Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 mars 2006

Slobodan Milosevic látinn

Slobodan Milosevic

Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, lést í gærmorgun í fangaklefa sínum í Haag í Hollandi. Hann hafði verið látinn í nokkrar klukkustundir er fangaverðir vitjuðu forsetans fyrrverandi í klefanum klukkan 9:14 að staðartíma. Tilkynnt var formlega um látið í hádeginu að íslenskum tíma. Milosevic hafði verið staddur þar í tæp fimm ár og komið margoft fyrir rétt seinustu árin, sakaður af stríðsglæpadómstólnum um stríðsglæpi og þjóðarmorð í valdatíð sinni. Flest bendir til þess að Milosevic hafi orðið bráðkvaddur, en hann hafði seinustu árin verið hjartveikur og með of háan blóðþrýsting. Rannsókn er hafin á dauða hans og krufning fer fram í dag til að skera endanlega úr um hvert banamein hans hafi verið.

Slobodan Milosevic fæddist þann 20. ágúst 1941 í bænum Pozarevac í Júgóslavíu, og var því 64 ára er hann lést. Hann gekk í Kommúnistaflokk Júgóslavíu árið 1959 og starfaði þar alla tíð af krafti og komst ungur í fremstu víglínu flokksins. Í kjölfar dauða einræðisherrans Títós árið 1980 komst Milosevic til æðstu valda í landinu. Hann varð pólitískur lærisveinn Ivan Stambolic, sem var formaður kommúnistaflokksins 1984-1986 og forseti Serbíu 1986-1989. Síðar sinnaðist þeim og hann var myrtur árið 2000. Grunur hefur alla tíð leikið á því að Milosevic hafi átt þátt í dauða hans og jafnvel fyrirskipað hann. Milosevic varð eftirmaður Stambolic sem leiðtogi flokksins og sat á þeim stóli á árunum 1986-1989 og byggði upp völd sín með klækjum og brögðum.

Slobodan Milosevic varð forseti Serbíu eftir að Stambolic var hrakinn frá völdum og sat á forsetastóli Serbíu á árunum 1989-1997. Á þeim tíma varð hann aðalmaðurinn að baki ófriðnum sem ríkti á Balkanskaga mestan hluta tíunda áratugarins. Júgóslavía klofnaði upp í smærri fylkingar og ófriður og vargöld urðu einkunnarorð svæðanna. Mannskætt stríð ríkti og Milosevic réðst að nágrönnum sínum og fyrrum bandamönnum með vægðarlausum hætti. Hann var aldrei feiminn við það að ganga frá eða svíkja samherja sína. Jafnvel nánustu bandamenn hans gátu átt von á því að hann myndi snúa við þeim baki ef það hentaði honum svo. Að því kom að hann varð að láta af forsetaembætti Serbíu við lok seinna tímabils síns árið 1997.

Svo fór að hann tók helstu völd fyrrum embættis og byggði þau upp í kringum nýtt forsetaembætti Júgóslavíu, ríkjasambands sem samtvinnaðist af Serbíu og Svartfjallalandi. Lög voru samþykkt sem tók helstu völd forseta Serbíu og færði þau í hendur forsetaembættis Júgóslavíu. Völd hans voru því óskert er hann var kjörinn forseti Júgóslavíu árið 1997. Að því kom að almenningur fékk nóg af einræði og kúgun valdatíðar Milosevic. Almenningur reis upp gegn honum árið 2000 og stjórnarandstaðan sameinaðist um Vojislav Kostunica í kosningunum. Svo fór að Milosevic tapaði kosningunum og Kostunica komst til valda. Fyrst í kjölfarið fór lítið fyrir honum en yfirvöld handtóku hann í aprílmánuði 2001. Hann var framseldur til Haag í júlí 2001.

Milosevic var ákærður fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Var ákæran yfir honum í um 70 liðum alls. Réttarhöld gegn Slobodan Milosevic hófust snemma árs 2002 og sá ekki fyrir endann á þeim þegar hann féll frá. Er það mjög dapurlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ekki hafi réttarhöldunum verið lokið eða endanlegur dómur verið kveðinn upp yfir hinum grimmilega einræðisherra Slobodan Milosevic er hann lést í Haag. Er hann enginn harmdauði þó.