Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 apríl 2006

Staupasteinn

Cheers

Skjár 1 hefur nú undanfarið árið rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu eftir kvöldfréttirnar hér í denn, sællar minningar. Það var algjör klassi að horfa á þættina þá og eiginlega enn betra nú að geta slappað af seint á kvöldin og horft á einn gamlan þátt. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993.

Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Persónulega fannst mér George Wendt alltaf bestur, en hann var óborganlega fyndinn í hlutverki hins hnyttna Norm sem átti alltaf nett svör á reiðum höndum - frábær alveg hreint. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi.

Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að hafa fengið tækifæri seinustu mánuðina til að horfa á þættina, allt frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Nú líður brátt að lokum sýninganna, en persónulega fannst mér alveg ómetanlegt að sjá fyrstu þrjár seríurnar aftur. Allavega, Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta góða framtak sitt.