Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 september 2005

Punktar dagsins
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Páll Magnússon útvarpsstjóri, hefur komið sér vel fyrir á skrifstofu sinni í Efstaleitinu, en hann tók við starfinu í gær af Markúsi Erni Antonssyni sendiherra. Hann var ekkert að hika á fyrsta starfsdegi sínum og tjáði sig óhikað um það að breytingar verði að eiga sér stað á Ríkisútvarpinu. Í gærmorgun var hann gestur í merkilegu viðtali á Morgunvaktinni hjá Bergljótu Baldursdóttur. Í viðtalinu sagðist hann í raun spyrja sig að því hvort að það gæti verið að of lítill hluti af tekjum Ríkisútvarpsins skili sér til áhorfenda og hlustenda. Sagðist Páll ennfremur vilja að með nýjum lögum um Ríkisútvarpið verði hægt að stýra stofnuninni með skilvirkari hætti en áður. Hann sagðist engin vilyrði hafa fengið frá menntamálaráðherra um að rétta fjárhag stofnunarinnar en að margt í nýju lagaumhverfi, sem fyrir lægi í nýju frumvarpi menntamálaráðherra, myndi gera það að verkum að grunnur hennar breyttist og fersk sýn kæmi á stöðu mála. Fer Páll enn betur yfir afstöðu sína til breytinga í viðtali við Morgunblaðið í dag. Líst mér vel á skoðanir Páls og tel skipan hans í embættið marka þáttaskil hvað varðar ásýnd Ríkisútvarpsins. Það blasir við að stofnunin er að fara í gegnum mikið breytingaskeið samhliða útvarpsstjóraskiptunum. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum að undanförnu tel ég Pál vera réttan mann á réttum stað.

Ef marka má kvöldfréttir Ríkisútvarpsins í kvöld eru enn fleiri breytingar framundan á Ríkisútvarpinu. Blasir nú við að frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á RÚV verði breytt enn meir á næstu vikum, áður en Alþingi kemur saman að nýju eftir mánuð. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kynnti breytingatillögur á frumvarpi sínu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ef marka má kvöldfréttir RÚV eru uppi hugmyndir nú um að Ríkisútvarpinu verði breytt í einkahlutafélag. Það gerist í kjölfar þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, mun hafa gert athugasemdir við að stofnuninni yrði breytt í sameignarfélag, það rekstrarform sem fyrir lá í upphaflegu frumvarpi ráðherrans. Eins og öllum er kunnugt þótti okkur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna upprunalegt frumvarp vera slæm tíðindi og boða fátt gott, nema þá auðvitað endalok útvarpsráðs og ráðningar millistjórnenda hjá stofnuninni. Ennfremur urðu nokkur átök um frumvarpið fyrir þinglok í vor og frumvarpið endaði í umræðum í menntamálanefnd á síðustu dögum þingsins. Loks var ákveðið að salta það fram á haustið og taka það þá til umræðu samhliða væntanlegu frumvarpi um fjölmiðla í kjölfar skýrslu nefndar ráðherra um fjölmiðlaumhverfið. Eins og allir vita er það framhaldsferli á umdeildu fjölmiðlafrumvarpi sem forseti Íslands synjaði um staðfestingu sína sumarið 2004.

Við þinglok í sumar hafði meirihluti menntamálanefndar lagt til að ýmsar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu um RÚV. Var þar aðallega um að ræða breytingar á réttindamálum starfsmanna Ríkisútvarpsins og ákvæði um hlutverk hennar. Bæði þótti mjög óljóst í fyrra frumvarpi. Fagna ég því mjög að menn leggji fram breytingar á stöðu mála og fram komi marktækar breytingar sem laga helstu gallana á fyrra frumvarpi. Ef marka má fréttir mun frumvarpið verða lagt fram er þing kemur saman í næsta mánuði. Er jákvætt (það hlaut eiginlega að koma að því) að ESA (sem hefur verið að athuga málefni RÚV), sem hefur úrskurðað að afnotagjöldin margfrægu (og umdeildu) flokkist undir ólöglega ríkisstyrki, segi álit sitt á sameignarfélagsforminu og framundan séu þessar breytingar á frumvarpinu. ESA telur að sameignarfélagsformið flokkist undir ríkisstyrki sem brjóti í bága við reglur á evrópska efnahagssvæðinu. Sameignarfélag um Ríkisútvarpið myndi því flokkast undir ríkisstyrki í ljósi þess að ríkið beri ótakmarkað ábyrgð. Það feli t.d. í sér að ríkið yrði að taka á sig skellinn ef Ríkisútvarpið færi á hausinn einhverra hluta vegna. Því verða þessar breytingar að eiga sér stað. Eins og við blasir gilda allt aðrar reglur um ábyrgð af hálfu ríkisins ef um einkahlutafélag yrði að ræða.

Er þetta jákvæð breyting sem framundan er samhliða þessum breytingum. Verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni um breytingarnar á Ríkisútvarpinu í þinginu í vetur þegar málið verður þar rætt. Stjórnarandstaðan fann fyrri frumvarpsdrögum allt til foráttu og verður vissulega athyglisvert að heyra mat hennar á þessum breytingum þegar þær verða lagðar fram. En vissulega má búast við skoðanaágreiningi á stöðu og hlutverki RÚV samhliða nýju frumvarpi menntamálaráðherra er það fer fyrir þingið. Það sem er svo merkilegast núna að sjá er hvort frumvarpið um RÚV og nýtt fjölmiðlafrumvarp verði lagt fram algjörlega saman eða rætt að einhverju leyti aðskilið. Ef marka má fréttir í dag er frumvarp um fjölmiðla í samræmi við skýrslu fjölmiðlanefndarinnar ekki enn til en væntanlega verður stefnt að því að það verði þó rætt fyrir áramótin. Það er því algjörlega ljóst að spennandi umræða er framundan um málefni fjölmiðla í þingsölum á þingvetrinum.

Gamlar myndir

Á morgun er ár liðið frá sviplegu andláti Péturs Wigelund Kristjánssonar söngvara. Óhætt er að fullyrða að Pétur hafi á löngum ferli sínum í tónlistinni helgað sig henni algjörlega. Hann var án nokkurs vafa tónlistarmaður af guðs náð. Pétur var rokkari eins og þeir gerast bestir og engum Íslendingi auðnaðist betur að syngja t.d. smellinn ódauðlega Wild Thing. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði í hljómsveitinni Pops sem bassaleikari. Síðar varð Pétur helsti forystumaður í fjölda hljómsveita, nægir þar að nefna Paradís, Pelíkan, Náttúru, Svanfríði og Start. Hann átti mikinn fjölda ógleymanlegra smellna. Seinustu árin hafði Pétur helgað sig útgáfu tónlistar og sölu á vandaðri tónlist, fór hann um landið með tónlistarmarkað sinn og seldi góða tónlist. Var Pétur hafsjór af fróðleik um tónlist og margir sem leituðu til hans og keyptu af honum tónlist. Kynntist ég Pétri í gegnum tónlistina, fór jafnan á tónlistarmarkaði hans og keypti af honum tónlist og mat alltaf mikils gríðarlega þekkingu hans á tónlist. Mörgum sinnum áttum við innihaldsríkt spjall um sameiginlegt áhugamál: tónlist frá mörgum ólíkum hliðum. Hef ég alla tíð haft mikinn áhuga á góðri tónlist og var því hreint óviðjafnanlegt að leita til hans og versla af honum góða geisladiska.

Alla setti hljóða þegar fregnaðist af veikindum Péturs og síðar af ótímabæru andláti hans. Það var eflaust eins með mig og alla aðra sem eitthvað höfðu kynnst Pétri og rætt við hann að það var óraunverulegt að þessi kraftmikli og áberandi maður í íslensku tónlistarlífi á seinustu áratugum væri farinn með svo snöggum hætti. Er Pétur lést var hann rétt hálfnaður við að taka upp plötu með lögum Kim Larsen með íslenskuðum textum Kristjáns Hreinssonar. Það var sorglegt að hann náði ekki að klára plötuna með þeim hætti sem hann hafði stefnt að. Er hann lést stóðu aðeins eftir æfingaútgáfur laganna en það átti eftir að vinna útgáfurnar betur og taka þær með nákvæmari hætti. Ættingjar og vinir Péturs ákváðu að gefa út plötuna með þeim hætti sem eftir stóð er hann kvaddi þennan heim og fengu nokkra vini hans í lið með sér til að syngja nokkur lög í minningu hans. Ég keypti mér í vikunni plötuna sem hlotið hefur heitið Gamlar myndir. Á hljómdisknum eru 15 lög. Er merkilegt að hlusta á þennan disk. Mikil sál er í lögunum og það er vissulega mjög sérstakt að hlusta á lögin, vitandi það að þetta var það síðasta sem Pétur söng í hljóðveri. Best eru að mínu mati lögin: Gamlar myndir (Papirsklip - sem hefur lengi verið eitt af mínum uppáhaldslögum), Blómabörn, Augun himinblá og Nú er nóttin.

Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Kim Larsen og því er þessi hljómdiskur algjör perla í mínum augum - og eyrum :). Þetta er allavega ekta góð tónlist fyrir mig. Hef spilað diskinn fram og til baka - þetta er sannkölluð snilld. Ennfremur er hann verðugur minnisvarði um þann merka tónlistarmann sem Pétur W. Kristjánsson var. Það er við hæfi að minnast þessa góða tónlistarmanns með því að fá sér plötuna og koma sér í gott skap við ljúfa tóna meistara Kim Larsen, færða í undurfagran búning af Pétri. Blessuð sé minning þessa merka tónlistarmanns.

Kjell Magne Bondevik

Þingkosningar verða í Noregi þann 12. september nk. Skv. skoðanakönnunum í Noregi stefnir nú allt í að vinstristjórn komist til valda í landinu eftir kosningarnar, undir forsæti Jens Stoltenberg leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Það horfir því frekar þunglega í augnablikinu fyrir Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra, og hægristjórn hans, sem setið hefur nær óslitið frá árinu 1997. Stoltenberg var reyndar forsætisráðherra í rúmt ár, 2000-2001, en tapaði seinustu þingkosningum árið 2001. Seinustu vikurnar hefur reyndar munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar minnkað nokkuð. Skyndilega er orðinn fræðilegur möguleiki á því að Bondevik haldi völdum. Líkurnar á því minnka vissulega í ljósi þess að Carl I. Hagen og Framfaraflokkurinn vilja helst breyta til. Stjórnin hefur minnihluta á þinginu og þarf algjörlega að stóla sig á Hagen og flokk hans. Hætti hann stuðningi við stjórnina árið 2000 sem leiddi til falls hennar fram að kosningunum sem hægriflokkarnir unnu og mynduð var á ný stjórn í takt við fyrri hægristjórn. Búast má við spennandi lokaspretti í kosningunum. Átakapunktar eru á þá leið hvort Bondevik tekst það sem engum taldi að mögulegt væri fyrir nokkrum vikum: að stöðva sigurgöngu Stoltenberg. Bondevik hefur að flestra mati tekist að bæta verulega við sig og náð vopnum sínum. En nú er spurt: tekst honum að snúa stöðunni við? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Leikfélag Akureyrar

Fyrir tæpri viku kynnti Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri, vetrardagskrána hjá Leikfélagi Akureyrar. Stefnir í glæsilegt leikár í vetur að mínu mati - mjög metnaðarfullt að öllu leyti. Fjöldi góðra verkefna verða á fjölunum og áhugaverðar kvöldstundir eru því svo sannarlega framundan í vetur í gamla góða leikhúsinu okkar. Í fyrra var magnað leikár alveg, um það eru að ég tel allir sammála. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á síðasta leikári tókst að bæta rekstrarstöðu LA verulega. Var um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma var afgangur af rekstrinum. Með ráðningu Magnúsar Geirs í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Hátt í 17.000 manns sáu sýningar LA á síðasta leikári og var enginn vafi á því að söngleikurinn Óliver var aðalaðdráttaraflið síðasta vetur - komust færri að en vildu að lokum á þá frábæru sýningu. Í vetur eru framundan sýningar á borð við: Fullkomið brúðkaup, Litlu hryllingsbúðina og Maríubjöllu. Um verður einnig að ræða gestasýningar á borð við: Belgíska Kongó, Edith Piaf og Ævintýrið um Augastein. Það er enginn vafi á því að ég ætla að fá mér áskriftarkort og fylgjast vel með þessum góðu verkum í vetur. Þetta er of mikil freisting fyrir menningarpostula á borð við mig. :)

Reykjavíkurflugvöllur

Eins og vel hefur sést seinustu daga og ég fjallaði um í gær hér á vefnum hafa viss vatnaskil átt sér stað í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Sérstaklega verður þess vart í stjórnmálaumræðunni í borginni. Eins og allir sáu í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið hefur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, algjörlega umpólast í umræðunni um völlinn. Egill Helgason fjölmiðlamaður, lýsir þessu vel að mínu mati á vef sínum í dag. Þar segir hann: "Merkilegastur er þó viðsnúningur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem hefur algjörlega snúist hugur eins og Sál forðum á veginum til Damaskus. Vilhjálmur hefur alla tíð séð mikil tormerki á að flugvöllurinn fari, en vill nú helst losna við mannvirkið strax á næsta kjörtímabili. Hann hefur tekið forystu í málinu, er orðinn róttækari en allir aðrir. Þetta er að sönnu nokkuð óvænt." Tek ég undir þessi orð, get ekki annað en verið sammála Agli, aldrei þessu vant. Hef ég jafnan verið ófeiminn við að tjá mig um málefni flugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Í dag birtist ítarlegur pistill minn á vefritinu íhald.is þar sem ég tek þessi mál í ljósi umræðunnar á undanförnum dögum og vikum. Bendi lesendum á að líta á þau skrif.

Saga dagsins
1625 Gos hófst í Kötlu í Mýrdalsjökli með miklu vatnsflóði - Katla hefur ekki gosið allt frá árinu 1918.
1666 Bruninn mikli í London - mikill eldur kviknar í London sem verður að stórbáli sem barist er við í þrjá sólarhringa. Eyðilagði um 10.000 byggingar, t.d. St. Páls dómkirkju, 16 manns fórust í eldinum.
1945 Seinni heimsstyrjöldinni lýkur formlega er Japanar undirrita yfirlýsingu um algjöra uppgjöf sína.
1967 Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi vígð formlega - var önnur lengsta hengibrú á landinu, 110 metra löng. Með því komust Öræfingar loksins í fullkomið akvegasamband við aðra landshluta.
1973 J.R.R. Tolkien höfundur hinnar heimsfrægu Hringadróttinssögu, deyr í London, 81 árs að aldri.

Snjallyrðið
Vertu hjá mér, Dísa, meðan kvöldsins klukkur hringja
og kaldir stormar næða um skóg og eyðisand;
þá skal ég okkur bæði yfir djúpið dökka syngja
heim í dalinn, þar sem ég ætla að byggja og nema land.

Þó landið okkar, Dísa, sé vetrarörmum vafið,
þá veit ég, að þú hræðist það ekki að fylgja mér,
því senn mun vorið koma að sunnan, yfir hafið.
Ég sé það speglast, Dísa, í augunum á þér.

Og sólin bræðir fönnina af fjöllum og af engjum,
og fuglarnir - þeir syngja, og loftin verða blá,
og jörðin verður harpa með hundrað þúsund strengjum,
sem heilladísir vorsins í sólskininu slá.

Þá hlæja hvítir fossar, þá hljóma strengir allir;
þá hlýnar allt og brosir; þá fagna menn og dýr;
þá leiðast ungir vinir um vorsins skógarhallir;
þá verður nóttin dagur, - og lífið eitt ævintýr.

Og meðan blómin anga og sorgir okkar sofa
er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín,
og byggja sér í lyngholti lítinn dalakofa
við lindina, sem minnir á bláu augun þín.

Ég elska þig; ég elska þig og dalinn, Dísa
og dalurinn og fjöllin og blómin elska þig.
í Norðri brenna stjörnur, sem veginn okkur vísa,
og vorið kemur bráðum ... Dísa, kysstu mig
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Dalakofinn)

Sannkölluð perla í íslenskri ljóðlist - aðeins eitt orð er til yfir þetta ljóð. Þetta er snilld. Tært og fallegt ljóð - með því besta eftir meistara Davíð.