Hlýleg og öflug ræða litríks leiðtoga
Það var fjölmenni á góðum fundi í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Akureyri á fimmtudagskvöldið. Þetta var öflugur og góður fundur eins og ég sagði frá hér á vefnum í gær. Að mínu mati stóð þar upp úr einn maður og ræða hans. Halldór Blöndal er maður sem við öll hér virðum - við virðum hann fyrir verk sín og forystu í þágu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og bæði í Norðurlandskjördæmi eystra og Norðausturkjördæmi. Á fundinum fór Halldór yfir stjórnmálaástandið og vék að úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins hér í bæ fyrir tæpum mánuði. Þótti mér það í senn notalegt og mikið gleðiefni að Halldór skyldi þar víkja að hlut unga fólksins og hvetja okkur til að sækja fram af krafti í kjölfar úrslitanna og nota þau sem lærdóm og lexíu á pólitískri vegferð. Fannst mér ræða hans bera af öllum öðrum þetta kvöld. Hann er reynslumikill stjórnmálamaður - talar af festu og krafti til félaga sinna og stuðningsmanna.
Halldór er heiðursfélagi í Verði og var sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004. Þá nafnbót átti Halldór svo sannarlega skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur verið í pólitík af miklum krafti og hefur haft mikla reynslu fram að færa í allt okkar starf. Við metum enda hann og verk hans mikils. Hann er leiðtogi í okkar hópi - leiðtogi sem gustar af og öllum þykir vænt um. Halldór snertir streng í brjósti okkar með krafti sínum og litríkri forystu. Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því.
Hefur Halldór Blöndal verið farsæll í sínum verkum hér - sinnt forystustörfum og unnið í umboði okkar hér mjög lengi. Hann sat á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Stjórnaði Halldór Alþingi af krafti þau sex ár sem hann gegndi forsetastörfum þar. Hann vann að því að efla virðingu og kraft þingsins sem stofnunar. Honum var mjög umhugað um virðingu þingsins, sást það vel er forseti Íslands synjaði lagafrumvarpi eins og frægt varð.
Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. En hann er mikill karakter, sennilega sá öflugasti sem flest okkar í flokksstarfinu hér nyrðra höfum kynnst. Hann er leiðtogi.
Þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans. En ég vil þakka Halldór fyrir ræðuna hans á fimmtudagskvöld. Hún færði mér kraft og styrk til komandi verkefna og hann kom á staðinn og talaði með öflugum hætti til okkar allra - færði okkur ungliðunum kraft eftir prófkjörshasarinn og það sem á eftir fylgdi. Hann kom sem sannur leiðtogi og flutti okkur heilsteyptan og kjarnyrtan boðskap og færði okkur styrk og festu í starfið sem nú tekur við eftir að listinn okkar er til.
Halldór talaði af festu og líka með mannlegum hætti. Hann talaði um fráfall móður formanns Sjálfstæðisflokksins og ferð varaformanns okkar til Indlands í stað formannsins með fallegum hætti, vék að komandi verkefnum og hvatti svo okkur ungliðana til dáða, verandi heiðursfélagi okkar í Verði. Fannst mér reyndar mjög gaman af því að hann talaði um okkur unga sjálfstæðismenn og setti sig bæði í spor okkar og talaði til okkar með föðurlegri leiðsögn sem ég met mikils. Halldór var stjarna fundarins að mínu mati. Helgi Vilberg ritstjóri Íslendings, tók upp meginpart ræðunnar og hefur sett á Íslending. Það er ómetanlegt að eiga þessa myndklippu af ræðunni hans Halldórs. Ég vil hvetja lesendur til að líta á þessa góðu klippu.
Ræða Halldórs Blöndals - 2. mars 2006
<< Heim