Key Largo
Ég hef satt best að segja lúmskt gaman af því að hlusta á Hrafnaþing, þátt Ingva Hrafns Jónssonar á NFS. Hlusta alltaf á hann á daginn í vinnunni í útvarpinu. Hvort sem maður er ósammála eða sammála Ingva Hrafni má svo sannarlega segja að það sé áhugavert að hlusta á þættina hans og kynnast skoðunum hans. Ingvi Hrafn þorir allavega að segja hlutina algjörlega tæpitungulaust. Þessa dagana sendir Ingvi Hrafn þættina sína út frá Key Largo á Flórída. Það er gaman að sjá hvernig hann notar tæknina og birtist á skjánum á NFS þrátt fyrir að vera úti á Flórída. Ein vinsælasta kvikmynd fimmta áratugar síðustu aldar er kennd við Key Largo. Það hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þegar að ég fór til Washington haustið 2004 keypti ég mér myndina (ásamt slatta af fleirum) í Pentagon Mall. Það var svo sannarlega freisting að vera þar og auðvitað keypti ég slatta af myndum þar. Hafði ég átt myndina á VHS í fjöldamörg ár þá og horft margoft á.
Það er fátt betra en um helgi en að setjast niður á laugardegi og horfa á góða mynd. Nú eftir hádegið horfði ég enn og aftur á Key Largo. Ég hef alltaf metið þessa mynd mikils og tel hana með þeim bestu sem komu frá leikstjóranum John Huston. Að mínu mati var John Huston einn af bestu leikstjórum 20. aldarinnar. Hann gerði á löngum ferli meistaraverk á borð við Prizzi's Honor, Under the Volcano, The Man Who Would Be King, Casino Royale, The Misfits, The African Queen, The Asphalt Jungle, The Treasure of the Sierra Madre og að ógleymdri hans allra bestu kvikmynd á ferlinum, The Maltese Falcon, sem jafnframt var frumraun hans sem leikstjóra. Það verður enginn sannur kvikmyndaáhugamaður til fyrr en hann hefur séð Möltufálkann, sem er yndislegasta og áhugaverðasta mynd sem kvikmyndafíkill getur séð (að ógleymdri Casablanca). Huston hlaut leikstjóraóskarinn einu sinni á sínum litríka leikstjóraferli en það var árið 1948 og fyrir The Treasure of the Sierra Madre.
Key Largo var gerð á milli helstu annanna við gerð The Treasure of the Sierra Madre á árinu 1948 og var ekki dýr í gerð, enda einföld í sniðum. En hún varð ein af eftirminnilegustu myndunum á ferli Hustons. Í Key Largo segir frá Frank sem ákveður að lokinni herþjónustu sinni í seinni heimsstyrjöldinni að heimsækja James Temple, fatlaðan hóteleiganda á Key Largo og tengdadóttur hans Noru. Hún er ekkja eins af þeim sem þjónuðu í hernum með Frank en hann hafði verið yfirmaður í herdeildinni sem maður Noru hafði verið í. Hann telur sig verða að heimsækja þau og bera þeim kveðju sína. Hann lendir þó fljótt eftir komuna í ótrúlegri atburðarás á hótelinu. Mafíósinn Johnny Rocco, sem er á flótta undan yfirvöldum, sest þar að og tekur Frank, James og Noru í gíslingu. Með Rocco í för er kærasta hans Gaye Dawn. Meðferð Rocco á kærustunni veldur því að Frank sér að hann verður að stöðva Rocco. Samhent leggja Nora og Frank til atlögu við mafíósann.
Í Key Largo fara hjónin Humphrey Bogart og Lauren Bacall á kostum í hlutverkum Franks og Noru. Þetta var þriðja myndin sem þau léku saman í. Hinar voru To Have and Have Not and The Big Sleep. Allar eru þessar myndir stórfenglegar og með bestu myndum síns tíma. Bogart var án nokkurs vafa einn af bestu leikurum 20. aldarinnar. Hann var enda jafnvígur á að leika harðjaxl með massívu yfirbragði og ekki síður með tilfinningu. Bogart er einn mesti töffarinn í kvikmyndasögunni. Persóna hans og túlkun voru með þeim hætti að hann var fæddur leiðtogi í leik. Neistinn á milli Bogart og Bacall eru með mikilvægustu töfrum þessara mynda. Bogart og Bacall voru þó gríðarlega ólík, bæði sem leikarar og persónur. En þau smullu saman þrátt fyrir 25 ára aldursmun og þau voru gift í um einn og hálfan áratug. Bogart lést úr krabbameini í janúarmánuði 1957 en Bacall lifir enn, nú orðin 82 ára gömul og enn á fullu að leika.
Edward G. Robinson á stórleik sem mafíósinn Johnny Rocco og er skemmtilega ógeðfelldur í hlutverkinu. Þetta var ein af hans bestu myndum á löngum og litríkum ferli. Claire Trevor snertir streng í brjósti áhorfandans í hlutverki Gaye Dawn og túlkar brothætta konu með tilfinningar og brotið stolt. Trevor var stórfengleg í hlutverkinu og hlaut óskarinn fyrir leik sinn og það mjög verðskuldað. Hún var aldrei betri en í þessari mynd og túlkun hennar var margrómuð. Key Largo er allt í senn heillandi og spennandi - athygli áhorfandans helst allan tímann á atburðarásinni. Ég hvet alla þá sem unna góðum myndum að sjá þessa.
Saga dagsins
1855 Íslendingum var leyfð frjáls verslun við þegna allra þjóða með formlegum hætti - áður hafði verslun verið bundin við þegna Danakonungs og því algjör einokun á verslunarmarkaði Íslendinga.
1873 Hilmar Finsen, 49 ára stiftamtmaður, skipaður fyrsti landshöfðingi Íslendinga - hann gegndi embættinu í 9 ár og varð ennfremur, á sínum langa stjórnmálaferli, borgarstjóri í Kaupmannahöfn.
1936 Alþýðutryggingalög tóku gildi - þau lög marka eitt af stærstu sporunum í íslenska félagsmálalöggjöf á 20. öld.
1998 Fréttavefurinn visir.is opnaður formlega - hann var allt frá upphafi einn af vinsælustu fréttavefum landsins.
2001 Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, handtekinn á heimili sínu í Belgrad og færður í fangelsi - Milosevic var forseti Serbíu 1989-1997 og Júgóslavíu 1997-2000. Hann neyddist til að láta af forsetaembættinu árið 2000 eftir að sannreynt var að hann hafði tapað forsetakosningum en ætlað að hagræða úrslitunum sér í vil og beygja lýðræðið og hagræða stöðu mála. Í júnímánuði 2001 framseldu stjórnvöld Milosevic til strípsglæpadómstólsins í Haag. Réttarhöld yfir honum hófust í febrúar 2002 en þeim lauk aldrei. Milosevic lést í varðhaldi í Haag þann 11. mars 2006 og var jarðsunginn í heimabæ sínum, Pozarevac, þann 18. mars.
Snjallyrðið
Experience is one thing you can't get for nothing.
Oscar Wilde skáld (1854-1900)
<< Heim