Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 febrúar 2006

Kristján Stefánsson (1920-2006)

Í dag kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju ömmubróður minn, Kristján Stefánsson, við fallega athöfn í Akureyrarkirkju. Sr. Svavar Alfreð Jónsson flutti góða minningarræðu um æviágrip og verk Kidda. Voru margir sem komu að jarðarförinni, enda hafði Kiddi eignast á lífsins leið gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks.

Í dag birtist minningargrein mín um Kidda í Morgunblaðinu og kveð ég hann þar með fyrir hönd fjölskyldu minnar. Það var napurt upp í kirkjugarði þegar að Kiddi var borinn til hvílu og kuldinn minnti okkur á að það er febrúar. Það er þó alveg snjólaust. Áttum við rólega og góða kveðjustund í kirkjugarðinum. Áður en ég fór þaðan fór ég að þeim leiðum sem mér tengjast og átti þar stutta stund með sjálfum mér. Allt frá bernskuárum mínum hefur Kiddi verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem hann hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína. Hann og Stína voru alla tíð mikil stoð fyrir okkur. Eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni.

Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Við leiðarlok kveð ég Kidda með virðingu og þökk fyrir allt sem hann var mér á ævi minni. Minningin um einstakan og traustan mann mun lifa í huga mér alla ævi.

stebbifr@simnet.is