Sunnudagspistill - 19. mars 2006
Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Þáttaskil urðu í varnarmálum Íslands í vikunni þegar að fyrir lá einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að binda enda á umsvif Bandaríkjahers á Íslandi. Þau munu heyra sögunni til í síðasta lagi þann 1. október og hefur forsætisráðherra nú sent forseta Bandaríkjanna bréf til að leita viðbragða frá honum um það hvað taki nú við í tvíhliða varnarsamningi þjóðanna. Fer ég yfir skoðanir mínar í þessu máli og fjalla um þáttaskilin sem blasa við. Mér fannst vinnubrögð bandarískra stjórnvalda með öllu óviðunandi af helstu bandalags- og vinaþjóð okkar að ræða. Við þurfum þá alvarlega að íhuga hvernig samskiptin eru metin ef þetta eiga að teljast vinaleg samskipti milli tveggja þjóða sem eiga gagnkvæm og virðuleg samskipti. En nú er beðið þess að forseti Bandaríkjanna svari bréfinu og betur verður hægt að kortleggja stöðuna er það svar liggur fyrir.
- Í vikunni var frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra til vatnalaga samþykkt á Alþingi. Áður hafði verið samið um afgreiðslu þess eftir um 40 klukkustunda umræður um það. Að óbreyttu hefði stefnt í eitt allsherjar málþóf í 10-15 daga en dagana fyrir samkomulagið hafði ekkert annað en umræðan um það verið á dagskrá þingsins og stefndi í að þinghald myndi riðlast mjög vegna þess. Fjalla ég um málið og umræðuna sem var um það - jafnframt fer ég yfir þá málefnafátækt sem einkennir stjórnarandstöðuna.
- Það blandast engum hugur um það að staða Akureyrarbæjar sé góð. Það er mjög gott að vera Akureyringur eins og staða mála er. Nýlega voru kynntar heildarniðurstöður ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir árið 2005. Staða mála telst betri en áður var stefnt að. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er enda jákvæð um rúmlega 360 milljónir króna en áætlun hafði áður gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði - semsagt tvöfaldur hagnaður. Mikið gleðiefni það.
<< Heim