Spennandi verkefni framundan
Vika er nú liðin síðan að ég hóf störf í Kaupangi. Það hefur verið góður tími. Næg verkefni blasa við næstu vikurnar og það er mjög áhugavert verkefni að vinna í því sem framundan er. Seinustu dagana hef ég verið á fullu að vinna að því að öll grunngögn kosningabaráttunnar séu í lagi og málefnavinnan hefur einnig verið fyrirferðarmikil seinustu vikuna. Við erum því komin á fullt í baráttunni og fullt af verkefnum sem ég hef verið að huga að þessa fyrstu viku sem ég hef verið þarna. Fullt af fólki hefur litið við og það er alltaf kaffi á könnunni og ávallt gaman að ræða við þá sem líta við. Bæjarmálin eru heit í umræðunni skiljanlega núna. Rætt er um skipulagsmálin af miklum hita út um allan bæ og svo eru auðvitað framboðslistarnir að taka á sig endanlega mynd. Nú hafa fjögur af fimm núverandi framboðum gengið frá skipan á lista sína í kosningunum í vor. Hin eiginlega kosningabarátta hefst af miklu krafti bráðlega.
Þessa fyrstu viku hef ég verið í góðu sambandi við það úrvalsfólk sem vinnur fyrir sunnan í Valhöll. Flestöll hafa þau haft samband og fært mér góðar kveðjur og við kortlagt verkefnin framundan. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra í Óskari Friðrikssyni, sem hefur með miklum krafti stýrt utankjörfundarkosningunni af hálfu flokksins í marga áratugi og leitt þau mál sem því fylgja. Óskari kynntist ég fyrst fyrir tíu árum. Þá var ég ungur framhaldsskólanemi hér á Akureyri sem vildi styðja Pétur Kr. Hafstein í forsetakosningum. Ég hringdi suður í aðalkosningaskrifstofuna hans Péturs í Borgartúni og bar upp erindi mitt um að ég vildi styðja hann og gerast meðmælandi. Óskar varð fyrir svörum. Honum leist það vel á mig að ekki aðeins varð ég meðmælandi heldur var ég settur í það verkefni að safna meðmælendum hér fyrir norðan og fyrr en varir var ég kominn í innsta kjarnann í starfinu hér á Akureyri og vann við mörg verkefni á kosningaskrifstofunni.
Þarna kynntist ég kjarna kosningabaráttu vel og síðast en ekki síst kynntist góðu fólki. Óskar er mikill kostamaður og alltaf gaman að ræða við hann. Hann var greinilega ánægður með að ég hefði verið settur til verka hérna á skrifstofunni og við ræddum heillengi um hvað væri framundan og ekki síður fyrri daga í kosningabaráttu. Fórum við m.a. að ræða kosningabaráttu almennt hér í Norðausturkjördæmi og Óskar var með mörg góð ráð og skemmtilegar sögur að segja sem fyrri daginn. Óskar er flokknum mikilvægur og oft hefur hann verið kletturinn í að tryggja að allt okkar fólk kjósi og haldið svo vel utan um það að við í flokknum getum aldrei með fullnægjandi hætti heiðrað hann og verk hans í þágu flokksins. Svo ræddi ég við þær Petreu og Bryndísi og sem fyrr gaman að tala við þær og greinilega voru þær ánægðar með að ég væri kominn þarna til starfa. Það er gott og heilsteypt fólk sem heldur utan um málin fyrir sunnan og heiður að vinna með svona góðu fólki.
Í kvöld var langur og góður málefnafundur hjá okkur. Það er góð stemmning í hópnum og vinnan er skemmtileg og ekki síður gagnleg. Gott fólk leiðir hópana og við erum samhent í vinnunni. Fundurinn okkar í kvöld sannfærði mig um það að þessi kosningabarátta verður lífleg og skemmtileg. Fullt af góðum hugmyndum komu fram um seinustu helgi og vinnan heldur áfram af krafti. Um næstu helgi er ferðinni heitið út í Hrísey og þar ætlum við okkur að eiga góðan og skemmtilegan dag með mætum flokksfélögum út í eyju. Ég var reyndar fyrst núna að koma heim eftir langan dag upp í Kaupangi, hef verið þar frá klukkan hálf níu í morgun. Næg verkefni og skemmtileg vinna framundan. Það er alltaf gaman að vera þátttakandi í kosningabaráttu. Ég finn það að þessi hlið kosningabaráttunnar er ekki síður mikilvæg en hin og ég tel að mínir kraftar fái góðan vettvang til verka í þessari kosningabaráttu.
Saga dagsins
1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups - hann var biskup frá 1203.
1940 Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf lést, 81 árs að aldri - Selma varð bæði ein af virtustu og þekktustu rithöfundum Norðurlanda og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst kvenna, árið 1909.
1976 Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti og tilkynnir ennfremur að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Kom tilkynning hans öllum að óvörum, aðeins fimm dögum eftir sextugsafmæli hans. Wilson hafði þá verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins í 13 ár og var forsætisráðherra 1964-1970 og aftur frá 1974. Hann var sigursælasti leiðtogi breskra vinstrimanna á 20. öld, ásamt Tony Blair. Eftirmaður hans í embætti varð James Callaghan og var við völd í 3 ár.
1978 Aldo Moro leiðtoga kristilega demókrataflokksins og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rænt af Red Brigade, hópi öfgasinnaðra vinstrimanna. Moro var forsætisráðherra Ítalíu 1963-1968 og 1974-1976. Moro var haldið föngnum af samtökunum í 55 daga, þar til þau drápu hann. Lík hans fannst í maí 1978.
1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af íslenska ríkinu - endurbótum lauk þar formlega á árinu 1988.
Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)
<< Heim