Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fer fram á morgun. Utankjörfundarkosningu er nú lokið og aðeins rúmlega 12 tímar þar til að kjörstaðir í Hamborg við Hafnarstræti 94 munu opna. Það styttist því óðum í úrslitastund í prófkjörinu - er því lýkur hefst næsta barátta. Hún er miklu mun mikilvægari en þessi. Kosningarnar í vor eru aðalmarkmiðið í mínum huga. Það verður gaman að taka þátt í þeirri baráttu við andstæðinga flokksins okkar. Hvernig svo sem þetta prófkjör fer mun ég vinna af krafti með flokknum í vor og taka þátt í því starfi sem mikilvægast er. Ég hef alltaf stutt Sjálfstæðisflokkinn - hann er mitt heimili í stjórnmálabaráttu. Því mun ekkert geta breytt.

Seinustu dagar hafa verið mjög annasamir. Ég hef upplifað það að vera þátttakandi í prófkjöri sé mjög tímafrekt. Þó er það mjög skemmtilegt verkefni. Það er í mörg horn að líta í slíkri vinnu - umfram allt er þetta gefandi vinna. Enda er gaman að tala við flokksfélagana og heyra í þeim hljóðið með stöðu mála og umfram allt heyra hvernig hjarta bæjarbúa slær í garð flokksins og stefnumálanna okkar. Símtölin sem ég hef átt við fólk hafa verið mörg en mjög ánægjuleg. Þegar að ég lauk við að hringja út síðdegis í dag komst ég að því að ég er einn hlekkur í stórri keðju. Þessi keðja er ótrúlega sterk og öflug. Það er mjög ánægjulegt að vera þátttakandi í þessum hóp - vera virkur þátttakandi í flokksstarfinu. Ég er stoltur af því.

Framundan er prófkjörsdagur hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Þá ræðst hverjir leiða lista okkar í vor. Hvernig svo sem kosningin fer mun ég gera allt mitt til að tryggja að 27. maí verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Umfram allt vona ég að morgundagurinn, 11. febrúar, verði sigurdagur Sjálfstæðisflokksins - flokkurinn sigri í þessu prófkjöri. Það er mikilvægast af öllu að við komum út úr því með sterkan og samhentan lista öflugs og góðs fólks - fólks sem er vinnusamt og samhent í því að vinna af bjartsýni og krafti fyrir flokkinn og grunnstefnu hans, sjálfstæðisstefnuna.

stebbifr@simnet.is