Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Það styttist í lok prófkjörsbaráttunnar hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Eftir sex daga göngum við að kjörborðinu og kjósum forystufólk okkar hér í bænum næstu fjögur árin. 20 frambjóðendur eru í kjöri. Utankjörfundarkosning er þegar hafin. Hún mun standa allt til 9. febrúar. Hún fer fram hér á Akureyri að skrifstofu flokksins í Kaupangi við Mýrarveg: mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á milli kl. 16:00 og 18:00. Ennfremur er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll að Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, virka daga kl. 9:00-17:00. Ég vil hvetja námsmenn í borginni sem eru héðan frá Akureyri um að fara í Valhöll og greiða atkvæði - taka þátt. Ef fólk verður ekki heima um næstu helgi hvet ég alla til að fara í Kaupang á morgun og kjósa. Það er mikilvægt að flokksmenn greiði atkvæði og velji forystusveit flokksins í kosningunum í maí.

Mörgum finnst prófkjörsbaráttan hér litlaus og skal ég taka undir það. Þó hafa sumir verið í þessu af alvöru: auglýst og skrifað greinar. Er ég einn þeirra. Er ég í þessari baráttu af fullkominni alvöru. Ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum í mörgum verkefnum í rúman áratug, verið flokksbundinn frá 1993 og hef starfað í Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri um nokkurn tíma í forystusveit félaganna. Hef ég áhuga á stjórnmálum og því er það auðvitað sjálfsagt að skella sér í slaginn og láta á þetta reyna. Það er um að gera að taka þátt af þeim krafti sem á að einkenna starfið. Við erum þónokkur í þessum prófkjörsslag sem höfum verið í flokksstarfinu lengi og ennfremur er þarna fólk sem gekk í flokkinn fyrir örfáum vikum og sækist eftir efstu sætum í fyrstu atrennu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig lista flokksmenn velja.


Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sigraði með yfirburðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Nesinu í gær. Var sigur hans sérstaklega glæsilegur vegna þess að hann hlaut mótframboð í efsta sætið. Bjarni Torfi Álfþórsson bæjarfulltrúi, bauð sig fram í fyrsta sætið, en hafnaði í áttunda sætinu og er því á útleið úr bæjarstjórn Seltjarnarness. Var þetta í fyrsta skipti í bæjarmálunum á Seltjarnarnesi sem forystumaður flokksins hlaut mótframboð. Staða Jónmundar er mun sterkari nú en áður eftir þennan góða sigur. Jónmundur var kjörinn forystumaður flokksins í prófkjöri árið 2002 og tók við embætti bæjarstjóra af Sigurgeir Sigurðssyni sem verið hafði bæjarstjóri þar í rúma fjóra áratugi. Jónmundur hlaut 815 atkvæði í fyrsta sætið en rúmlega 1200 kusu í prófkjörinu. Hann hlaut því 2/3 greiddra atkvæða.

Í næstu sætum á eftir urðu Ásgerður Halldórsdóttir forseti bæjarstjórnar, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson og jöfn í næstu sætum urðu Sólveig Pálsdóttir og Ólafur Egilsson sendiherra. Bjarni Torfi stefndi hátt en varð fyrir miklum skelli og hlaut ekki nema rúmlega 30% atkvæða í fyrsta sætið. Hlýtur það að vera honum mikið áfall, rétt eins og sigurinn er mikill persónulegur sigur bæjarstjórans. Nú er prófkjörið að baki og sterkur listi kemur út úr því fyrir flokksmenn á Nesinu. Ég vil óska þeim góðs í kosningabaráttu næstu mánaða. Vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi vinna öflugan og góðan kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum 27. maí nk. og halda þeim sterka meirihluta sem flokkurinn hefur haft í tæplega hálfa öld.


Ein af helstu fréttum vikunnar er ráðning Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í ritstjórastól Fréttablaðsins. Það eru mikil þáttaskil að Þorsteinn Pálsson taki við forystusess á flaggskipi Baugsmiðlanna á prentmarkaði. Lengi hafði verið rætt um að hann yrði yfirmaður á Mogganum er Styrmir Gunnarsson myndi víkja af þeim stól. En það hljóta að teljast einhver mestu tíðindi fjölmiðlamarkaðarins hérlendis á seinustu árum að fjölmiðill í eigu Baugs hafi ráðið forvera Davíðs Oddssonar á formannsstóli til ritstjórastarfa. Þorsteinn var auðvitað fjölmiðlamaður til fjölda ára og er enn titlaður blaðamaður í símaskránni. Hann var ritstjóri Vísis í ein fjögur ár. Allavega var hann ritstjóri þegar að blaðið fjallaði af krafti um Geirfinnsmálið og lenti í miðpunkti þess er Ólafur Jóhannesson þáv. dómsmálaráðherra, úthúðaði blaðinu í frægri þingumræðunni.

Annars kemur þetta ekki á óvart. Ari Edwald, sem nú hefur tekið við yfirstjórn Baugsmiðlanna, var pólitískur aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar og vitanlega treystir hann honum manna best til verka. Það á greinilega að skerpa línurnar á Baugsmiðlunum. Merkilegast er þó að Styrmir og Þorsteinn stýri stærstu prentmiðlum landsins, tveim óskyldum blöðum. Það hefðu þótt mikil tíðindi fyrir nokkrum árum er Þorsteinn var einn af áhrifamönnum Sjálfstæðisflokksins. Það sést mjög vel á fréttum seinustu daga og bloggskrifum Samfylkingarþingmanna að Samfylkingarfólk er grautfúlt yfir Baugsmönnum þessa dagana. Það er skiljanlega fúlt þegar að liðið sem það hefur verið að "fíla í botn" hættir að veita þeim athygli. Skil mjög vel gremju þeirra, miðað við fyrri skrif og talsmáta sama fólks seinustu árin: allar strokurnar og klappið fyrir vissum mönnum. Það er ekki annað hægt en að hlæja að þessu öllu saman í raun og veru.

Það verður þó fyndnast af öllu að sjá Þorstein Pálsson og Sigurjón Magnús Egilsson setjast niður saman að búa til eitt stykki dagblað saman í boði Baugs og með Kára Jónasson með þarna mitt á milli. Hlakka til að sjá þetta blað sem kemur út úr þessu.

stebbifr@simnet.is