru sinni ráðinn til starfa á útvarpsstjórastól. Því vakti það óneitanlega athygli að þegar þetta mikla starf, stjórnendastarf þessarar öflugu fjölmiðlastofnunar ríkisins, var auglýst voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur eða útlistað nánar hverskonar aðila væri auglýst eftir eða hvaða sýn hann hefði til verkefnisins. Í grunninn tel ég mikilvægt að á þessum stóli sitji aðili sem hafi starfað að fjölmiðlum, þekki starfsumhverfið því mjög vel og sé sviðsvanur á þessum vettvangi. Meðal umsækjenda eru margir slíkir aðilar. Við blasir að á 75 ára afmæli sínu að Ríkisútvarpið sé í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasi við stofnuninni. Óhjákvæmilegt er að breyta þurfi til í innra kerfi Ríkisútvarpsins.
Í pistlinum rek ég væntanlegar breytingar á RÚV samhliða frumvarpi til breytinga á útvarpslögum sem rætt verður á þingi í vetur og minni á skoðanir mínar í þeim efnum. Eins og fyrr segir blasir nýtt fjölmiðlaumhverfi við nýjum útvarpsstjóra. Er mikilvægt að við starfinu taki fjölmiðlamanneskja sem þekkir sviðið mjög vel og þau verkefni sem við blasa. Vona ég að menntamálaráðherra ráði til starfans þann aðila sem er líklegur til að stýra þessu fleyi rétta átt, í markvissa átt til uppstokkunar og breytinga og leiði vinnuferlið þar með öðrum hætti og taki til hendinni. Ekki veitir af því ef RÚV á að standa undir nafni sem fjölmiðill allra landsmanna, en ekki safnhaugur erlends afþreyingarefnis t.d. í sjónvarpi. Menntamálaráðherra heldur á þessu ferli og það er Þorgerðar Katrínar að velja til starfans þann sem hún vill að vinni á sínum forsendum og leiði RÚV með þeim hætti sem frumvarp hennar gerir ráð fyrir að RÚV verði á komandi árum. Verður fróðlegt að sjá hver sá aðili muni verða.
Eins og kom fram hér á vefnum í vikunni hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilnefnt John G. Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna. Í umfjöllun minni á miðvikudag fór ég yfir stöðu mála og spáði því að deilur myndu verða um skipan hans og harðvítug flokkspólitísk rimma (les: drullukast í leðjupolli). Ólíklegra er nú en áður að svo verði. Roberts hefur nefnilega á tveim dögum tekist að mestu að heilla öldungadeildarþingmenn beggja stóru flokkanna. Meira að segja hörðustu andstæðingar hægriíhaldsgildanna í senatinu eru orðnir hikandi um að Roberts fái mótstöðu í takt við það sem spáð var. Roberts fór í gær og hitti leiðtoga flokkanna í öldungadeildinni og í þingnefndinni sem hann mun koma fyrir í staðfestingarferlinu. Óhætt er að segja að þingmennirnir hafi heillast af dómaraefninu. Enginn þorir að draga feril hans, hið minnsta jafnvel, í efa og ljúka allir lofsorði á störf hans. Búast má við að hann fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. En hinsvegar minnka sífellt líkurnar á hvassyrtu staðfestingarferli. Eru flestir spekingarnir vestanhafs farnir að spá því að Roberts muni fljúga með hraði inn í réttinn og mæti lítilli mótspyrnu er á hólminn komi.
Ég á marga geisladiska sem ég set á þegar ég vil hafa það rólegt og spá í hlutunum í mjúkri ró. Ég er einnig til í það að setja harðasta metalrokk á og get svifið með hraði beint í háklassík gömlu snillinganna. Ein er þó sú geislaplata sem ég set á þegar ég skrifa og vil íhuga málin mjög vel. Það er diskur sem fær mig til að hugsa hlutina mjög vel og slakar á í kringum mig. Ég er að tala um Sálma, undurfagra geislaplötu Ellenar Kristjánsdóttur, sem kom út fyrir seinustu jól. Hef ég alla tíð dáðst mjög að söng Ellenar, sem býr yfir lungamjúkri og fimri söngrödd sem líður áfram eins og lækurinn úti í sveit, tær og svo innilega fagur. Ég held að ég geti sagt með sanni að fáir diskar hafi náð að heilla mig meira, eða rói mig meira niður í erli hversdagsins. Það er viss upplifun að hlusta á lögin tólf á disknum og kemst maður í róandi andrúmsloft sem oft er svo sannarlega þörf á. Þarna eru fjöldamörg góð lög, öll eru þau stórfengleg. Þarna eru gömlu góðu sálmalögin sem hafa fylgt manni í gegnum gleði og sorg lífsins: Nú legg ég augun aftur, Heyr himnasmiður, Ó Jesú bróðir besti, Ástarfaðir himinhæða, Hærra minn guð til þín, Ó faðir gjör mig lítið ljós og fleiri. Þetta er svo sannarlega einstök perla, sem allir verða að eignast.
Enginn vafi leikur á því að Raggi Bjarna sé einn vinsælasti söngvari þjóðarinnar. Hann er sígildasti söngvarinn í dag, maður allra aldurstímabila og fangar hug og hjarta þjóðarinnar þegar að hann syngur lög sín. Hann sýndi og sannaði kraft sinn með því að gefa út plötu fyrir seinustu jól og slá algjörlega í gegn, enn á ný. Hann hefur, ótrúlegt en satt, eignast nýjan og ferskan hlustendahóp, unga fólkið, og er klassasöngvarinn (að mínu mati). Það var merkilegt að heyra af því að plötufyrirtækin hefðu hafnað, eða haft efasemdir, um að gefa út plötuna með honum fyrir jólin seinustu. Hann tók áhættuna, gaf út plötuna sjálfur og hún varð ein mest selda plata ársins 2004. Það efast enginn lengur um vinsældir Ragga Bjarna allavega. Nú hefur hann gefið út aðra plötu, sem er full af smellum og flottum takti að hætti Ragga. Keypti ég mér hana í vikunni og mæli eindregið með henni. Þetta er klassaplata með besta núlifandi söngvara þjóðarinnar. Alla tíð hef ég metið verk hans, enda hefur maður alist upp með klassasmellum hans seinustu áratugina og þeir verða sífellt betri með aldrinum, eins og sá sem syngur. Hvet alla til að skella sér í taktinn með Ragga Bjarna og fá sér nýju plötuna.
Eins og vel hefur komið fram á ég góð tengsl austur á firði. Um daginn fékk ég góða sendingu að austan - vænan kassa með bitaharðfiski frá Sporði. Fátt er betra að borða og ekkert er meiri freisting sem sannkallað nammi en bitafiskurinn að austan. Frændi minn, Atli Börkur Egilsson, er eigandi þessa rótgróna fyrirtækis. Er harðfiskurinn frá Sporði að mínu mati einn allra besti harðfiskur landsins. Fékk ég senda bæði poka með ýsu og steinbít. Bæði er alveg einstaklega gott, en ekkert jafnast á við steinbítinn. Hvet ég alla til að fá sér bitafisk ef þeir eiga kost á. Alveg frábært nammi. :)
Saga dagsins
1245 Kolbeinn ungi Arnórsson lést, 37 ára að aldri - Kolbeinn ungi var höfðingi af ætt Ásbirninga.
1929 Landakotskirkja í Reykjavík formlega vígð - hún er kirkja kaþólska söfnuðarins hér á Íslandi.
1965 Sir Alec Douglas-Home biðst lausnar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við afsögn Macmillan árið 1963 - tapaði kosningum árið 1964 og var utanríkisráðherra í ríkisstjórn eftirmanns síns, Edward Heath, árin 1970-1974. Hann lést árið 1995.
1977 Deng Xiaoping nær fullum völdum eftir dauða Mao Zedong árið áður - varð einráður í Kína að mestu við það og ríkti sem yfirmaður einræðisstjórnar Kommúnistaflokksins allt til dauðadags 1997
2003 Uday og Qusay Hussein, synir Saddams Husseins, felldir í skotbardaga í N-Írak - faðir þeirra náðist síðar sama ár í holu við bóndabæ við Tikrit. Síðar á árinu verður réttað yfir Saddam í landinu.
Snjallyrðið
Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag, minn draum og nótt.
Þú vakir faðir vor
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarnan skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.
Lát daga nú í nótt
af nýrri von og trú
í myrkri hels og harms
og hvar sem gleymist þú
á jörð sem átt og elskar þú.
Kom nótt, með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl, hvert brot og sár.
Sigurbjörn Einarsson biskup (1911) (Nú hverfur sól í haf)
<< Heim