Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 maí 2006

Meirihlutinn fellur á Akureyri

Úrslitin á Akureyri

Úrslit í sveitarstjórnarkosningunum 2006 hér á Akureyri lágu fyrir á öðrum tímanum í nótt. Á kjörskrá voru 12.067 manns og atkvæði greiddu 9.461, sem þýðir að kjörsókn var 78,4%. Auð og ógild atkvæði voru 183. Mikil endurnýjun blasir við í bæjarstjórn Akureyrar. 7 nýir bæjarfulltrúar taka þar sæti og aðeins fjórir verða áfram í bæjarstjórn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum. Mestu munar þar um að Framsóknarflokkurinn galt afhroð í þessu gamla höfuðvígi sínu. Flokkurinn hlaut einn bæjarfulltrúa kjörinn en hafði þrjá áður. Sjálfstæðisflokkurinn missir nokkur prósentustig en heldur sínum fjórum mönnum. Samfylkingin hlýtur þrjá bæjarfulltrúa og bætir við sig tveim. VG bætir við sig helming frá því sem þeir hlutu árið 2002 og hljóta tvo bæjarfulltrúa í stað eins áður. Listi fólksins hlýtur einn mann kjörinn en missir annan mann sinn og helming fylgisins.

Úrslitin eru sem hér segir:

B-listi Framsóknarflokks - 1.427 atkvæði, 15,08% - 1 bæjarfulltrúi (3)
D-listi Sjálfstæðisflokks - 2950 atkvæði, 31,2% - 4 bæjarfulltrúar (4)
L-listi fólksins - 906 atkvæði, 9,6% - 1 bæjarfulltrúi (2)
O-listi Framfylkingarflokks - 299 atkvæði, 3,2% - hlaut engan (0)
S-listi Samfylkingarinnar - 2190 atkvæði, 23,1% - 3 bæjarfulltrúar (1)
V-listi VG - 1506 atkvæði, 15,9% - 2 bæjarfulltrúar (1)

Bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 skipa: Kristján Þór Júlíusson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Elín Margrét Hallgrímsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson (Sjálfstæðisflokki) - Hermann Jón Tómasson, Sigrún Stefánsdóttir og Helena Þ. Karlsdóttir (Samfylkingunni) - Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir (VG) - Jóhannes Gunnar Bjarnason (Framsóknarflokki) og Oddur Helgi Halldórsson (Lista fólksins). Úr bæjarstjórn hverfa: Þóra Ákadóttir, Þórarinn B. Jónsson, Jakob Björnsson, Gerður Jónsdóttir, Valgerður Hjördís Bjarnadóttir, Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir og Oktavía Jóhannesdóttir. Miklar breytingar blasa því við nú í bæjarstjórn.

Meirihlutinn er fallinn. Eins og við blasir nú ætlar nýr meirihluti, gamli minnihlutinn, að setjast niður og ræða meirihlutamyndun. Það eru sex fulltrúar Samfylkingar, VG og Lista fólksins. Verði slíkur meirihluti að veruleika má búast við því að Oddur Helgi verði í oddastöðu og muni nota hana sér vel sem slíkur í þeirri stöðu. Í aðdraganda þessara kosninga var mjög í umræðunni að sá möguleiki gæti verið uppi að þessi þrjú öfl gætu náð meirihlutavaldi og úr yrði þriggja arma vinstristjórn. Það blasir nú við að sá kostur verði sá fyrsti í stöðunni. Það er vissulega ekki undarlegt enda féll meirihlutinn vegna afhroðs Framsóknarflokksins en við í Sjálfstæðisflokknum héldum okkar fulltrúafjölda.

Framsóknarflokkurinn á Akureyri varð fyrir miklu áfalli. Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi flokksins í fjögur ár, sem flestir töldu að myndi nú ná inn, féll í kosningunum og við blasir allsherjar endurreisn flokksins hér í þessu gamla vígi sínu. Úrslitin eru ekki bara verulegt áfall fyrir Jóa Bjarna heldur flokkinn á landsvísu og umtalsvert tákn afhroðs flokksins um allt land. En nú blasir nýr meirihluti við hér á Akureyri og það verður að ráðast hvernig sá meirihluti líti út og hvaða staða blasir við í bæjarmálunum næstu árin.

Hver svo sem sú staða verður blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsta aflið í bæjarstjórn og er öflugasta aflið í bæjarmálunum. Út frá þeirri stöðu verður byggt hvort sem við verðum í minnihluta eða meirihluta. Við erum með fjölmennasta bæjarstjórnarflokkinn - sterkasta umboðið. Afhroð Framsóknar gæti leitt til vinstrimeirihluta hér í bæ - við sjáum til hversu vel þriggja arma vinstrihausnum gengur að berja sig saman í samningaviðræðum.