Ljóst er eftir atburði gærdagsins að R-listasamstarfið heyrir sögunni til. Í gærmorgun vöknuðu samstarfsmenn vinstri grænna innan R-listans við þá ákvörðun félagsfundar VG að slíta samstarfinu og að flokkurinn bjóði fram á eigin vegum í kosningunum á næsta ári. Merkilegt var að fylgjast með viðbrögðum innan Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins við dauða R-listans. Fremst í flokki þeirra sem hörmuðu R-listann voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, Stefán Jón Hafstein formaður borgarráðs, og Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar. Fram kom í ummælum þeirra að þau útilokuðu ekki áframhaldandi samstarf Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar, þó að VG væri búið að ákveða sérframboð. Ekki er þó hægt að segja annað en að tal þeirra hafi virkað örvæntingarfullt. Það blasir enda við að þeir tveir stjórnmálamenn sem mestu tapa með endalokum R-listans eru borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar, sem eru frekar völt í sessi innan flokka sinna og treystu á áframhaldandi samstarf til að halda velli. Steinunn Valdís sem er sitjandi borgarstjóri, var auðvitað eini borgarfulltrúinn sem naut sameiginlegs stuðnings innan hópsins til að verða borgarstjóri í nóvember 2004 og hefur verið borgarfulltrúi allt frá árinu 1994 er R-listinn var stofnaður. Hennar staða er þó ótrygg ef Samfylkingin fer fram á eigin vegum.
Alfreð Þorsteinsson hefur verið að því er segja má verið til í næstum hvað sem er til að R-listinn myndi bjóða fram í fjórða skiptið. Staða hans innan Framsóknarflokksins er ótrygg, enda hefur ekki farið á milli mála að það andar köldu milli hans og Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Var Alfreð meira að segja svo áfjáður í að listinn héldi velli að hann lét þau boð út ganga að Framsóknarflokkurinn gæti sætt sig við að Samfylkingin fengi fjóra borgarfulltrúa, en hinir flokkarnir tvö hvert. Með því var Alfreð semsagt tilbúinn til að segja að flokkurinn væri til í að víkja frá hinni þekktu jafnræðisreglu. VG vildi ekki þola það sem leiddi til endaloka R-listans. Greinilegt er að Alfreð er svo jafnvel til í næstum hvað sem er til að halda áfram, þó að VG hafi boðað sérframboð. Hann talar nú af krafti um að flokkarnir tveir haldi áfram, eins og ekkert hafi gerst. Slíkt tal Alfreðs og fleiri er mjög fjarstæðukennt og taka fáir mark á því. R-listinn sem heild hefur markast af pólitískum grunnpunktum vinstrimennsku og allir sjá að með brotthvarfi VG fer stór biti í púslinu. Reyndar var Alfreð vandræðalegur er hann ræddi þetta í fréttaviðtali á Bylgjunni í gær og sagði að samstarfið gæti haldið áfram en finna yrði því nýtt nafn. Almennt innan flokkana er tal hans, Stefáns Jóns og Steinunnar Valdísar talið lýsa örvæntingu umfram allt.
Ekki síður hefur síður verið merkilegt að heyra í Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa vinstri grænna, er rætt hefur verið við hana um stöðu mála. Eins og allir vita vildi hún áframhaldandi R-lista, lagði fram tillögu um það á fundi félagsmanna og varð þar undir. Í gærkvöldi var rætt við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2 um stöðu mála. Þar kom hún með alveg ótrúlega yfirlýsingu um Sjálfstæðisflokkinn og þá sem styðja flokkinn í borgarmálum. Hún sagðist sjá svart þegar hún heyrði minnst á flokkinn og jafnframt að það hræðilegasta sem gæti gerst væri það að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda í borginni. Hún sagðist aldrei myndu vilja meirihlutasamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins. Í gær skrifaði Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, um þessi dramatísku endalok R-listans og gerir þar mikið úr því að VG sé að stökkva frá borði. Þar gefur hann í skyn að jafnvel sé framundan meirihlutasamstarf milli Sjálfstæðisflokks og VG í vetur, fyrir kosningar. Allir sem heyrðu tal Bjarkar Vilhelmsdóttur í þessum fréttatíma sjá að það eru órar Össurar að halda að flokkarnir myndi meirihluta meðan Björk er borgarfulltrúi. En það merkilegasta við þvæluna í Björku og fordómana í garð rúmlega 40% borgarbúa sem kosið hafa D-listann er að hún staðfestir að R-listinn hefur alla tíð verið hræðslubandalag gegn Sjálfstæðisflokknum, og hefur haldið saman í gegnum allar þvælurnar á kjörtímabilinu, tengdar tveim borgarstjóraskiptum, vegna þess.
Eins og sást ennfremur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi átti Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, erfitt með að leyna ánægju sinni með skipbrot R-listans. Í viðtali við Þóru Arnórsdóttur sagði hann að endalok R-listans væru góður endir á vondu ferli. Eru það svo sannarlega orð að sönnu hjá Davíð sem var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, 1982-1991, borgarfulltrúi í tvo áratugi, 1974-1994, og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í ellefu ár, 1980-1991. En eftir stendur nú þegar farið er yfir stöðu mála að R-listinn heyrir sögunni til og flokkaframboð taka við í kosningunum að ári. Segja má að kosningabaráttan sé þegar hafin af krafti og fróðlegt hvernig hinum gatslitna meirihluta R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur gangi að vinna saman eftir þessi slit kosningabandalagsins og stjórna þessu stærsta sveitarfélagi landsins í gegnum harðskeytta kosningabaráttu næstu níu mánuðina.
Í dag verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál ákæruvaldsins á hendur lykileigendum og forystumönnum Baugs. Ákærur voru birtar í málinu hinn 1. júlí sl. og ákærur í málinu voru birtar á föstudag í breska blaðinu Guardian og á laugardag birti Fréttablaðið þær með útskýringum sakborninga og viðtali við tvo þeirra. Sex hafa verið ákærð í málinu: þau Jóhannes Jónsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir, Tryggvi Jónsson, Stefán Hilmar Hilmarsson og Anna Þórðardóttir. Dómari í málinu mun verða Pétur Guðgeirsson en tveir aðstoðardómarar verða honum til aðstoðar. Er um að ræða eitt viðamesta dómsmál sem fyrir réttinn hefur komið en málsskjöl munu vera um 20.000 blaðsíður og því yfir margt að fara. Sakborningum málsins, einkum Jóhannesi og Jóni Ásgeiri, er gefið að sök t.d. umboðssvik og fjárdráttur auk þess sem þeir eru taldir hafa gerst brotlegir við lög um bókhald, tolla, skatta og hlutafélög. Brot af slíku tagi geta varðað allt að sex ára langri fangelsisvist. Eins og fyrr segir fóru feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir yfir stöðu mála í viðtölum við Fréttablaðið, blað í þeirra eigu, á laugardaginn og réðust þar harkalega að Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, en hafa auðvitað engar sannanir fyrir tali sínu.
Í gærkvöldi tjáði Jón Ásgeir sig svo um þetta mál í ítarlegu viðtali við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Fór hann þar yfir það frá öllum hliðum og er lesendum vefsins bent á viðtalið til að heyra hans hlið á því, hafi þeir ekki séð það. Ekki hef ég í hyggju að tjá mig um hálfkveðnar vísur hans. Deilt hefur verið seinustu daga um birtingu Fréttablaðsins á ákærunum og sitt sýnist hverjum um það. Fór ég yfir skoðun mína á málinu og ýmsar hliðar þess í ítarlegum sunnudagspistli um helgina. Egill Helgason fjölmiðlamaður, tjáði sig um málið í pistli á vef sínum og var harðorður í garð starfsfélaga sinna innan 365, á blaðinu. Í gær tjáði Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, sig um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Í viðtalinu við Össur segir hann að Fréttablaðið hafi ekki staðist þá prófraun sem Baugsmálið hafi verið, þar sem það vék í því máli frá sínum eigin siðareglum. Sérstaklega hafi það verið skaðlegt fyrir blaðið í ljósi þess að eigendur blaðsins hafi átt í hlut. Þessi ummæli Össurar eru fróðleg, en skiljanleg í ljósi þess að hann er gamalreyndur fjölmiðlamaður og var ritstjóri þriggja blaða á nokkuð löngum ferli. Áður hefur Þorbjörn Broddason prófessor, sagt blaðið komið á hálan ís og vinnubrögð þess samrýmist ekki góðri blaðamennsku.
Eftir viðtalið við Jón Ásgeir, skrifar Össur um það svo á vef sínum: "Einu sinni í viðtalinu steytti á botni. Það var þegar Jón Ásgeir var að útskýra gleðisnekkjuna margfrægu. Mér var í fyrsta lagi ómögulegt að skilja afhverju Gaumur hefði átt að lána Sullenberger peninga til að kaupa sér snekkju - einsog var skýring Jóns Ásgeirs - og í öðru lagi átti Sigmar að reiða gaffalinn á loft þegar Jón Ásgeir sagðist allt eins hafa getað rúmað árlegar 7-8 milljóna greiðslur fyrir notkun snekkjunnar innan risnunnar sem hann hafði frá Baugi á þeim árum. En er það virkilega svo að endurskoðendur skrifi upp á slíka risnu án þess að blikna?" Síðar segir Össur: "Davíð hefur heldur betur látið þjóðina vita af stækri andúð sinni á Jóni Ásgeiri og Baugsveldinu - en það er af og frá að hann hafi verið opinberlega að terrorísera Hæstarétt að niðurstöðu einsog í ofangreindum málum. Hann gæti auðvitað trúað Jóni Steinari fyrir því yfir viskíglasi hvernig honum fyndist að Hæstiréttur ætti að dæma - en ef einhver maður á jarðríki mun ekki fá að koma nálægt þessu máli í Hæstarétti er það Jón Steinar. Og ég hef enga trú á að það hefði nokkur áhrif jafnvel þó Jón Steinar reyndi að koma sjónarmiðum þeirra vinanna að í samtölum við hina dómarana." Hvet alla til að lesa þennan pistil Össurar - mjög merkileg skrif.
Er ég kom heim eftir fund í gærkvöldi horfði ég á hina einstöku American Beauty. Þekur allan tilfinningaskalann og er í senn kómísk gamanmynd og tragísk ádeila sem lýsir hnignun hinnar týpísku amerísku vísitölufjölskyldu sem virðist á yfirborðinu fullkomið fyrirbæri en er undir niðri rotin í gegn. Eftir því sem áhorfandinn kemst nær kjarna Burnham-fjölskyldunnar kemur æ betur í ljós að líf þeirra er innantómt og ómögulegt og að hjónin (sem feta framabrautina í lífsgæðakapphlaupinu) þola ekki hvort annað. Fjölskyldan er full af hatri og fyrirlitningu fyrir hverju öðru. Dóttirin þolir ekki foreldrana og hjónin Lester og Carolyn Burnham lifa í gersamlega ástlausu hjónabandi og finna ekki til nokkurrar einustu gleði þegar þau umgangast hvort annað. Eiginmaðurinn fellur í framhaldi af því fyrir vinkonu dóttur sinnar (sannkölluðu lambakjöti) og eiginkonan finnur sér einnig viðhald. Lester reynir að endurheimta eitthvað af þeim töpuðu og mannlegu tilfinningum sem honum finnst lífið fela í sér. Það mun reynast fjölskyldunni örlagaríkt og gjörbreyta lífi þeirra. Kevin Spacey og Annette Bening fara á kostum í hlutverkum hjónanna. Spacey hlaut óskarinn fyrir stjörnuleik - hlaut myndin óskarinn sem besta myndin 1999, fyrir leikstjórn Sam Mendes, handrit Alan Ball og myndatöku Conrad L. Hall. Ógleymanleg svört kómedía. Hún er ein af þessum myndum sem verða táknmyndir síns tíma og að lokum ódauðlegir gullmolar.
Í gær kom bæjarstjórn saman til síns fyrsta fundar að loknu löngu sumarleyfi. Var síðast fundur í bæjarstjórn hinn 14. júní sl. Jafnframt er þetta fyrsti fundur í bæjarstjórnarsalnum í Ráðhúsinu að Geislagötu 9 eftir gagngerar endurbætur á salnum. Þar hefur nú verið skipt um húsgögn og parket komið á gólfið í stað teppis. Segja má að bæjarstjórnarsalurinn í Geislagötunni hafi verið nær algjörlega eins til fjölda ára og innréttingar þar með svipuðum hætti allt frá því að fundir hófust þar á fjórðu hæðinni, er Ráðhúsið var tekið í notkun á sjöunda áratugnum. Nú eru þar komin ný og glæsileg húsgögn og allt annar bragur á aðstöðunni að mínu mati. Er gleðiefni að sjá nýjar innréttingar í salnum og ferskari ásýnd hans. Horfði ég á fundinn venju samkvæmt á Aksjón í gærkvöldi. Eins og ávallt stjórnaði Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, fundinum af krafti. Voru fá mál á dagskrá fundarins. Helst var þar rætt um endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar. Kynnti Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, stefnuna í ítarlegu máli og fór yfir stöðu mála í framsögu sinni og ennfremur í svörum við spurningum og áliti annarra bæjarfulltrúa. Samþykkti menningarmálanefnd endurskoðaða stefnu á fundi sínum hinn 7. júlí og samþykkti bæjarstjórn hana eftir nokkrar umræður í gær.
Á fundi stjórnar Varðar, undir minni stjórn, í gærkvöldi var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt: "Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur að tryggja beri samkynhneigðum sama rétt til fjölskylduþátttöku og gagnkynhneigðum. Í því felst t.d. að breyta þarf lögum um staðfesta samvist þannig að samkynhneigðum pörum verði heimilað að frumættleiða börn og heimila þarf konum í staðfestri samvist að fara í tæknifrjóvgun. Fagnar stjórn félagsins því að ríkisstjórnin muni á haustþingi leggja fram frumvarp til að jafna rétt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra til fyrrnefndra atriða."
Saga dagsins
1933 Flugkappinn Charles Lindbergh kom til Reykjavíkur frá Grænlandi, ásamt konu sinni, Anne Morrow. Þau flugu norður og austur um land og fóru frá Eskifirði til Færeyja, 23. ágúst. Lindbergh flaug fyrstur manna án millilendingar yfir Atlantshafið í maí 1927. Lindbergh lést hinn 26. ágúst 1974.
1945 Indónesía hlýtur fullt sjálfstæði frá Hollandi, eftir að hafa barist fyrir sjálfstæðinu til fjölda ára.
1987 Rudolf Hess, er var einn nánasti samstarfsmaður Hitlers, sviptir sig lífi í Spandau fangelsinu.
1988 Mohammad Zia ul-Haq leiðtogi Pakistans, ferst í flugslysi - talið var að hann hafi verið myrtur.
1998 Bill Clinton forseti Bandaríkjanna, viðurkennir að hafa átt í kynferðislegu ástarsambandi við lærlinginn Monicu Lewinsky í sjónvarpsávarpi til bandarísku þjóðarinnar. Clinton hafði þangað til neitað sambandinu og fræg var ótvíræð yfirlýsing hans á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, hinn 26. janúar 1998. Í kjölfar yfirlýsingar forsetans var honum stefnt fyrir þinginu, öðrum forsetanum í sögu landsins, en var sýknaður. Clinton sat á forsetastóli samfellt í 8 ár og lét af embætti 20. janúar 2001.
Snjallyrðið
Á fenjamýrum gróa strá og stör,
sem stormar kaldir næða um og sveigja,
uns rosar haustsins rætur þeirra feyja,
og regnið lamar þrá og æskufjör.
En yngri gróður erfir sömu kjör,
og allir verða sama stríð að heyja,
því öllum var það áskapað að deyja,
svo allt er lífið sífelld jarðarför.
Við storminn mega stofnar háir glíma,
þó stráin falli. Allt hefur sinn tíma.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Lífsstríðið)
<< Heim