Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 september 2005

Punktar dagsins
Halldór Blöndal forseti Alþingis

Alþingi verður sett á morgun við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Þáttaskil eru í þinginu nú þegar að það kemur saman á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna. Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.

Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum ráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þingmanna. Segja má að Halldór hafi verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Þessi kosningabarátta er í mínum huga og annarra sem tók þátt þá tengdar gleðilegum minningum. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel á þessum sex árum.

Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.

Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því. Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans. Halldór stóð vörð um þetta á forsetastóli í þinginu.

Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum. En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.

Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.

Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum - á kosningavetri.

John G. Roberts sver embættiseið

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gær skipan John G. Roberts í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hlaut 78 atkvæði þingmanna, 22 greiddu honum ekki atkvæði sitt. Allir 55 þingmenn repúblikana studdu Roberts og 23 þingmenn demókrata studdu hann í kjörinu. Roberts sór embættiseið sem 17. forseti réttarins við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu síðdegis í gær. Það kom mér mest á óvart hversu margir demókratar studdu Roberts. Taldi ég að þeir yrðu innan við 70 þingmennirnir sem myndu styðja hann. Staða hans er mjög sterk og var allan tímann, meðan á staðfestingarferlinu stóð og til enda. Bush tókst að skipa íhaldsmann til starfans, en svo gjörsamlega clean að hann rann alveg í gegn. Andstaðan varð er á hólminn kom næstum því engin. Staða hans er því sterk. Nú hefur Roberts tekið við valdataumunum í réttinum. Arfleifð hans mun verða gríðarlega merkileg. Hann er ungur af forseta að vera, aðeins fimmtugur, og getur mótað hæstarétt Bandaríkjanna til fjölda áratuga og sett ævarandi mark á þjóðfélagið. Það eru allavega nokkur þáttaskil sem verða nú er Roberts er orðinn leiðtogi þessa áhrifamikla réttar. Nú er komið að næstu skipan í réttinn. Þar verða að ég tel mun meiri átök um skipan eftirmanns Söndru Day O'Connor, sem lætur brátt af embætti.

Það var án nokkurs vafa ein merkasta arfleifð Ronald Reagan að tilnefna Söndru til setu í hæstarétti árið 1981. Hún varð ekki aðeins fyrsta konan sem tók sæti í réttinum, heldur einn áhrifamesti dómari í seinni tíma sögu landsins og t.d. haft áhrif í þýðingarmiklum málum og oft haft oddaatkvæðið milli ólíkra stefna innan réttarins, verið semsagt milli íhaldsmannanna og liberal-istanna. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush muni skipa í hennar stað. Þar verða átökin að mínu mati - enda um að ræða eftirmann hins klassíska swing vote í réttinum. En þáttaskil hafa orðið í réttinum og nýr leiðtogi tekinn þar við völdum. John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og hann á að baki glæsilegan fræðimannsferil og sem dómari og lagasérfræðingur. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist.

Stykkishólmur

Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið í Stykkishólmi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu á Hótel Stykkishólmi, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson fráfarandi formaður SUS, setur þingið og flytur skýrslu stjórnar. Björn Ásgeir Sumarliðason formaður Sifjar, f.u.s. í Stykkishólmi, mun flytja stutt ávarp að því loknu. Eftir það er farið yfir reikninga félagsins. Eftir það fer fram kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfanefndar og kjörnefndar. Kl. 20:15 verður fundur með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á hótelinu. Að því loknu fer fram móttaka í boði Sifjar á hótelinu. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í grunnskólanum og afgreiðsla ályktana hefst seinnipartinn, eftir að lagabreytingar hafa verið teknar fyrir. Annaðkvöld verður hátíðarkvöldverður og dansleikur á hótelinu. Heiðursgestur verður Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Á sunnudag fer fram afgreiðsla ályktana og kosning formanns og stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund í Hólminum. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

James Dean

Hálf öld er í dag liðin frá því að bandaríski leikarinn James Dean lést í bílslysi, 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða. Í tilefni þess að hálf öld er nú liðin frá því að þessi ungi og heillandi leikari féll frá vil ég hvetja lesendur til að horfa á myndirnar þrjár sem skörtuðu honum í aðalhlutverki. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara.

Saga dagsins
1148 Bæjarbruni á Mýrum, Hítardalsbrenna - mannskæðasti bruni í sögu landsins. Rúm 70 fórust.
1946 Alþjóðlegur dómstóll í Nurnberg í Þýskalandi finnur 22 háttsetta nasista seka um stríðsglæpi.
1955 Leikarinn James Dean ferst í bílslysi í bænum Cholame í Kaliforníu, 24 ára að aldri. Dean lék á skömmum leikferli sínum í þrem stórmyndum: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant, sem
var frumsýnd skömmu eftir lát hans. Dean varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar fólks um allan heim. Almennt talin hin eina sanna ímynd hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns.
1966 Ríkissjónvarpið hóf útsendingar - dagskráin hófst formlega með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Fyrst í stað var sjónvarpað tvo kvöld í viku og þá tvær til þrjár klukkustundir í einu.
1996 Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem stóð í rúman hálfan mánuð. Eldstöðin sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn saman í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mjög mannvirki. Er þetta talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld. Einungis, Kötlugos 1918, Heklugos 1947 og Surtseyjargos 1963, voru stærri en gosið.

Snjallyrðið
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Þó að liggi leið mín um langan veg
aldrei augnanna þinna eldi gleymi ég.

Þau minna á fjallavötnin fagurblá,
fegurð þá einn ég á.
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (Bláu augun þín)

Undurfagurt ljóð við eitt fallegasta dægurlag landsins á tuttugustu öld.