Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 ágúst 2005

Punktar dagsins
Fundarsalur borgarstjórnar

Aðalfréttaefni vikunnar hefur verið R-listinn. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa ISG af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Ég hef fylgst með sigrum og sorgum R-listans allt frá stofnun árið 1994. Allan tímann hef ég verið mikill áhugamaður um stjórnmál og fylgst vel með borgarmálunum. Það verður seint sagt að ég hafi verið aðdáandi R-listans. Hugur hins sanna sjálfstæðismanns hefur verið kaldur í garð R-listans alla tíð. Það er því algjör óþarfi að leyna ánægju sinni með þessi sögulegu þáttaskil. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Það varð enginn hissa í raun, fjölmiðlarnir sögðu frá þessu með krafti en almenningur hafði búið sig undir þetta. Um var að ræða ferli sem allir vissu mjög lengi hvernig myndi enda. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.

Margir fylgdust með skrifum mínum um R-listann í vikunni. Sumir töldu þau vera ansi áberandi og kveinkuðu sér undan umfjölluninni. Öðrum fannst þau vel framsett og hörmuðu lítt hversu mikið ég fjallaði um hinn látna - R-listann. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim fjölda einstaklinga sem sendi mér tölvupóst vegna skrifanna. Sumir voru ósammála, fundu að hinu og þessu og komu með svarkomment, - en enn fleiri mjög sammála, og höfðu fín komment á skrifin. Það er alltaf gaman af góðum rökræðum. Það er alltaf gaman að heyra í öðru fólki og fá beint í æð skoðanir lesendanna á því sem maður er að pára niður á bloggsíðuna - þeim skoðunum sem maður hefur og vill kynna fyrir öðrum. Í því mikla hafi tölvupósta sem ég fæ dag hvern finnst mér alltaf ánægjulegast að fá póst með viðbrögðum um skrifin mín. Í gegnum það hef ég kynnst fjölda fólks. Skemmtilegast er jafnan að tala við pólitísku andstæðingana. Átti ég semsagt mörg lífleg skoðanaskipti þessa vikuna við fólk um lífið eftir R-listann. Sumt var æði fyndið - annað mátulega fróðlegt spjall um sögu og staðreyndir tengdar R-listanum. Hafði ég þónokkuð gaman af þessu. Það er auðvitað öllum frjálst að senda tölvupóst til mín og tjá sig um efnið sem hér birtist - hafi fólk á því skoðanir. Fagna ég hverjum þeim sem vill spjalla.

En já, saga R-listans er öll - þeir sem lifðu í veikri von um annað voru slegnir endanlega af laginu með ákvörðun Samfylkingarinnar um eigið framboð. Einn af þeim sem biðu og vonuðu - eins og sagði í laginu fræga - var Alfreð Þorsteinsson. Hann vonaði og beið - hélt í vonina um kosningabandalag í einhverri mynd. Í dag virtist sem hann væri búinn að átta sig og talaði hann þar í fyrsta skipti um lífið handan R-listans. Hann ætlar að halda áfram og bauð þeim byrginn sem hafa gagnrýnt hann í eigin röðum og sagði bara andstæðingunum að leggja í sig ef þeir vildu losna við hann. Alfreð hikar hvergi og ætlar sér greinilega að leggja á framboðshöfin á vegum Framsóknarflokksins í næstu kosningum. Í gær minnti Alfreð heldur betur á sig þegar að hann lagði fram tillögu í borgarráði um að hætt skyldi við umdeilda gjaldskrárhækkun á leikskóla, sem Stefán Jón Hafstein formaður borgarráðs og menntaráðs, hafði fyrr um daginn varið með kjafti og kló á fundi með fulltrúum háskólastúdenta. Það er greinilegt að kosningabaráttan er hafin. Og Alfreð er farinn að stríða samstarfsmönnum sínum innan R-listann - og minnir á sig með þessu. Engum blandast hugur um það að titringur er orðinn innan meirihlutans. Það kristallast altént í þessu.

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um endalok R-listans á vefritinu íhald.is. Þar fer ég yfir atburði vikunnar og þessi táknrænu endalok kosningabandalagsins. Bendi ég lesendum vefsins á þau skrif. En ég endurtek enn og aftur þakkir til þeirra sem hafa kommentað til mín á skrif vikunnar um R-listann og þau ánægjulegu samskipti sem spunnist hafa útfrá því. Það er alltaf ánægjulegt að eiga góð samskipti við fólk í gegnum tölvupóst. Þeir sem hafa skoðanir á þessum nýjasta pistli - hafið endilega samband! Ég svara öllum pósti, um leið og ég les hann.

ISG

Fyrir sex árum setti Samfylkingin sér siðareglur. Gott og vel - það er þeirra valkostur og þeirra hlið á málin. Þetta var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1999. Þeim kosningum fylgdist ég vel með. Sennilega er það ein skemmtilegasta kosningabarátta sem ég hef tekið þátt í. Sjálfstæðisflokkurinn vann þá einn sinn merkilegasta kosningasigur og við sjálfstæðismenn hlutum mest fylgi allra framboða í hinu gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Það var mikil gleði aðfararnótt 9. maí 1999 þegar því var fagnað að Halldór Blöndal varð fyrsti þingmaður kjördæmisins, í þessum seinustu kosningum í kjördæminu. Sennilega er það hápunktur stjórnmálaferils Halldórs - þetta var sögulegur sigur fyrir okkur hér á þessu svæði okkar - því getur enginn neitað. En rétt eins og þetta eru ánægjulegar kosningar fyrir okkur sjálfstæðismenn - tengdar ólýsanlega gleðilegum minningum - hugsa Samfylkingarmenn til þeirra með hryllingi. Aldeilis var markið sett hátt með svokallaðri sameiningu vinstrimanna í Samfylkinguna. Ekki reið flokkurinn feitum hesti frá þeim bardaga og sleiktu sárin lengi á eftir, fyrstu árin þeirra voru mögur og eymdarleg. En já siðareglurnar komu til í aðdraganda kosninganna. Það var ein leið flokksins til að virka nútímalegur og vinna gegn óeðlilegum tengslum þingmanna flokksins.

Siðareglurnar margfrægu banna þingmönnum Samfylkingarinnar að sitja í stjórnum banka, stofnana og fyrirtækja þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum. Samfylkingin varð fyrst flokka til að marka sér siðareglur með þessu tagi - er eina stjórnmálaaflið sem það hefur gert. Gott og vel - en hvernig hefur til tekist með reglurnar, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, það er í fréttum nú sex árum síðar að flokkurinn fer ekki eftir þeim. Fjölmiðlamenn þaulleita að þessum frægu siðareglum og enginn finnur neitt. Það er eins og að ætla að leita að nál í heystakk að reyna að ramba á þessar frægu reglur. Í gærkvöldi birtist merkileg frétt í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 um það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, sem tekið hefur sæti á þingi, ætli ekki að segja sig úr stjórn Seðlabankans, þar sem hún hefur setið frá árinu 2003 (er henni mistókst að komast inn á þing í frægu þingframboði sem gekk ekki upp). Hún telur enga hagsmunaárekstra felast í því að hún sitji í stjórninni. Það segir hún þrátt fyrir að þessar siðareglur segi að þingmenn flokksins megi eins og fyrr segir ekki vera í stjórnum banka. Ver hún það með því tali að í siðareglunum sé talað um viðskipta- og fjárfestingabanka. Seðlabankinn sé hvorugt og því engin brot á siðareglunum. Það er merkilegt að heyra þessa skilgreiningu hjá formanninum.

Það er auðvitað ekki hægt annað en að hlæja af þessu máli öllu. Samfylkingin setur sér siðareglur sem enginn hefur orðið fyrir því að virða. Ekki einu sinni formaður flokksins virðir þær. Hún er ekki ein um það því að Helgi Hjörvar situr í stjórn Landsvirkjunar og hafnarráði Faxaflóa, Jón Gunnarsson er í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og Einar Már Sigurðarson í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins. Nú ver varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar þetta í fjölmiðlum með því að segja að þingflokkurinn hafi ekki tekið á þeirra máli vegna þess að þeir hafi verið tilnefndir af sveitarfélögunum. Þetta er samt sem áður mjög húmorískt, svo ekki sé meira sagt. Siðareglurnar sem varla finnast neinsstaðar eru brotnar fram og til baka af þingmönnum flokksins. En hvað ætla þeir að gera varðandi formann sinn? Þessi hlægilegi útúrsnúningur hennar á brotum á siðareglum flokksins segja margt um hvernig tekið hefur verið á þessum dæmum innan flokksins. Það er gaman að þykjast vera siðapostuli með því að setja siðareglur. En það er óneitanlega fyndið að sömu postular virði svo ekki eigin reglur. En það er vissulega undrunarefni að flokkur sem hefur sett sér svona siðareglur skuli ekki fylgja þeim eftir. Eru þetta bara puntsiðareglur sem ekki er fylgt eftir?

Viti einhver hvar þessar siðareglur er að finna á netinu væri gaman að fá tölvupóst um það - ég hef nefnilega þónokkurn áhuga á að lesa þær.

Murder on the Orient Express

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Murder on the Orient Express. Þetta er vönduð og vel gerð úrvalsmynd byggðri á þekktri skáldkonu Agöthu Christie, sem skartar fjölda heimsþekktra leikara í aðalhlutverkum. Í þessari mynd var uppskriftin gefin að öllum Agatha Christie-spennusagnamyndunum sem fylgdu í kjölfarið, en allt frá því þetta meistaraverk kom út hefur verið gerður mikill fjöldi kvikmynda- og framhaldsþátta byggðar á þekktum sögum Christie. Hér er valinn maður í hverju rúmi og myndar ógleymanlega kvikmynd. Hercule Poirot tekur sér á hendur ferð með Austurlandahraðlestinni árið 1935 eftir að hafa leyst mál og gengur ferðin vel þar til hana fennir inni í snjóskafli á leiðinni. Er uppgötvast að einn farþeganna hefur verið myrtur á hrottalegan hátt, hefur Poirot morðrannsókn sína og uppgötvar fljótt sér til mikillar skelfingar að allir farþegar lestarinnar tengdust hinum myrta í gegnum barnsrán í kringum 1910 sem kennt var við Daisy Armstrong-málið. Nú er hann í vanda staddur og áttar sig á að allir farþegarnir höfðu nægilega ástæðu og tilefni til að hafa myrt hinn látna. Það vantar semsagt ekki fólk sem er undir grun. En spurningin vaknar - hver þeirra er morðinginn?

Það er hrein unun að fylgjast með þessari stórfenglegu kvikmynd og fylgjast með úrvalsleikaranum Albert Finney í hlutverki Hercule Poirot og fylgjast með honum fást við þetta dularfulla og undarlega morðmál áður en hann hóar hinum grunuðu saman og bendir á hina seku. Stjarna í hverju hlutverki og leikstjóri myndarinnar, úrvalsleikstjórinn Sidney Lumet, stjórnar öllu saman með velviðeigandi blöndu af húmor og spennu. Að öllum ólöstuðum er stjarna myndarinnar fyrir utan Albert Finney, óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman, sem fer hér á kostum í hlutverki Gretu, sænsks trúboða sem er farþegi í lestinni. Hún hlaut sinn þriðja og jafnframt síðasta óskar fyrir hreint magnaðan leik sinn í þessari mynd. Ennfremur má meðal leikarana nefna Lauren Bacall, Martin Balsam, Wendy Hiller, John Gielgud, Vanessu Redgrave, Sean Connery og Dame Wendy Hiller. Einnig eru hér leikararnir Anthony Perkins, Richard Widmark, Rachel Roberts, Jacqueline Bisset og Michael York. Sannkölluð stórmynd með úrvalsleikurum, vel leikstýrð og afar vel útfærð. Þeir sem hafa gaman af stórbrotnum sakamálamyndum með ekta bresku ívafi mega ekki missa af þessari. Sannkölluð klassamynd.

John Williams

Enginn vafi leikur á því að John Williams sé eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (samt bara smábrot þess) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: The Music of John Williams: 40 Years of Film Music. Hann hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur samið tónlist við nær allar kvikmyndir Steven Spielberg. Allir þeir sem horft hafa á E.T., Schindler's List, Star Wars, The Deer Hunter, Indiana Jones, Jaws, Stepmom, Nixon, Born on the Fourth of July, Saving Private Ryan, Jurassic Park, Catch Me If You Can, JFK, Superman, Home Alone, og Sugarland Express (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Hann hefur hlotið óskarsverðlaun fimm sinnum fyrir verk sín og hlotið 32 tilnefningar á rúmlega þrem áratugum. Það segir allt um snilli hans á þessum vettvangi. Tónlist hans hefur kallað fram mörg svipbrigði: hann hefur skelft fólk (allir fá hroll sem sjá Jaws), snert hjartað (allir sem sjá The Deer Hunter og Schindler's List tárast yfir stefunum) og glatt fólk (tónlistin hans úr Star Wars og Superman er pjúra snilld). Hann er það núlifandi kvikmyndatónskáld sem ég ber mesta virðingu fyrir. Alltaf fagmannlegur og kemur alltaf á óvart. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem dýrka kvikmyndirnar - jafnast á við hið besta koníak. :)

(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum John Williams)

Klassískt retirement-dæmi :)

Hrós vikunnar að þessu sinni fær Húsasmiðjan. Fyrirtækið vantar fólk til starfa - náði það athygli almennings með auglýsingum sínum í dagblöðum um miðja vikuna er þeir auglýstu eftir starfskröftum - skiljanlega fyrst vantar fólk er gripið til þess ráðs. En það sem var merkilegast við auglýsinguna er það að óskað var eftir eldri borgurum til að sinna vissum störfum í fyrirtækinu. Viðbrögðin voru mjög góð - sá ég viðtal við Stein Loga Björnsson forstjóra fyrirtækisins, í vikunni í sjónvarpi þar sem hann lýsti því að fjöldi fólks hefði sótt um. Fannst mér þetta glæsilegt framtak hjá Húsasmiðjunni. Eins og allir vita er fólk á sjötugsaldri afburða starfskraftar og búa yfir enn meiri starfsorku en fólk á sama aldri fyrir nokkrum áratugum. Þetta er jú allt annað samfélag en þá. Margt fólk er afskrifað er það dettur inn á sjötugsaldurinn. Það er mjög slæmt, því eldra fólk býr yfir mikilli starfsreynslu og hefur þrek og heilsu til að taka að sér störf. Allavega gladdi þetta hjartað mitt og viðbrögðin sýna okkur hversu vel heppnað þetta var hjá Húsasmiðjunni. Þeir fá hrós í hnappagatið allavega frá mér.

Saga dagsins
1871 Alþingismenn stofnuðu Hið íslenska þjóðvinafélag, í þeim tilgangi að vekja og lífga skilning Íslendinga á því að þeir væru sjálfstætt þjóðfélag. Félagið hefur frá 1875 gefið út árlegt almanak.
1964 Bítlamyndin A Hard Day's Night frumsýnd í Tónabíói í Reykjavík - myndin sló sýningarmet um allan heim og markaði upphaf hinna gríðarlegu vinsælda bresku popphljómsveitarinnar The Beatles.
1991 Mikhail Gorbachev forseta Sovétríkjanna, steypt af stóli og hnepptur í stofufangelsi í leyfi sínu á Krímskaga, með valdaráni harðlínuaflanna í Moskvu - valdaránið fór út um þúfur tveim dögum síðar og Gorbatsjov var sleppt úr varðhaldinu og sneri aftur til Moskvu. Við heimkomuna blasti gjörbreytt pólitískt landslag við og Jeltsín forseti Rússlands, hafði fangað athygli heimsins og landsmanna með framgöngu sinni. Veldi Gorbatsjovs og Kommúnistaflokksins hrundi á nokkrum vikum og í lok ársins 1991 voru Sovétríkin svo að lokum leyst upp og Gorbatsjov missti í kjölfar þess öll sín pólitísku völd.
1993 Shimon Peres utanríkisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til landsins. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu leiðtogar þáverandi stjórnarandstöðuflokka, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðar borgarstjóri, að sitja kvöldverðarboð forsætisráðherrans, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust svo sögulegar sættir á milli Ísraels og Palestínu, í kjölfar mjög umfangsmikilla samningaviðræðna í Noregi.
1993 Íslenskir togarar hófu veiðar utan lögsögunnar, í Smugunni - upphaf allmikilla milliríkjadeilna.

Snjallyrðið
Þú varst minn vetrareldur.
Þú varst mín hvíta lilja,
bæn af mínum bænum
og brot af mínum vilja.
Við elskuðum hvort annað,
en urðum þó að skilja.

Ég geymi gjafir þínar
sem gamla helgidóma.
Af orðum þínum öllum
var ilmur víns og blóma.
Af öllum fundum okkar
slær ævintýraljóma.

Og þó mér auðnist aldrei
neinn óskastein að finna,
þá verða ástir okkar
og eldur brjósta þinna
ljós á vegum mínum
og lampi fóta minna.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vetrareldur)