Samfylkingin guggnar á framboði á Dalvík
Lengi hef ég fylgst af áhuga með bæjarmálunum á Dalvík. Þar hóf ég enda beina þátttöku í pólitík fyrir rúmum áratug og fetaði mín fyrstu skref í pólitísku starfi Sjálfstæðisflokksins. Þekki ég enda vel bæði aðalleikarana í pólitíkinni þar og ekki síður þá sem vinna bakvið tjöldin í flokkunum þar. Þar virðist stefna í mikla uppstokkun í bæjarmálum fyrir komandi kosningar og er nú þegar t.d. ljóst að vinstriflokkarnir bjóða þar ekki fram með neinum hætti. Það vakti athygli mína fyrir nokkrum vikum að tilkynnt var að Svanfríður Jónasdóttir fyrrum kennari og alþingismaður, myndi leiða framboðslista í nafni Samfylkingarinnar og óháðra og að Marinó Þorsteinsson bæjarfulltrúi minnihlutans, myndi verða í öðru sætinu. Þetta var ákvörðun félagsfundar í Samfylkingunni í Dalvíkurbyggð að því er fram kom í umfjöllun á þeim tíma og því hafði ákvörðun um framboð undir S-listabókstaf flokksins verið ákveðið.
Í dag heyrði ég af því að ákvörðun hefði verið tekin að Samfylkingin myndi ekki bjóða fram í sínu nafni í kosningunum í vor í Dalvíkurbyggð. Þess í stað hefur verið gengið frá skipan framboðslista sem ber listabókstafinn J. Tíðindin við hann eru nokkur í augum þeirra sem þekkja stjórnmálin í Dalvíkurbyggð og hafa tekið þátt í flokkspólitísku starfi þar. Það er að vístu að gerast enn eina ferðina (sennilega fjórðu kosningarnar í röð) að ekki eru framboð vinstriflokkanna beint í boði. En nú er ekki heldur um að ræða hreint vinstraframboð. J-listinn er enda skv. yfirlýsingu sem birt hefur verið algjörlega óháður þeim stjórnmálaflokkum sem bjóða fram á landsvísu. Það er ennfremur tekið skýrt fram að engin stjórnmálasamtök eða flokkar standi að J-listanum. Þetta eru mikil tíðindi, enda hafði fyrr verið boðað að Samfylkingin byði fram undir forystu Svanfríðar. Ofan á allt annað er allt önnur manneskja en Marinó sem fyrr er nefndur og hann kominn í það þriðja. Þetta eru kostulegar breytingar óneitanlega.
Svanfríður Jónasdóttir hefur verið áberandi í stjórnmálunum á Dalvík mjög lengi, löngu áður en ég man eftir mér þar. Fyrst þegar að ég kynntist henni um miðjan níunda áratuginn var hún kennari - enginn venjulegur kennari heldur kennari með mjög afgerandi pólitískar skoðanir. Hún var virk í bæjarpólitíkinni samhliða störfum sínum og var skömmu síðar farin burt frá Dalvík - orðin varaformaður Alþýðubandalagsins og varð pólitískur aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu 1988-1991. Þá kom hún aftur norður og tók til við að kenna aftur í Dalvíkurskóla. Svanfríður var orðin breytt við heimkomuna, hún hafði misst varaformannsstólinn í hörðum varaformannsslag við Steingrím J. og hafði vikið af braut samstarfs við hann í Norðurlandskjördæmi eystra. Er hún kom aftur fór hún að kenna ensku og sögu í skólanum. Heimavöllur Svanfríðar var að mínu mati alla tíð kennslan. Hún var mjög góður kennari og er flestöllum sem hún kenndi eftirminnilegust sem slík.
Eftir að ég hafði yfirgefið Dalvíkurskóla og haldið á brott kom Svanfríður aftur í stjórnmál. Hún leiddi I-lista vinstrimanna vorið 1994 í kosningum á Dalvík. Hún varð forseti bæjarstjórnar að kosningunum loknum og ári síðar varð hún alþingismaður kjördæmisins fyrir Þjóðvaka, sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur. Fjórum árum síðar leiddi hún framboðslista Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi eystra. Það voru mikil læti þá innan Samfylkingarinnar í kjördæminu en Svanfríður náði kjöri en Samfylkingin hlaut mun minna fylgi í NE en VG. Svanfríður tilkynnti svo mörgum að óvörum sumarið 2002 að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í þingkosningum árið eftir í nýju kjördæmi. Síðan hefur lítið farið fyrir henni í pólitík en undir lok ársins 2004 þegar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar sprakk vegna skólamála að Húsabakka kom til tals að hún yrði bæjarstjóri í nýjum meirihluta. Svo fór að meirihlutinn var endurreistur og ekki varð Svanfríður bæjarstjóri þá.
Ef marka má yfirlýsingu J-listans er Svanfríður bæjarstjóraefni listans að þessu sinni. Er það svosem engin stórtíðindi að svo sé, enda hefur Svanfríður lengi verið virk í bæjarmálum á Dalvík og fyrr verið nefnd sem bæjarstjórakandidat vissra afla. Tíðindin eru þau að Samfylkingin leggur ekki í framboð. Hér er með afgerandi hætti því lýst yfir að fyrrum leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu sé að leiða lista sem sé þverpólitískur og með engar tengingar til stjórnmálaflokkanna. Þetta eru merkileg þáttaskil sem eru verða í pólitíkinni útfrá og satt best að segja varð ég að spyrja Kristján Þór að því á málefnafundinum í kvöld hvað væri að gerast útfrá. Það er alveg ljóst að ég verð að líta í kaffi til Svönsu vinkonu minnar um helgina og fá að heyra meira af stöðu mála útfrá. Það er hinsvegar ljóst að stutt er í að framboðslisti okkar sjálfstæðismanna útfrá liggi fyrir.
Það verður væntanlega spennandi kosningabarátta útfrá í vor og ætla ég mér að fylgjast vel með henni, enda þekki ég alla þá sem í forystusveit flokksins þar mjög vel og hef unnið með flestu af því fólki í pólitík. En það er fróðlegt að Svanfríður leggi ekki í framboð fyrir flokk og leiði framboð sem afneitar með öllu einum flokki og einni stefnu, heldur er í framboði algjörlega á eigin vegum. Þetta hefðu mér einhverntíma þótt tíðindi allavega, en kannski er eitthvað annað og meira að gerast í pólitíkinni útfrá en það að Samfylkingin komi ekki saman neinum lista á eigin vegum. Merkilegt, segi ekki meira en það.
<< Heim