Stefnir í afhroð Framsóknarflokksins í Kópavogi
Eitt af því sem vekur mesta athygli við komandi sveitarstjórnarkosningar er erfið staða Framsóknarflokksins um allt land. Á nær öllum stöðum þar sem birst hafa skoðanakannanir blasir við að flokkurinn er í gríðarlegri vörn og hefur misst gríðarlega mikið fylgi. Á sumum stöðum er hann að missa ráðandi stöðu sína. Það leikur enginn vafi á því að það sveitarfélag sem verið hefur í öndvegi sveitarstjórnarstjórnmála Framsóknarflokksins er Kópavogur. Skv. nýrri skoðanakönnun blasir fylgishrun við þar og í stað þriggja manna inni er flokkurinn naumlega með einn inni. Einn helsti þáttur þess er auðvitað árferðið almennt hjá flokknum eins og fyrr er nefnt. En ég tel að stóri þátturinn í fylgishruni flokksins í bænum sé auðvitað fráfall Sigurðar Geirdal sem var bæjarstjóri í Kópavogi í einn og hálfan áratug, allt til andláts síns árið 2004. Hann var meginstoð flokksins í bænum í 15 ár.
Það fór ekki fram hjá neinum að það var Sigurður sem byggði upp stórveldi flokksins þar. Flokkurinn stækkaði úr smáflokki í ráðandi afl á hans tíma og hann naut gríðarlegra vinsælda. Flokknum tókst að komast í þrjá menn í kosningunum fyrir fjórum árum. Persónulegar vinsældir Sigurðar sem bæjarstjóra og einstaklings í forystu, manns sem fólk treysti, voru auvðitað meginþáttur þess að flokkurinn dafnaði í sveitarfélagi þar sem staða hans var alltaf léleg fram að því. Nú er Sigurður horfinn á braut og svo virðist að fráfall hans þýði að flokkurinn fari aftur í sama stand og var áður en Sigurður varð leiðtogi. Verði þessi könnun að veruleika blasir við að Framsóknarflokkurinn geti þurrkast út í Kópavogi, sem yrðu vissulega stórtíðindi miðað við núverandi völd og áhrif flokksins í bænum. Ég hef reyndar alltaf talið að flokkurinn myndi eiga erfitt núna.
Fráfall Sigurðar Geirdal var Framsóknarflokknum í Kópavogi gríðarlegt áfall - áfall sem þau enn eru að jafna sig á. Sigurði tókst ekki að skilja við flokkinn með þeim hætti sem hann vildi, innri ólga og erfiðleikar tóku sig upp án hans. Flokkurinn er að mörgu leyti í miklum erfiðleikum vegna þess hversu snögglega Sigurður hvarf af pólitísku sjónarsviði. Ég lít á þessa könnun sem skiljanlega miðað við þá erfiðleika - erfiðleika sem við öllum blasa sem fylgst hafa með pólitík í Kópavogi. Nú heyrast raddir þess að Framsókn sé að tapa vegna samstarfsins við Gunnar I. Birgisson bæjarstjóra. Á það ber að minna að Framsóknarflokkurinn leiddi þennan meirihluta í 15 ár af þeim 16 sem hann hefur setið. Sigurður Geirdal og Hansína Ásta Björgvinsdóttir, leiðtogar flokksins, voru enda bæjarstjórar í einn og hálfan áratug - Sigurður í 14 af þeim (Hansína kláraði áður ákveðinn tíma Sigurðar en fyrirfram var ákveðið að hann myndi hætta í júní 2005).
Ef marka könnunina í Kópavogi í gær vill fólk að Gunnar Ingi Birgisson verði áfram bæjarstjóri. Eftir fráfall Sigurðar Geirdal er hann sterki maðurinn í bæjarmálunum og sá sem nýtur mests trausts. Það sannast er spurt er um hver eigi að verða bæjarstjóri og hvaða framboð fólk ætlar að kjósa að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess hversu öflug forysta Gunnars hefur verið á kjörtímabilinu þegar að bæjarfélagið þarfnaðist styrkrar forystu eftir snögglegt fráfall bæjarstjórans þar í einn og hálfan áratug. Ennfremur blasir við að Framsóknarflokknum í Kópavogi hefur mistekist að höfða til kjósenda og á mikið verk framundan við að vinna úr innri erfiðleikum og sundrungu sem varð eftir andlát Sigurðar Geirdal. Flokkurinn virðist í sárum og er aðallega í vandræðum nú vegna innri vandamála. Það ber því varla að skrifa algjörlega ástandið í Kópavogi á landsmálastöðu flokksins.
En þetta er auðvitað vísbending. Ef marka má þessa könnun heldur meirihlutinn en naumlega þó. Það verður fróðlegt að sjá hvort að miklar pólitískar sviptingar séu framundan í Kópavogi og haldið verði áfram á þeirri farsælu braut sem Gunnar I. Birgisson og Sigurður Geirdal leiddu á farsælu valdaskeiði sínu í Kópavogi. Sú uppbygging sem þeir leiddu saman sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag. Það verk vannst undir styrkri stjórn þessara tveggja flokka og engum blandast hugur um að framlag Gunnars í því skipti miklu máli.
<< Heim