Skemmtilegur dagur út í Hrísey
Ég var að koma heim að loknum skemmtilegum degi úti í Hrísey - í morgun fórum við sjálfstæðismenn á Akureyri út í eyju. Áttum við góðan dag í hópi góðra flokksfélaga úti í eyju og skemmtum okkur vel. Við hittumst upp við Kaupang rúmlega hálf níu í morgun og héldum með rútu út á Árskógssand. Á leiðinni áttum við gott spjall og fórum yfir málefni kosningabaráttunnar og það sem er að gerast í bæjarmálunum. Mundi keyrði rútuna og Sigrún Björk hafði skipulagt ferðina vel ásamt fleirum. Í ferjunni hitti ég góðan félaga frá Dalvík og ræddum við um pólitíkina þar, en eins og ég hef áður bent á guggnaði Samfylkingin á því að bjóða fram lista í eigin nafni. Var gaman að fara yfir málin þar og ekki síður hafði ég gaman af því að heyra hvernig talað er enn um Húsabakka. Annars er rétt að benda á að D-listinn eitt framboða árið 2002 ljáði máls á því í kosningabaráttunni að loka skólanum og beitti sér fyrir því. Var það rétt ákvörðun án nokkurs vafa.
Er út í eyju kom funduðum við á veitingastaðnum Brekku og héldum áfram í kosningaundirbúningnum. Fórum við yfir mikilvæg meginatriði og áttum mjög gott spjall um málin. Er ánægjulegt hversu samhentur hópurinn er og fer af krafti inn í næstu verkefni í kosningaundirbúningnum. Að fundi loknum löbbuðum við yfir í Sæborg og áttum þar góða stund í skemmtilegum leikjum. Sú skemmtilega hugmynd kom upp að para okkur tvö og tvö saman. Áttum við að reyna að komast að einhverju nýju um hinn aðilann sem við vissum ekki áður. Var mjög gaman að heyra af þessu. Við Guðmundur Jóhannsson lentum saman og við áttum hið fínasta spjall í að fara yfir hvað við vissum ekki um hvorn annan. Undir lok ferðarinnar fórum við öll yfir það hvað við komumst að. Var þetta mjög gaman og mikið hlegið saman yfir þessu. Eftir hádegið fórum við í Hákarlasafnið - flott safn sem verið er að byggja upp. Það er áhugavert að líta þangað og kynna sér það sem þar er.
Undir lokin fórum við í ferð um eyjuna á dráttarvél og fengum góða yfirferð um það sem þar er að gerast. Þeir Narfi Björgvinsson og Kristinn Árnason kynntu okkur stöðu mála og komu með góða fróðleiksmola um eyjuna. Síðdegis héldum við svo heimleiðis eftir góðan dag. Það var gaman að fara út í eyju og vil ég þakka þeim Narfa og Kristni fyrir höfðinglegar móttökur. Það er alltaf gaman að fara út í Hrísey og njóta kyrrðar og notalegs umhverfis þar.
Saga dagsins
1760 Landlæknisembættinu var komið á fót - Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir, fyrstur manna.
1772 Björn Jónsson skipaður fyrsti lyfsalinn hérlendis - áður var lyfsala hluti af skyldum landlæknis.
1926 Útvarpsstöð, sú fyrsta hérlendis, tók formlega til starfa í Reykjavík - fyrstur í útvarpið þá talaði Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Sagði hann í ræðu sinni að miklar vonir væru bundnar við þessa miklu og nýju uppgötvun mannsandans. Stöðin hætti fljótlega starfsemi en hún markaði söguleg skref, engu að síður í íslenskt fjölmiðlalíf. Ríkisútvarpið hóf útsendingar fjórum árum síðar.
1938 Spencer Tracy hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Manuel í kvikmyndinni Captains Courageous. Tracy hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Boys Town. Tracy var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum. Hann lést í júní 1967, örfáum dögum eftir að hann lauk vinnu við sína síðustu mynd, Guess Who's Coming to Dinner?, þar sem hann fór á kostum með Katharine Hepburn, sem hann bjó með lengi og lék með í fjölda mynda.
1971 Hæstiréttur Danmerkur kvað upp úrskurð sem ruddi úr vegi síðustu hindrun fyrir afhendingu handritanna til Íslendinga. Fyrstu handritin voru afhend formlega mánuði síðar við hátíðlega athöfn.
Snjallyrðið
In the sweetness of friendship let there be laughter, and sharing of pleasures. For in the dew of little things the heart finds its morning and is refreshed.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)
<< Heim