í Sjálfstæðisflokknum
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi hans sem haldinn verður dagana 13. - 16. október nk. Ákvörðun Davíðs markar mikil þáttaskil. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann felldi Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í spennandi kosningu á landsfundi. Með því mörkuðust önnur þáttaskil í lífi Davíðs Oddssonar, en hann hafði verið borgarstjóri í Reykjavík samfellt í 9 ár, 1982-1991, er hann varð forystumaður flokksins í landsmálunum og sat í borgarstjórn árin 1974-1994. Davíð varð forsætisráðherra eftir kosningasigur flokksins árið 1991 og leiddi stjórn með Alþýðuflokki til ársins 1995 og með Framsóknarflokknum til ársins 2004. Leiddi hann því ríkisstjórn Íslands samfellt 1991-2004, eða í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur í stjórnmálasögu landsins. Hann hefur svo verið utanríkisráðherra frá 15. september 2004. Á þrettán ára forsætisráðherraferli hans urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar, lækkunar skatta, og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum.
Á blaðamannafundinum í Valhöll tilkynnti Davíð að hann myndi taka við embætti seðlabankastjóra og verður formaður bankastjórnar þann 20. október nk., en eins og Davíð benti á er það afmælisdagur eiginkonu hans, Ástríðar Thorarensen. Davíð Oddsson mun víkja úr ríkisstjórn og láta af þingmennsku fyrir Reykvíkinga þann 27. september nk. Þann dag er boðaður ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar mun Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, taka við embætti utanríkisráðherra af Davíð. Árni M. Mathiesen tekur við embætti fjármálaráðherra af Geir og eftirmaður Árna á stóli sjávarútvegsráðherra verður Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður. Við þessar miklu breytingar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Við sæti Davíðs Oddssonar á þingi tekur Ásta Möller formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, sem sat á þingi árin 1999-2003 og hefur verið fyrsti varamaður flokksins í RN síðan. Eru þetta mjög umfangsmiklar breytingar sem eiga sér stað með brotthvarfi Davíðs á forystu flokksins og lykilmannskap hans. Stóll formanns þingflokksins losnar við þessa uppstokkun. Flest bendir til þess að Arnbjörg Sveinsdóttir taki við formennsku í þingflokknum, enda varaformaður nú. Ákvörðun um það verður tekin í næstu viku.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Dr. Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði sér spor í íslenska stjórnmálasögu sem aldrei munu gleymast.
Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið hans helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem segir til verka og hefur notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Styrkleiki hans sannaðist einna helst að mínu mati á síðasta ári þegar að hann veiktist snögglega. Hann kom hnarreistur frá þeirri glímu og sýndi enn og aftur styrkleika sinn og kraft sem stjórnmálamanns. Hann kom fram í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar og sagði sjúkrasöguna með sínum hætti: glæddi alvarlega sögu léttum undirtóni.
Á síðasta ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum. Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin.
Davíð er án vafa maður allra ára í stjórnmálum. Hann er sá stjórnmálamaður sem bæði hefur verið elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Þrátt fyrir nokkra harkalega mótvindi og það að honum hafi oft verið sótt og hann veikst mjög illa undir lok stjórnmálaferilsins stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í lok verksins á sviði stjórnmálanna, sterkur og öflugur. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef í gegnum störf mín þar kynnst svo Davíð sjálfum og ekki síður kynnst í návígi hversu góður og farsæll leiðtogi hann hefur verið. Það er algjörlega óhætt að fullyrða að ég hafi borið mikla virðingu fyrir honum. Forysta hans hefur enda verið okkur mjög heilladrjúg og farsæl.
Í dag, 7. september 2005, á þeim degi sem fyrir liggur að Davíð Oddsson hættir í stjórnmálum og lætur af forystu Sjálfstæðisflokksins eftir farsælan feril, hefur hann verið formaður flokksins í 5.295 daga. Aðeins Ólafur Thors hefur verið formaður flokksins lengur. Við sem störfum í Sjálfstæðisflokknum getum litið um öxl yfir fjórtán ára formannsferil Davíðs Oddssonar og þrettán ár hans í forsæti ríkisstjórnar Íslands með stolti. Hann hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og leiddi okkur öll rétta leið. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta vannst undir forystu Davíðs Oddssonar.
Ég fer ekki leynt með það að ég vonaði allt til enda að Davíð Oddsson myndi gefa kost á sér áfram. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Við þessi miklu þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Snjallyrðið
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.
Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.
Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)
<< Heim