Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Tveir dagar eru í prófkjör. Eins og fyrr hefur komið fram er mjög mikið að gera hjá mér. Mikil vinna þessu tengd og í mörg horn að líta. Satt best að segja verð ég feginn eftir helgina að geta hugleitt annað en prófkjörið. Reyndar markar laugardagurinn í mínum huga upphaf kosningabaráttu flokksins. Þá eru rétt innan við 100 dagar í kosningar og lokabaráttan - sú mikilvægasta - tekur við af fullum krafti. Hlakkar mér mjög til þeirrar baráttu. Ég hitti eldri mann á Glerártorgi í dag og hann sagðist vera illa svikinn ef ég væri ekki afkomandi Stefáns Jónassonar. Sagði ég honum að svo væri og hann varð svo glaður við að sjá mig og hafði margar sögur að segja af þeim tíma er hann ungur vann hjá langafa. Margar skemmtilegar sögur sem gaman var að heyra. Hann ætlaði að styðja mig og var ekkert nema góðu orðin í minn garð. Mat mikils að heyra í honum, svo og öllum þeim sem ég hef hringt í seinustu dagana.

Nú var ég rétt áðan að koma af Hótel KEA. Þar var eini sameiginlegi fundurinn með okkur frambjóðendum. Þrír þeirra gátu ekki setið fundinn. Fyrirkomulagið var þannig að 10 spurningar voru settar upp og áttum við að svara tveim þeirra. Drógum við bæði um röð okkar og hvaða spurningar við myndum taka. Varð ég sjöundi í röðinni af okkur 17. Gekk fundurinn mjög vel - fjölmenni var og mjög áhugavert spjall sem við áttum við fólk bæði fyrir og eftir fundinn. Fundurinn var vel skipulagður af Gísla Aðalsteinssyni formanni málfundafélagsins okkar, Sleipnis. Vonandi er þetta aðeins gott og spennandi upphaf að ekta málfundum hjá Sleipni - hlakkar mér til spennandi málfunda um áherslur. Umfram allt lifandi og spennandi funda, svipuðum þeim og var fyrir viku. Gísli er að standa sig vel í uppsetningu svona funda að mínu mati. Fundinum var svo stjórnað með bravúr af Jónu Jónsdóttur varaformanni Varðar.


Fengum við semsagt 10 spurningar en ég dró upp þær sem voru nr. 2 og 6. Satt best að segja hefði ég mun frekar viljað nr. 1 og 3. Svaraði ég spurningunum fyrir fundinn en notaðist við punkta á fundinum til að fara eftir. Set ég hérmeð inn spurningarnar 10 og svörin við þeim öllum.


1. Ef ekki verður af því að álver verði reist á Norðurlandi á næstu árum, hvað eigum við Akureyringar þá að gera í okkar atvinnumálum?

Svar: Það er mjög mikilvægt að menn tryggji samstöðu um álver á Norðurlandi. Það er lykilatriði eins og staða mála er. Nú bíðum við dóms Alcoa um staðarval. Mikilvægt er að menn fari eftir því vali og horfi eftir það fram á veginn og tryggð sé samstaða og kraftur í kringum það val og framtíðin sé byggð upp eftir því mati. Er það von mín að fólk sameinist um valið í byggðum Norðurlands - sú samstaða er mikilvæg eigi okkur að auðnast að tryggja stóriðju, sem almenn sátt virðist að mestu um. Beri okkur ekki gæfa til að ná samstöðu og tryggja þessu uppbyggingu verðum við að styrkja þær stoðir sem við höfum til staðar.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum - búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum.

Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott - notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.


2. Er fíkniefnamisnotkun ungmenna verulegt vandamál á Akureyri? Ef svo er hvað vilt þú þá að bæjarstjórn geri í málinu?

Svar: Ég tel já að fíkniefnamisnotkun í bænum sé mikið vandamál. Við sáum vel í fyrra að staðan er slæm. Hinsvegar brugðust bæjarbúar við þeirri ógn með samhentum og öflugum hætti. Við lyftum upp rauða spjaldinu gegn dópdraugnum í aprílmánuði í fyrra og náðum athygli allra landsmanna - við sögðum skoðun okkar og það án orða og af miklum krafti. Við getum verið stolt af því, enda náðum við athygli annarra í þeim táknrænu mótmælum. Aukin fíkniefnaneysla ungs fólks er vissulega mikið áhyggjuefni sem verður að taka á af festu. Það vinnst ekki nema með samhentu átaki bæjaryfirvalda, stofnana, einstaklinga, yfirvalda og samtaka.

Aðkoma foreldra skiptir líka mjög miklu máli. Engin ein allsherjarlausn er til á málinu - ef hún væri til væri búið að leysa þennan vanda. En vandinn er til staðar en lausnin fellst í samhentum viðbrögðum fyrrnefndra aðila og því að samfélagið viðurkenni vandann og horfist í augu við hann. Það er lykilatriði að við náum tökum á þessum vanda.


3. Ef þú ættir að velja aðeins eitt atriði til að bæta grunnskóla bæjarins hvað mundirðu þá vilja gera?

Svar: Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val - val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti. Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum.

Ég vil feta í sömu átt - ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!


4. Telur þú það eigi að nota þær heimildir sem að bæjarstjórn hefur til að gera skoðanakönnun meðal íbúa samhliða sveitarstjórnarkosningum? Ef svo er hvaða málefni ættu þá erindi í slíka skoðanakönnun og hvaða málefni ættu ekki erindi?

Svar: Já það tel ég. Það mætti til dæmis íhuga mörg málefni sem gætu verið sett í dóm íbúa sveitarfélagsins. Sérstaklega tel ég mikilvægt að hafa þar í huga skipulagsmál. Oft á tíðum er deilt harkalega um skipulagsmál og sitt sýnist hverjum. Enda eru skipulagsmál sá málaflokkur sem flestir takast á um oftast nær. Mjög oft er um að ræða mál sem skerst þvert á pólitískar línur almennt og samstaða ekki um aðgerðir í málum eftir einföldum flokkslínum.

Verði deilur miklar um mikið hitamál tel ég vænlegt að leggja málið í dóm fólksins: fá þeirra mat. Það er í sjálfu sér eðlilegt að leita til íbúa í þeim tilfellum og láta þá skera úr um slík hitamál með atkvæði sínu. Vilji meirihlutans ræður þá för.


5. Ef þú gætir valið eitthvað eitt til að gera skipulagsmál bæjarins betri en þau eru í dag hvað mundirðu þá helst vilja ná fram?

Svar: Ég tel mjög mikilvægt að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu. Þar eru lykilsvæði sem gott er að byggja á og það á að gera að mínu mati. Það er það mál sem ég tel helst blasa við og skipta máli. Fagna ég niðurstöðum íbúaþingsins í september 2004 og tillögum yfirvalda um nýjan miðbæ sem nú bíða afgreiðslu. Ef marka má þær munu um 330 íbúðir verða reistar á miðbæjarsvæðinu Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika. Skiptir að mínu mati höfuðmáli að vinna vel að því að endurskipuleggja hjarta bæjarins okkar, miðbæjarins. Það er forgangsmál!


6. Á Akureyrarbær að selja hlut sinn í Landsvirkjun? En hvað með Norðurorku?

Svar: Tel ég rétt að sveitarfélögin fari með formlegum hætti úr rekstri Landsvirkjunar og selji hlut sinn. Viðræður voru við okkur hér á Akureyri og í Reykjavík um þessi mál en þeim viðræðum var slitið nýlega vegna þess að R-listinn sálugi, sem geispaði golunni síðastliðið sumar en stjórnar enn eins og vofa, gat ekki náð samstöðu um málið. Tel ég mikilvægt að þetta mál verði klárað með ábyrgum og öflugum hætti á næsta kjörtímabili. Ætti það að verða auðveldara eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við völdum í Reykjavík og Vilhjálmur Þ. verður orðinn borgarstjóri. Ég tel ekki rétt að Akureyrarbær selji hlut sinn í Norðurorku.


7. Hvernig á fyrirkomulag sorpmála á Akureyri að vera í framtíðinni?

Svar: Mikilvægt er að sveitarfélögin í Eyjafirði komi sér sem fyrst saman um framtíðartilhögun í sorpmálum. Það er að mínu mati lykilatriði á næsta kjörtímabili. Samkomulag um þessi mál verður að koma til sem allra fyrst. Tel ég mikilvægast að leggja áherslu á samkomulag í þessum efnum og tel vænlegast að gera ráð fyrir byggingu förgunar- flokkunar- og mótttökustöðvar fyrir sorp allra Eyfirðinga. Ég tel að hugi beri því að sorpbrennslu.


8. Af hverju á Akureyrarbær að styrkja íþróttafélög? Þarf að breyta einhverju í samskiptum íþróttafélaga og bæjarins?

Svar: Það er mikilvægt að tryggja faglegt og umfram allt öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að bæjaryfirvöld tryggi góðan grundvöll fyrir íþróttastarfsemi. Íþróttir- og tómstundaiðkun er fólki nauðsynleg og það er mikilvægt að öflugt starf íþróttafélaganna sé tryggt. Það er mikilvægt að hlúa vel að íþróttastarfi og tryggja að það sé alltaf blómlegt.


9. Ef þú ættir að velja eitt atriði til að bæta hag aldraðra Akureyringa hvað myndir þú þá helst vilja gera?

Svar: Fyrst og fremst þarf ávallt að hlúa vel að öldruðum. Það er og verður alltaf lykilmarkmið. Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili.

Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar - tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar. Tryggja hag þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í - samfélag tækifæra nútímans.


10. Á Akureyrarbær að leita eftir að taka við frekari verkefnum frá ríkisvaldinu? Ef svo er hver ættu þau verkefni þá að vera?

Svar: Huga mætti að því að sveitarfélögin tækju yfir rekstur framhaldsskólanna. Ennfremur mætti íhuga t.d. að sveitarfélagið ræki Akureyrarflugvöll. Endalausar pælingar vakna í mínum huga, en þær eru mun víðfeðmari en til næsta kjörtímabils.

stebbifr@simnet.is