Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Þrír dagar eru í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hjá mér er allt á fullu nú seinustu dagana. Ég hef hringt mörg símtöl seinustu daga og unnið í því að allt mitt fólk sem ekki verður í bænum kjósi fyrir lok utankjörfundarfundarkosningar á morgun. Á lokasprettinum er í mörg horn að líta. Ég hef staðið sjálfur í hringingum, enda legg ég áherslu á að ég sjálfur standi í því að ræða við fólk. Það er mikil vinna auðvitað en mjög gefandi að mörgu leyti. Ég vil skiljanlega ræða persónulega við sem flesta - taka spjall um málefnin. Ætla að vona að ég nái að klára þetta verk fyrir lok baráttunnar. Ef það tekst ekki vil ég færa góðar kveðjur til allra flokksmanna með hvatningu um að kjósa á laugardag. Ég legg mikla áherslu á að kynna mig og verk mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Með það veganesti og svör við spurningum sem vakna kveð ég fólk.

Ég vil eiga notalegt og gott spjall við fólk og láta það íhuga hvernig það vill velja á listann eftir þá kynningu. Ég vil þakka kærlega þeim sem hafa hitt mig á förnum vegi og rætt við mig um slaginn fyrir góðar kveðjur og óskir. Hlýhugur allra er mér ómetanlegur! Stuðningur og góðvilji systkina minna og foreldra er mér ómetanlegur í þessum prófkjörsslag. Satt best að segja var það mér persónulega mjög mikilvægt að finna fyrir miklum stuðningi fjölskyldu minnar og finna baráttuandann meðal fólksins míns. Foreldrar mínir gengu í flokkinn í aðdraganda prófkjörsins - til að styðja mig. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir öll hvatningarorðin og stuðninginn. Pabbi og mamma eru kjarnafólk sem alltaf hafa stutt mig í mínum verkefnum. Þau eru mér ómetanleg. Þau þekkja mig best og persónu mína.

Mér er þakklæti efst í huga til allra sem hefur sýnt mér ástúð og kærleika í þessari prófkjörsbaráttu og í því sem ég hef staðið í seinustu vikur, bæði þessu kjöri og öðru sem gerst hefur. Hvernig svo sem prófkjörið fer mun ég ávallt meta mikils það að hafa kynnst nýjum vinum í slagnum og lært að meta enn betur vini mína og fjölskyldu - sem vilja styðja mig í mínum verkefnum. Sannir vinir eru einstakir. Allir sem hafa sent mér kveðjur - fólk um allt land - hefur öðlast ómetanlegan sess í huga mér. Þið eruð öll mér ómetanleg!


Mitt í önnum lokaslagsins er alveg með ólíkindum að sjá auglýsingu eins frambjóðanda í prófkjörinu í glugga við hliðina á Hamborg, aðstöðu flokksins í miðbænum. Ég hef satt best að segja ekki fyrr hugleitt að tala illa um meðframbjóðendur mína eða kosningabaráttu þeirra. Að mestu leyti er um að ræða hið besta fólk sem er tilbúið til að vinna flokknum okkar gagn með því að leggja á sig að gefa kost á sér í nafni hans. En það er ekki hægt annað en að tala um auglýsingar frambjóðandans í þessu tilfelli. Baldur Dýrfjörð sækist eftir þriðja sætinu í þessu prófkjöri eins og ég. Það er eiginlega fyrir neðan allt að hann skuli auglýsa í næsta húsi við aðstöðu flokksins og vekur miklar spurningar.

Ef marka má það sem ég hef heyrt í dag hefur Anna Þóra Baldursdóttir formaður kjörnefndar, kvartað yfir þessari auglýsingu. Er það ekki óeðlilegt. Veit ég ekki hvað frambjóðandinn gerir við kvörtunum kjörnefndar en satt best að segja hlýtur það að fara svo að hann taki auglýsingarnar niður. Um fátt hefur verið meira talað á lokasprettinum, enda er þarna gengið mjög langt að mínu mati. Þessar auglýsingar á þessum stað eru að mínu mati fyrir neðan öll mörk í þessum slag.

stebbifr@simnet.is