Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 september 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um William H. Rehnquist forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, sem lést í gær áttræður að aldri. Hann átti að baki merkilegan feril í réttinum, hafði setið þar í rúma þrjá áratugi og verið forseti hans í tæpa tvo áratugi. Hans verður minnst fyrir að hafa stýrt réttinum af krafti og hversu öflugur baráttumaður hann var fyrir þeim hugsjónum og grunngildum sem hann mat mest. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, minntist Rehnquist í dag í ræðu í Hvíta húsinu. Við sama tækifæri lýsti hann því yfir að hann myndi skipa eftirmann Rehnquists mjög fljótlega. Verður merkilegt að fylgjast með þeim breytingum sem verða á hæstarétti Bandaríkjanna við dómaraskiptin, en tvær dómarastöður eru lausar við réttinn nú. Það er eins og kunnugt er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti landsins. Með vali sínu getur Bush forseti því sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur í fjölda ára.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins. Páll Magnússon útvarpsstjóri, tók til starfa í vikunni og tjáði sig afdráttarlaust um mikilvægar breytingar á RÚV strax á fyrsta starfsdegi. Frumvarp menntamálaráðherra um stofnunina hefur tekið þeim breytingum að nú er gert ráð fyrir að RÚV verði gert að einkahlutafélagi en ekki sameignarfélagi eins og áður var stefnt að. Það gerist í kjölfar þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, gerði athugasemdir þess efnis að fyrri áætlanir myndu flokkist undir ríkisstyrki sem brjóti í bága við reglur á evrópska efnahagssvæðinu. Það er alveg ljóst að það stefnir í spennandi umræðu um fjölmiðla í þinginu í vetur.

- í þriðja lagi fjalla ég um borgarmálin, en það stefnir í spennandi leiðtogaeinvígi í stærstu flokkunum. Ánægjulegt er að sjá hversu Sjálfstæðisflokkurinn hefur góða stöðu í þeim skoðanakönnunum sem birst hafa eftir dauða R-listans. Það sannast þar að Sjálfstæðisflokkurinn getur náð meirihluta í borginni og mjög hagstæðum úrslitum sem leiða muni til breytinga í borginni – jákvæðra breytinga og uppstokkunar á fjölda lykilmála sem hafa dankast alltof lengi.