Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 mars 2006

Sígur sífellt meir á ógæfuhliðina hjá Blair

Tony Blair

Tæpu ári eftir að Verkamannaflokkurinn vann sinn þriðja kosningasigur í röð í breskum þingkosningum undir forystu Tony Blair skekur enn eitt hneykslið og vandræðamálið hann. Það hefur nú komist í hámæli í breskum fjölmiðlum að Verkamannaflokkurinn hefði þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir kosningarnar í fyrra. Skv. fréttum er fullyrt að þessir sömu auðmenn hafi með þessu verið að kaupa sig inn í góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif með því. Ágreiningur virðist vera í breskum stjórnmálum skiljanlega vegna þessa. Nú reyna forystumenn flokksins að tala sig frá því en t.d. bæði John Prescott varaforsætisráðherra Bretlands, og Gordon Brown fjármálaráðherra, segjast nú enga vitneskju hafa haft um stöðu mála fyrir kosningar í fyrra og fyrst heyrt af málinu í umfjöllun breskra fjölmiðla seinustu daga. Fæstir virðast þó trúa því.

Er alveg ljóst að málið hefur haft skaðleg áhrif á stöðu Blairs og ekki síður Verkamannaflokksins. Ef marka má nýjustu skoðanakannanir eykst forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn um tvö prósentustig og fylgi forsætisráðherrans hefur aldrei mælst lægra. Slær það út fyrra lágmark, sem var sumarið 2003 þegar tal um eftirmála innrásarinnar í Írak og sjálfsmorð vopnasérfræðings David Kelly reið yfir. Aðeins rétt tæp 36% landsmanna styðja forsætisráðherrann beint og það sem verra er fyrir hann að tæp 60% landsmanna telja með vissu að hann hafi prívat og persónulega heitið auðmönnum sæti í lávarðadeildinni fyrir að veita nægum fjármunum í kosningabaráttu Verkamannaflokksins vorið 2005. Greinilegt er að Blair lætur þetta yfir sig ganga, enda þarf hann ekki oftar að fara í kosningabaráttu og þegir um stöðuna. Hinsvegar birtast Prescott og Brown báðir, enda munu þeir báðir fara í næstu kosningar og almennt talið öruggt að Brown taki við af Blair.

Tony Blair hefur nú setið sem leiðtogi Verkamannaflokksins í tæp 12 ár og verið forsætisráðherra í tæp 9 ár, frá 2. maí 1997. Hann varð leiðtogi breska Verkamannaflokksins er John Smith, forveri hans, varð bráðkvaddur sumarið 1994 og náði að sveigja flokkinn inn á miðjuna og vann þingkosningarnar 1997 með því að gera Verkamannaflokkinn að miðjuflokki sem náði að höfða til fleiri hliða en fyrri leiðtogar hans höfðu gert. Verkamannaflokkurinn varð nútímalegri og meira heillandi en t.d. undir forystu Neil Kinnock sem var með flokkinn mun meira til vinstri og náði aldrei að leiða flokkinn til sigurs, að því er margir segja einmitt vegna vinstriáherslu sinnar. Blair stokkaði upp öll vinnubrögð og áherslur innan flokksins er hann tók við valdataumunum innan hans og náði að gera flokkinn að stórveldi í breskum stjórnmálum á ný. Lykillinn að því hversu miklum vinsældum hann átti að fagna ber að þakka því að hann hafði ásjónu heiðarlegs stjórnmálamanns.

Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann núorðið gerspilltan sem ómast í fyrrnefndri könnun en 70% telja stjórn Blairs jafnspilla og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda, seinustu mánuðina. Í byrjun nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var þar um það hvort að ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Tapið varð nokkuð afgerandi og skaðlegt fyrir hann. Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann sitja sem forsætisráðherra og í seinna lagi mun hann geta komið málum sínum í gegn úr þessu?

Við fyrri spurningunni er svarið einfalt. Flestir spá því að hann eigi skammt eftir sem stjórnmálaleiðtogi. Hann hefur þegar tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér aftur í þingkosningum. Flestir spá því að hann hafi veikst svo mikið að hann muni þurfa að láta af embætti fyrr en hann hefði óskað sér. Við seinni spurningunni er komið það svar að hann geti varla stjórnað sem kraftmikill leiðtogi nema leita málamiðlana við órólegu deildinni - hún hefur örlög hans að því er virðist í hendi sér. Dagar hans sem leiðtoga sem fari sínu fram séu taldir. Við Blair blasir nú sama ástand og var undir lok valdaferils forvera hans, John Major, fyrir tæpum áratug. Major varð seinustu ár valdaferils síns að lifa sínu pólitíska lífi í skugga andstæðinganna innan flokksins sem höfðu hreðjatak á honum og verkum hans - jafnvel lykilákvörðunum. Major, sem margir vilja kalla lame-duck leader, hefur enda sagt í ævisögu sinni frá því að valdaár sín hafi verið beisk og mörkuð því að hann gat ekki farið sínu fram.

Greinilegt er að líða tekur að lokum hjá Blair. Viðbrögð Prescott og Brown einkennast af því að bjarga sér sjálfum. Það stefnir óneitanlega nokkuð í húsbóndaskipti í Downingstræti 10 á þessu ári. Blair fari af hinu pólitíska sviði og inn komi Gordon Brown. Það muni friða óánægjuöflin innan Verkamannaflokksins og ekki síður gera hann vinstrisinnaðri en var undir leiðsögn Blairs. Blair er ekki gamall maður, aðeins 53 ára - en er vissulega orðinn mjög pólitískt þreyttur og mæddur eftir áföll seinustu mánaða. Það stefnir því allt í að Blair sé á útleið þegar á þessu ári. Það vissu allir nema kratar reyndar í fyrra en þeir virðast vera að vakna til lífs með það að Blair er þeim akkilesarhæll í stöðunni. Viðbrögð helstu lykilmanna er að beina ábyrgðinni frá sér yfir á leiðtogann. Tilgangurinn er næsta augljós og það sem meira er að líkurnar á snöggum valdaskiptum innan Verkamannaflokksins fyrir árslok fara stöðugt vaxandi.

Saga dagsins
1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur - Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og lagði hún til í ræðu sinni að fé yrði veitt til sundkennslu fyrir stúlkur. Tillaga Bríetar var þar samþykkt einróma.
1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka við Breta sem lauk með sigri þeirra síðarnefndu.
1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins, og settust þær að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem þær hafa dvalið alla tíð síðan.
1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar - snjódýpt hafði hérlendis þá aldrei mælst meiri hér en þá.
2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og tveim sonum hans til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti svo George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stutt ávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórninni væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr mætti stjórnarinnar. Einræðisstjórn Íraks féll í byrjun apríl og var Saddam Hussein handtekinn í desember 2003.

Snjallyrðið
You must not lose faith in humanity. Humanity is an ocean; if a few drops of the ocean are dirty, the ocean does not become dirty.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)