ISG leitar í smiðju Jóns Baldvins
Það er greinilegt að Jón Baldvin Hannibalsson er orðinn einskonar nýr Gylfi Þ. Gíslason kratanna. Maður sem þau hefja upp til skýjanna og líta upp til og leita ráðlegginga hjá. Það vita það enda allir sem vilja vita að áhrif Gylfa Þ. í stjórnmálum hérlendis voru mun lengur sýnileg en bara á lykiltímabili stjórnmálaferils hans. Hann var virðulegur gamall stjórnmálamaður sem leitað var til lengi vel til að ræða málefni samtímans og hann sló oftar en ekki í gegn með boðskap sínum. Greinilegt er að kratar nútímans hafa búið til samskonar íkon úr Jóni Baldvin - nýkomnum heim að loknum verkum sínum í utanríkisþjónustunni í Washington og Helsinki. Þegar að minnst var 90 ára afmælis Alþýðuflokksins sáluga var Jón Baldvin einn formanna Alþýðuflokksins ræðumaður við athöfn í Ráðhúsinu þar sem þessa gamla flokks (sem reyndar enn er til óformlega séð) var minnst með nokkum tregablöndnum hætti.
Það er greinilegt að Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún eru samherjar í pólitík innan Samfylkingarinnar. Hann studdi hana enda til formennsku í flokknum í fyrra með opinberum hætti meðan að annar fyrrum formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, studdi Össur með áberandi hætti. Það var enda mjög greinilegt að á meðan að Jón Baldvin baðaði sig í sviðsljósinu í erfidrykkju Alþýðuflokksins sat Sighvatur stúrinn úti í horni gleymdur og utan kastljóssins. Afmælishátíðin í Ráðhúsinu var enda greinilega fjölmiðlamoment ISG og JBH. Saman komu þau fram í Silfri Egils og töluðu fjálglega um kratastefnu í pólitík og fleira sem þeim þótti við eiga á þessum merkisdegi í sögu Alþýðuflokksins sáluga. Fjarvera núverandi formanns Alþýðuflokksins, Guðmundar Árna Stefánssonar sendiherra, var reyndar mjög áberandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eins og flestir muna eflaust flúði hann á náðir utanríkisþjónustunnar til að þurfa ekki að vinna með Ingibjörgu Sólrúnu.
Jón Baldvin er mælskur stjórnmálamaður og hefur sagnakraft eins og Vestfirðinga er von og vísa. Sama frásagnarkraft hefur Össur fyrrum kratahöfðingi greinilega, eins og sást í nýlegum skrifum hans um Afríkuferðina. Þau skrif leiftruðu af frásagnargleði og tilfinningum fyrir staðnum - lesandanum fannst enda eins og hann væri staddur í ferðinni. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann tala t.d. um alþjóðastjórnmál eða utanríkispólitík. Þó að maður sé oft á tíðum mjög ósammála honum er frásögn hans þess eðlis að maður hlustar af áhuga. Reyndar verð ég að viðurkenna að mér fannst Jón Baldvin breyttur við heimkomuna er sendiherratímabilinu lauk. Gott ef hann hljómaði ekki eins og gamli byltingarmaðurinn sem hann varð áður en hann flúði á náðir Alþýðuflokksins. Kannski er það þess vegna sem hann nýtur sín svo vel þessa dagana með Ingibjörgu Sólrúnu, sem er gamaldags rauðsokka í forystu jafnaðarmannaflokks.
Jón Baldvin er miklu vinstrilitaðri nú að mínu mati en hann var t.d. sem fjármála- og utanríkisráðherra er stjórnmálaferill hans var í sem mestum blóma. Nú er talað um að hann komi kannski aftur. Það er reyndar kostulegt ef að ISG telur sig ekki eiga viðreisnarvon í pólitískum slag við Geir H. Haarde nema að fá liðsinni krata eins og Jónanna tveggja. Reyndar er ljóst að þeir eru í miklum metum hjá henni, enda sátu þeir báðir hjá henni í krataminningarsamkundunni á meðan að Sighvatur sat eins og gleymdi maðurinn nokkuð til hliðar. Reyndar finnst mér oft merkilegt að sjá hvernig að Jón Baldvin getur talað og talað án þess að rifja upp eigin afrek og reyna að upphefja sig á fjölda mála sem margir komu að. Hann minnir mig oft á Steingrím Hermannsson sem oft segir sögur af afrekum sem hann stóð fyrir en síður frá vondu málunum nema að reyna að geta þess að hann hafi hvergi verið nærri. Gott dæmi um þetta má lesa í ævisögum Steingríms sem komu út í þrem bindum og voru skrifaðar af borgarstjóraefni Samfylkingarinnar.
Nú er greinilegt að Jón Baldvin er aðalutanríkispostuli Samfylkingarinnar. Nú er sagt frá því í fréttum að honum sé ætlað að leiða þverpólitískan hóp til að ræða um varnarmálin og móta einhvern vísi að nýrri utanríkisstefnu. Þetta er mjög merkilegt að sjá reyndar, enda er greinilegt að ISG skrifar ræður um varnarmálið og talar um það með ráðgjöf Jóns Baldvins að leiðarljósi. Hann er greinilega að ráðleggja henni í þessum málum, sem er reyndar vart undrunarefni enda veitir ISG og Samfylkingunni ekki af að eignast utanríkisstefnu fyrir það fyrsta. Hún hefur um nokkurt skeið verið á verulegu reiki og ekki seinna vænna fyrir krataflokkinn að reyna að grafa hana upp eða að fá fyrrum utanríkisráðherra síðasta kratatímabils í sögu ríkisstjórnar Íslands til að lesa þeim upp grunninn að einhverri stefnuáætlun eða mótun að stefnu. Reyndar er samt skondið að heyra talað um þennan hóp undir forystu Jóns Baldvins sem þverpólitískan vettvang. Það er fyndinn leikur að orðum þykir mér satt best að segja.
Ingibjörg Sólrún hefur verið formaður Samfylkingarinnar í tæpt ár. Það er ekki hægt að segja að það tímabil hafi verið sælutímabil fyrir Samfylkinguna. Það er vissulega merkilegt þegar að hún er farin að leita til Jóns Baldvins um að semja utanríkisstefnu fyrir Samfylkinguna og telur rétt að treysta ráðleggingum hans með þessum hætti. Ingibjörg Sólrún telur sig ekki geta talað trúverðugt í varnarmálum nema leita eftir ráðleggingum sér reyndari manna og fá þá til að vinna einhverja stefnu í málaflokknum. Hún hefur reyndar á nokkrum dögum farið nokkra hringi í varnarmálunum en nú er Jón Baldvin greinilega farinn að ráðleggja henni og beina henni á þær leiðir sem hann telur vænlegastar og nú tekur hann til verka við að vinna einhverja trúverðuga stefnu fyrir Samfylkinguna. Er það mjög merkilegt.
Reyndar má spyrja sig að því hvort að sú utanríkisstefna verði ekki mátulega vinstrilituð og í takt við úrelt sjónarmið. Grunar mig að svo muni verða.
<< Heim