Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 október 2005

Michael Howard

Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur formlega beðist lausnar frá leiðtogastöðunni. Með því hefst formlega leiðtogaslagur innan flokksins. Howard sagði af sér formlega við lok flokksþing Íhaldsflokksins sem haldið hefur verið seinustu dagana í Blackpool. Nú þegar að Howard hefur formlega beðist lausnar getur ferlið við val á leiðtoga flokksins hafist formlega. Fimm hafa tilkynnt framboð til leiðtogastöðunnar og framundan er keppni þeirra á milli. Þar sem ekki náðist samstaða um að breyta lögum um vali á leiðtoga flokksins fer valið á eftirmanni Howards fram með sama sniði og var þegar að forveri hans á leiðtogastóli, Iain Duncan Smith, var valinn í leiðtogakjöri árið 2001. Það er með þeim hætti að þingflokkurinn kýs með útsláttarfyrirkomulagi á milli leiðtogaefnanna þangað til að tveir standa eftir. Um þá munu svo flokksmenn kjósa í póstkosningu. Duncan Smith sigraði Kenneth Clarke í slíkri kosningu en Michael Howard varð sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli árið 2003. Fram að sigri Duncan Smith hafði þingflokkurinn alfarið valið leiðtogann í kosningu innan sinna raða. Í aðdraganda þessa leiðtogakjörs beitti Howard sér fyrir því að reglunum yrði breytt í þá átt sem var fyrir leiðtogavalið 2001 en að lokum skorti á þá samstöðu sem til þurfti til að breytingarnar yrðu að veruleika.

Eins og vel hefur áður komið fram á vef mínum hafa fimm forystumenn breska Íhaldsflokksins lýst yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Þeir eru David Cameron, Kenneth Clarke, David Davis, Liam Fox og Malcolm Rifkind. Í vikunni hafa fimmmenningarnir haldið ræður á flokksþinginu í Blackpool og minnt á sig og áherslur sínar. Í aðdraganda flokksþingsins þótti Davis hafa yfirgnæfandi stöðu meðal flokksmanna á meðan að Clarke er vinsælli meðal allra landsmanna. Í kjölfar flokksþingsins þykir mörgum sem staða Davis hafi veikst mjög. Hann þótti flytja slappa ræðu og koma ekki nógu vel fyrir. Senuþjófar flokksþingsins þóttu vera Cameron og Clarke sem hlutu langmesta hylli flokksmanna. Þeir sem sátu flokksþingið klöppuðu mest fyrir Clarke, eða vel á þriðju mínútu. Margir telja þá vænlegustu kostina. Aldursmunurinn á milli þeirra er þó nokkur. Clarke er kominn vel á sjötugsaldurinn, er elstur leiðtogaefnanna, en Cameron er rétt um fertugt. Þau þáttaskil eru þó í þessu kjöri að þarna takast á nýji og gamli tíminn í breska Íhaldsflokknum - í fyrsta skipti í mörg herrans ár. Margir telja að flokkurinn sé að ganga í gegnum kosningu, ekki bara um stefnu sína og strauma, heldur um það í hvaða átt hann vilji sækja með nýjum leiðtoga. Hvort hann eigi bara að lúkka vel eða eigi að vera hugsjónapólitíkus.

Michael Howard mun gegna leiðtogastöðunni í breska Íhaldsflokknum allt til 6. desember nk. Þann dag munu úrslitin úr póstkosningunni milli tveggja efstu verða formlega kynnt. Howard hefur persónulega ekki gefið upp hvern hann muni styðja. Hann hefur verið lítið áberandi á flokksþinginu í Blackpool og lét sviðið að mestu eftir fimmmenningunum sem vilja taka sess hans í flokknum. Í gær, undir lok flokksþingsins, hélt hann þó lokaávarp þingsins og kvaddi með því eiginlega forystu flokksins með formlegum hætti áður en hann baðst formlega lausnar. Þar bjuggust margir við að hann myndi lýsa yfir stuðningi við einn í embættið og taka af skarið. Það gerði hann ekki. Howard skemmti hinsvegar þjóðinni og kandidötunum fimm með því að segjast lýsa því yfir hvern hann telji að ætti að leiða stjórnarandstöðuna. Frambjóðendurnir urðu við þessa yfirlýsingu vandræðalegir og töldu hann ætla að tala hreint út. Svipur þeirra breyttist úr örvæntingu í breitt bros þegar að Howard öskraði upp nafn Gordon Brown fjármálaráðherra, sem flestir telja að verði orðinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins, fyrir næstu þingkosningar og leiði flokkinn þá. Þessi brandari Howard mæltist vel fyrir. Í ræðunni sagðist hann ekki ætla að gefa út hvern hann myndi styðja en hann myndi styðja þann sem flokksmenn myndu velja í sinn stað.

Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrr á árinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, hefur gefið kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Hanna Birna, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur unnið í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og verið fulltrúi flokksins í borgarráði, skipulagsráði, menntaráði og hverfisráði Árbæjar. Hún hefur verið öflugur talsmaður Sjálfstæðisflokksins í skipulagsmálum, þeim málaflokki sem verður að öllum líkindum aðalmálefnið í komandi kosningum á næsta ári. Hanna Birna er mjög skipulögð og öflugur stjórnmálamaður sem verðskuldar stuðning í forystusveitina í þessu prófkjöri. Hef ég kynnst Hönnu Birnu vel í gegnum flokksstarfið, en hún hefur verið öflug í störfum sínum sem aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins og ennfremur verið kraftmikil í borgarmálunum, verið áberandi þar sem lykiltalsmaður mikilvægra málaflokka í nafni flokksins. Í gær fór ég suður til Reykjavíkur á fund og litum við Gunni saman í opnunarhóf kosningaskrifstofu Hönnu Birnu, sem er í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Var mjög ánægjulegt að líta þar við og ræða við fjölda góðs fólks sem þar var mætt til að lýsa yfir stuðningi sínum við Hönnu Birnu.

Við opnun kosningaskrifstofunnar var fólk úr ólíkum áttum innan flokksins og greinilegt að Hanna Birna hefur mikinn og öflugan stuðning. Í upphafi dagskrár fluttu Illugi Gunnarsson hagfræðingur, og Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, ávörp og kynntu persónuna og frambjóðandann Hönnu Birnu. Að því loknu ávarpaði Hanna Birna gesti sína og fór yfir áherslur sínar og málefni baráttunnar sem framundan er. Benti hún á póstkortin sem eru á skrifstofunni og með mynd af henni á. Þar er hægt að skrifa hugmyndir sínar að betri borg - áherslupunkta sem fólk vill koma með í baráttuna til handa Hönnu Birnu. Slagorðið á póstkortunum er viðeigandi: Hannaðu hugmynd handa Hönnu Birnu! Flott og snjallt slagorð á póstkortin. Að lokinni ræðu Hönnu Birnu tók söngvarinn Ragnar Bjarnason lagið. Söng hann nokkur af sínum góðu lögum við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar útvarpsmanns. Í einu laginu, Flottur jakki, fékk Raggi Bjarna góða og óvænta aðstoð. Bakraddir í laginu með honum tóku Hanna Birna, Ásdís Halla og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Fóru þær stöllur alveg á kostum og gestir höfðu gaman af þessu óvænta skemmtiatriði. Þetta var notaleg og góð stund á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu.

Ég hef bæði unnið með Hönnu Birnu í flokksstarfinu og fylgst með verkum hennar í borgarmálum seinustu árin - af miklum áhuga. Ég tel Hönnu Birnu Kristjánsdóttur verðskulda sess í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Það er skoðun mín að hún og Gísli Marteinn Baldursson eigi að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum - leiða flokkinn til sigurs. Skoðanakannanir sýna að flokkurinn er að uppskera vel og að meirihlutinn sé í augsýn í kosningunum. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn í Reykjavík tryggi Hönnu Birnu góða og öfluga kosningu í annað sætið. Ég óska henni góðs í prófkjörsbaráttunni og hvet flokksfélaga mína í borginni til að styðja Hönnu Birnu í annað sætið. Hanna Birna er skeleggur forystumaður í stjórnmálum - með því að kjósa hana til forystu eignast sjálfstæðismenn öfluga og glæsilega konu í forystusveit framboðslistans.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Mikið hefur síðasta sólarhringinn verið rætt og ritað í íslensku samfélagi um breskan dóm þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var dæmdur fyrir meiðyrði í garð Jóns Ólafssonar fyrrum athafnamanns hérlendis. Merkilegt er að sjá umfjöllun vissra blaða í málinu, en það segir sína sögu. Það er alveg klárt að mínu mati að það er aðför að tjáningarfrelsi á Íslandi ef breskur dómstóll hefur einhverja lögsögu yfir því hvað menn segja hér á landi um menn og málefni. Það er vissulega upphaf að þáttaskilum í almennu tali ef erlendur dómstóll getur dæmt í slíku máli með því tagi sem hér sést og með þessari niðurstöðu. Leitt hefur verið að sjá hvernig fjallað hefur verið um málið af pólitískum andstæðingum. Mat á málinu virðist hvað marga snertir snúast um persónu Hannesar og stjórnmálaskoðanir hans. Menn verða að skoða málið mun víðar en svo. Við verðum að lifa við tjáningarfrelsi, það að skerða það er aðför að tjáningu almennings. Það á ekki að skipta máli hversu vel okkur geðjast að Hannesi eða skoðunum hans heldur á að standa vörð um tjáningarfrelsi hans sem annarra, í þessari stöðu sem uppi er. Ég tek undir orð þeirra sem hafa talað með þeim hætti að fjarstæða sé að bresk lög gildi um það sem við segjum hér heima á Íslandi. Réttlætið á í þessu máli sem öðrum að koma að innan.

Samningur um sjónlistaverðlaun undirritaður

Í gær þegar ég fór á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu hitti ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og átti við hana mjög gott samtal. Hún var þá nýkomin með flugi frá Akureyri. Þar var hún viðstödd kynningu í Listasafninu hér á Akureyri á hinum Íslensku sjónlistarverðlaunum. Ræddum við það mál auk stjórnmálanna að sjálfsögðu, en þar er ávallt nóg um að vera. Auk hennar voru viðstödd þá athöfn: þau Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Valgerður Sverrisdóttir viðskiparáðherra, Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins, Páll Magnússon útvarpsstjóri, Áslaug Thorlacius frá SÍM, Páll Hjaltason frá FORM og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar. Listasafnið hér í bæ hefur haft forgöngu að veitingu verðlaunanna í samstarfi við Akureyrarbæ, menntamálaráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og Form Ísland - samtök hönnuða. Verðlaunin munu ekki einskorðast við myndlist eða svokallaðar fagurlistir heldur verða allar greinar sjónlista þar inni. Allar lykillistgreinar eiga orðið sínar uppskeruhátíðir og því gleðiefni að sjónlistir séu verðlaunaðar með verðskulduðum hætti.

Þinghúsið í Washington DC

Í gær var ár liðið síðan að þáverandi utanríkismálanefnd SUS hélt til Washington DC. Sú ferð var farin bæði í senn til að kynna sér Bandaríkin og bandaríska menningu og ekki síður bandarísku forsetakosningarnar fyrir ári. Þetta var ógleymanleg ferð og gríðarlega skemmtileg. Fór ég út í hópi góðs fólks og skemmtum við okkur öll mjög mikið. Í kjölfar ferðarinnar skrifaði ég um hana og það sem fyrir augu bar. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka ferðasöguna nú ári síðar. Því vil ég í tilefni þess að ár er liðið benda lesendum vefsins á þennan ítarlega pistil minn um ferðina.

Saga dagsins
1954 Minjasafn Reykjavíkur var stofnað - síðar var því skipt í tvennt: í skjalasafn og Árbæjarsafn.
1959 Bjarghringur úr danska skipinu Hans Hedtoft fannst rekinn í Grindavík - skipið hafði farist við Grænland 31. janúar sama ár og allir sem með því voru, 95 manns. Meira fannst úr skipinu síðar.
1992 Flóðljós voru tekin í notkun á Laugardalsvelli í Reykjavík, á landsleik Íslands og Grikklands.
2001 Bandaríkin ráðast inn í Afganistan í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, 11. sept. 2001.
2004 Bretinn Kenneth Bigley sem haldið hafði verið föngnum í Írak í nokkrar vikur, tekinn af lífi.

Snjallyrðið
Þó fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól
geta ekki fönnin og frostið
falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei
þó allt sé af gaddi hvítt,
því eldur brennur þar inni,
sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla,
þó hríðin byrgi sól,
fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Álfahóll)

Fallegt ljóð - með hjarta og sanna sál - eins og öll önnur ljóð meistara Davíðs frá Fagraskógi.