Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 september 2005

Klukkið - fimm staðreyndir um SFS
Stefán Friðrik Stefánsson

Sá siður er nú algengur í bloggheimum að klukka hinn og þennan vin sinn eða félaga í netheimum og fá þá til að tjá sig á persónulegu nótunum. Þetta er í senn bæði undarlegur og stórskemmtilegur leikur sem þarna er um að ræða. Í gær gerðist það að Friðbjörn Orri Ketilsson klukkaði mig á sínum góða bloggvef. Tek ég að sjálfsögðu áskoruninni. Ég nefni því hér fimm atriði varðandi mig sem eru á sumra vitorði - en ekki allra.

1. Ég er ættaður að hluta til að austan. Fáir sem þekkja mig tengja mig þó við Austfirðina. Frá því að ég man eftir mér hefur mér verið mjög annt um Austfirðina og farið þangað oft og ræktað vina- og fjölskyldubönd þangað. Í sumar fór ég þangað oftar en nokkru sinni, bæði vegna flokksstarfa og persónulegra tengsla við góðan vin. Þá lærði ég þá list að slappa vel og innilega af í austfirsku fjallalofti og horfa á austfirska náttúrufegurð með öðrum augum en oft áður. Það er virkilega gaman að fara austur í sumarblíðunni og njóta kyrrðar og fegurðar svæðisins. Ekki er síðra að fara að vetrarlagi og horfa á vetrartóna austfirskra byggða speglast í sjónum. Þeir sem hafa ekki farið austur verða að skella sér. Ég ætla mér að fara þangað oft á næstu árum!

2. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður. Á fleiri hundruð kvikmynda og nýt þess í botn að horfa á yndislegar kvikmyndir - það er sannkölluð list. Sérstakan áhuga hef ég á gömlum perlum kvikmyndasögunnar. Þegar ég fór til Bandaríkjanna fyrir tæpu ári voru vinir mínir og kunningjar flestir að fara í búðir í verslunarmiðstöðum til að kaupa utan á sig föt eða spá í einhverjum slíkum hlutum. En ekki Stefán Friðrik Stefánsson, ónei - ég fór inn í aðal DVD-verslunina á staðnum og sökkti mér ofan í eðalmyndir, sem eru sumar hverjar ekki til hérna heima. Kom vel hlaðinn úrvalsmyndum út - ef eitthvað er ástríða mín eru það kvikmyndir og menningin á bakvið þær - frá a-ö. Sumir segja svo að það sé skemmtilegt að horfa á myndir með mér - veit ekkert um það, en vona það þó. :)

3. Ég er mikill áhugamaður um matseld. Hef mjög gaman af því að elda, þ.e.a.s. þegar ég fæ matargesti eða hef einhverja í kringum mig. Það er fátt leiðinlegra en að elda bara fyrir sjálfan sig, hreint út sagt. En þegar ég fæ gesti hef ég mjög gaman af að töfra fram eitthvað gott. Það er viss list að elda og njóta góðs matar - mesta listin er stemmningin á bakvið matreiðsluna. Uppáhaldsmaturinn minn er hiklaust kjöt og karrý - ég var mjög stoltur af sjálfum mér þegar að amma mín hafði kennt mér listina á bakvið þá matreiðslu fyrir margt löngu og enn stoltari sennilega þegar ég eldaði það í fyrsta skipti - algjörlega einn. Það er ekkert betra en góður matur. :) Enn betra er að geta eldað og bjargað sér sjálfur að því leyti og kunna eitthvað meira en bara að sjóða egg. :)

4. Margir ættingjar mínir segja að ég hafi erft persónulega eiginleika langafa míns, Stefáns Jónassonar skipstjóra og útgerðarmanns á Akureyri. Stærsti kosturinn er gamansemi og kaldhæðni. Ég get verið mjög gamansamur og maður brandaranna þegar svo ber undir - eins og langafi Stefán. Hann gat verið hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og mér er sagt að ég geti verið mjög fyndinn þegar svo ber undir. Svo virðist ég líka hafa það frá honum að geta tekið miklar snerrur í skapköstum og svara oft fyrir mig með hvössum hætti ef að mér er sótt. Einhverjir kalla það galla - ég er ekki þeirrar skoðunar. Skap er gott þegar svo ber undir. Það er að mínu mati stór kostur að geta varið sig þegar að manni er sótt - af krafti. Svo hef ég það líka frá langafa að geta talað óendanlega mikið og vera mjög íhaldssamur - eru þetta ekki allt kostir? :)

5. Ég þarf varla að taka það fram að ég hreinlega elska Akureyri og allt sem tengist Eyjafirði - þeim stað sem ég hef búið á nærri alla mína ævi. Fáir vita hinsvegar að ég er mikill unnandi sólarlags í Eyjafirði. Það er ekkert skemmtilegra að vori en að fara út að Ólafsfjarðarmúla, gangamunanum í göngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, og horfa þar á fagra tóna eyfirsks vors. Ég held hreinlega að það jafnist ekkert á við það að standa þar og horfa á sanna fegurð. Ja, nema þá að lesa um sanna eyfirska fegurð í ljóðanna töfrum meistara Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi - þess ljóðskálds sem ég met manna mest.

Miðnætursól í Eyjafirði - sumarið 2005

Hér að ofan er stemmningsmynd úr Eyjafirðinum sem tekin var í júlí 2005 - þetta er fallegt sjónarhorn. En að lokum þarf ég auðvitað að klukka nokkra aðila í bloggheimum sem ég vil heyra frá. Sennilega eru flestallir búnir að fá boð um að gera það. En wtf hvað með það - ég ætla að klukka Þorstein Magnússon, Gylfa Ólafsson og Hrafnkel A. Jónsson á Egilsstöðum.

Saga dagsins
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - þá var sent fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng.
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - Auður Eir vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997.
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls I páfa. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga. Hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli í 27 ár, árin 1978-2005.
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáverandi borgarstjóra.
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Nefndin lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra.

Snjallyrðið
Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður,
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður
verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja
eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja
að sumarið líður allt of fljótt.

Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur hjá blómunum,
er rökkvar, ráðið stjörnumál,
gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niðrað strönd.
Fundið stað,
sameinað
beggja sál.

Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Ég gái út um gluggann minn.
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig alls staðar,
þá napurt er.
Það næðir hér
og nístir mig.
Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari (1945-1978) (Söknuður)

Virkilega fallegt ljóð - það varð ódauðlegt í flutningi höfundar, skömmu áður en hann lést sviplega.