Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 september 2005

William H. Rehnquist
1924-2005


William Rehnquist (1924-2005)

William H. Rehnquist forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, lést á heimili sínu í Washington í gærkvöldi, áttræður að aldri. Hann hafði setið í hæstarétti frá árinu 1972 er hann var skipaður í réttinn af Richard Nixon þáv. forseta Bandaríkjanna. Ronald Reagan þáv. forseti Bandaríkjanna, skipaði hann forseta réttarins árið 1986 og gegndi Rehnquist því embætti allt til dauðadags. Óhætt er að segja að hann hafi sett mikið mark á hæstarétt Bandaríkjanna í þau 33 ár sem hann sat í réttinum og þá tvo áratugi sem hann leiddi réttinn. Hann sat í réttinum í forsetatíð sjö forseta Bandaríkjanna. Rehnquist hafði barist við skjaldkirtilskrabbamein í tæpt ár. Greindist hann með sjúkdóminn seinnihluta októbermánaðar 2004 og urðu veikindi hans til þess að umræða um skipan hæstaréttardómara varð áberandi á lokaspretti kosningabaráttu í forsetakosningunum 2004. Rehnquist neitaði þrátt fyrir veikindin að láta af embætti og var staðráðinn í að sinna vinnu sinni allt til loka. Allt fram að sumarleyfi réttarins í júlí mætti hann daglega til vinnu á skrifstofu sinni og vann sinn eðlilega vinnutíma, þrátt fyrir alvarleg veikindi og meðferðir við sjúkdómnum samhliða því. Hann sýndi styrk sinn og ákveðni í að sinna störfum sínum mjög vel er hann mætti við embættistöku George W. Bush forseta Bandaríkjanna, hinn 20. janúar sl. og las honum embættiseiðinn, þrátt fyrir að læknar höfðu ráðlagt honum annað.

William Rehnquist fæddist í Shorewood, úthverfi Milwaukee-borgar í Wisconsin-fylki hinn 1. október 1924, sonur millistéttarhjóna. Að loknu skyldunámi hélt Rehnquist í Kenyon-háskóla þar sem hann var í eitt ár. Að því loknu skráði hann sig í flugher Bandaríkjanna. Hann þjónaði í flughernum í seinni heimsstyrjöldinni árin 1943-1946. Að stríðinu loknu hóf hann nám í Stanford-háskóla og nam stjórnmálafræði. Árið 1950 hóf hann nám í Harvard-háskóla þar sem hann tók kúrsa í stjórnskipunarfræðum. Að því loknu hélt hann í lagadeild Stanford-háskóla og nam lögfræði. Hann útskrifaðist með fyrstu einkunn frá skólanum. Aðra einkunn það árið hlaut þrítug námsmær frá Texas að nafni Sandra Day O'Connor. Um tíma meðan á náminu stóð áttu þau í ástarsambandi og hélst vinátta þeirra allt til loka. Í 24 ár unnu þau saman í hæstarétti Bandaríkjanna, en Sandra sem tilnefnd var í réttinn af Reagan forseta árið 1981, baðst lausnar frá embætti sínu hinn 1. júlí sl. Eftir nám sitt var Rehnquist aðstoðarmaður Robert H. Jackson hæstaréttardómara, 1952-1953. Rehnquist starfaði sjálfstætt sem lögfræðingur árin 1953-1969. Það ár varð hann einn af lagalegum ráðgjöfum Nixons forseta og varð svo aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Í október 1971 skipaði Nixon hann til setu í réttinum og hann tók við embættinu hinn 7. janúar 1972.

William Rehnquist (1924-2005)

Það er óhætt að fullyrða að Rehnquist hafi átt merkilegan feril í embætti, þau 33 ár sem hann sat í hæstarétti Bandaríkjanna. Hann var ásamt Byron White andvígur úrskurði meirihluta hæstaréttar árið 1973 í hinu sögufræga máli Roe vs. Wade, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Rehnquist var mjög áberandi talsmaður íhaldssamra sjónarmiða sem dómari og var í fjölda ára leiðtogi þess hóps í réttinum. Hann leiddi tvö umfangsmikil mál sem voru í fjölmiðlum af miklum krafti undir lok embættisferils hans. Hið fyrra var ákæruréttarhöld yfir Bill Clinton forseta Bandaríkjanna, árið 1999. Rehnquist var þar í sögufrægu hlutverki við að leiða réttarhöld fyrir þinginu í máli gegn sitjandi forseta. Var það aðeins í annað skiptið í sögu landsins sem það gerðist. Hið fyrra skiptið var þegar að Salmon P. Chase leiddi sem forseti hæstaréttar, réttarhöld yfir Andrew Jackson forseta, árið 1868. Sem forseti hæstaréttar var Rehnquist í forsæti réttarhaldanna sem fram fóru eins og segir í stjórnarskránni um meðferð slíkra mála í sal öldungadeildarinnar. Var þetta sögufrægt mál og öll heimsbyggðin fylgdist í beinni útsendingu með réttarhöldunum yfir Clinton forseta. Líkt og Jackson var Clinton sýknaður af ákæruatriðunum en um var að ræða eitt mesta hitamál bandarískra stjórnmála á 20. öld og þáttur Rehnquists í réttarhöldunum mjög áberandi.

Seinna málið er svo auðvitað umfjöllun réttarins í deilumálunum sem vöknuðu vegna forsetakosninganna 2000. Deildu Al Gore og George W. Bush um úrslitin í Flórída-fylki í 36 daga vegna þess hversu naumt var á milli þeirra. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja þurfti atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar þar sem úrslitin réðust í raun í dómsalnum í Washington. Umfjöllun réttarins í því markaði söguleg þáttaskil. Dómur réttarins um að ógilda ekki fyrri niðurstöðu um ógildingu endurtalningar í Flórída tryggðu sigur George W. Bush í kosningunum. Rehnquist var forseti réttarins í 19 ár. Aðeins tveir sátu lengur á forsetastóli en hann, þeir Melville Weston Fuller og John Marshall. Það segir sig sjálft að þegar einstaklingar leiða starf jafnmikilvægrar stofnunar og hæstaréttar Bandaríkjanna jafnlengi og um er að ræða hafa þeir gríðarleg áhrif á allt starf og stefnumótun innanborðs. Varð Rehnquist fyrsti hæstaréttardómarinn í 52 ár sem lést í embætti, en Fred M. Vinson lést árið 1953.

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Hæstiréttur Bandaríkjanna er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að Rehnquist sat í réttinum í 33 ár. Sá sem lengst hefur nú setið í réttinum, John Paul Stevens, sem er 85 ára, tók þar sæti árið 1975. Aðeins einn þeirra er yngri en sextugur, Clarence Thomas, sem er fæddur árið 1948. Ekki hafði losnað sæti í réttinum í áratug, eða frá árinu 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer, er Sandra Day O'Connor tilkynnti um starfslok sín í júlí. Í þeim mánuði tilkynnti Bush forseti að hann hefði tilnefnt John G. Roberts í stað Söndru. Staðfestingarferlið vegna skipunar hans hefst formlega á þriðjudag. Eins og fyrr segir var Rehnquist lengi forystumaður íhaldssama hluta réttarins. Ásamt honum í þeim hluta voru Clarence Thomas, Antonin Scalia og Anthony Kennedy. Sandra Day O'Connor var svo þarna mitt inn á milli, var svokallað swing vote, en kaus þó oftast með þeim sem áður eru nefndir. Frægasta dæmi þess er auðvitað dómurinn vegna forsetakosninganna 2000, sem fyrr er nefndur.

Það verður nú verkefni George W. Bush forseta, að tilnefna eftirmann hins litríka William Rehnquist sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Það verður vandasamt verkefni að mínu mati. Verður merkilegt að sjá hvort hann velji einn af þeim sjö dómurum sem eftir eru í réttinum eða leitar út fyrir hann, eins og gerðist t.d. í vali á forvera Rehnquist á forsetastóli, Warren G. Burger, sem var forseti hæstaréttar á árunum 1969-1986 og setti mjög afgerandi mark sitt á réttinn rétt eins og eftirmaðurinn. Með vali sínu á Roberts og nú á nýjum forseta réttarins getur Bush forseti markað arfleifð sína með markvissum hætti. Það hefur ekki gerst í 33 ár að tveir dómarar hafi verið tilnefndir samhliða og staðfestingarferli í tvennu lagi fari fyrir þingið, sem staðfesta verður val forsetans. Það er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Með vali sínu getur forsetinn sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur. Verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu.

William Rehnquist (1924-2005)

En það er alveg ljóst að mikið verkefni bíður þess sem tekur við forsetastarfinu í réttinum af Rehnquist. Ekki aðeins sat hann lengi í embættinu og hafði mótað störf hans í huga svo margra, heldur var hann áhrifamikill talsmaður grunngilda að margra mati. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush forseti muni velja til að taka við leiðtogahlutverki þessa áhrifamikla dómstóls, sem stendur óneitanlega á nokkrum krossgötum samhliða forsetaskiptum og mannabreytingum í dómarasveitinni.

Saga dagsins
1969 Björgvin Halldórsson kjörinn poppstjarna Íslands - Björgvin varð einn helsti söngvari landsins.
1973 Bókstafurinn z var felldur úr opinberu máli, til dæmis úr embættisgögnum og kennslubókum.
1985 Flak skipsins Titanic sem fórst árið 1912, er kvikmyndað af dr. Robert Ballard, í fyrsta skipti.
1997 Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom til landsins til viðræðna við íslenska ráðamenn - Annan hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir umfangsmikil störf sín að friðarmálum árið 2001.
1998 Háskólinn í Reykjavík formlega stofnaður og settur í fyrsta skipti - hét áður Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Með nýjum háskólalögum Björns Bjarnasonar ári áður hafði tilvera skólans verið tryggð.

Snjallyrðið
Langt inn í gljúfrin lýsir dagsins sól,
þar lauga daggir stalla mosagræna
og þarna fá þau friðland sitt og skjól
hin fáu blóm, sem engum tekst að ræna.

Á bylgjum stormsins berast þangað fræ
frá brjóstum hinnar ljósu sumarnætur.
Í fylgsni þeirra festir aldrei snæ,
því funi jarðar vermir djúpar rætur.

Og þarna angar enn hið hvíta blóm,
og um það lykur þverhnípt hamraborgin,
þó böðlar jarðar búist fjallaskóm,
og bændur flytji grös á sölutorgin.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Langt inn í gljúfrin)