Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 júní 2006

Bættur tölvukostur og eðalgóð ræma

Acer fartölva

Ég keypti mér í gær nýja fartölvu. Það er mikill merkisgripur að nafni Acer aspire - þetta er virkilega fín týpa og margir góðir nýjir fítusar í henni. Tekur mig alltaf nokkurn tíma að venjast nýrri tölvu - ég er það sem margir kalla venjulega gamaldags og þarf minn góða tíma til að aðlagast nýjum hlutum. Allavega líkar mér vel við gripinn og hún hefur marga góða kosti fyrir tölvufíkil eins og mig. Ég hef haft það orð á mér að geta ekki án tölvu verið til fjölda ára og það er alveg rétt. Þegar að ég keypti mér fyrstu tölvuna (fyrir alltof löngu síðan) heillaðist ég af tæknimöguleikunum og með hverri nýrri tölvu kemur alltaf eitthvað nýtt sem gaman er að kynna sér. Þessi tölva er kærkomin viðbót í safnið - verður fínt að nota hana.

Eftir miklar sviptingar í pólitíkinni hefur aftur róast yfir. Sjálfstæðisflokkurinn ræður loksins borg og ríki - vinstrimenn eru að jafna sig á valdamissi í borginni og framsóknarmenn eru að plotta bakvið tjöldin um framtíðarforystu flokksins. Það er komin örlítil gúrka í tíðindin núna eftir mörg stórtíðindi seinustu vikna. Það er ekkert sérlega áhugavert að velta sér upp úr málefnum Framsóknarflokksins þó að vissulega sé alltaf spennandi að spá í spil breytinganna. Framundan er hinsvegar heitur kosningavetur og býst ég fastlega við því að margt spennandi gerist þá, venju samkvæmt. Við sjálfstæðismenn getum haldið glaðir út í pólitíska sumarið. Eftir tólf ára hlé er sjálfstæðismaður loksins borgarstjóri og sýnist mér að meirihlutinn þar fari af stað af krafti og öryggi - ráðleysi R-listatímans er á bak og burt. Því fagnar allt skynsamt fólk í pólitík.

The Seven Year Itch

Seint í gærkvöldi settist ég niður og horfði á hina ógleymanlegu stórmynd The Seven Year Itch. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferilsins hennar. Ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var að mínu mati stórfengleg leikkona. Hún fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best.

Billy Wilder var snillingur í kómíkinni og þessi mynd var bæði fersk og heillandi. Wilder tók nokkra áhættu með valinu á Marilyn en kynnti með henni til leiks framtíðarstjörnu, þessi ein þekktasta kynbomba og eilífðarljóska sögunnar sló umsvifalaust í gegn. Ógleymanleg eru mörg atriðin í myndinni, einkum er eftirminnilegt atriðið er kjóll Monroe lyftist upp í vindinum við lestarstöðina. Ég hafði gaman að rifja upp myndina og þeir sem unna kvikmyndum og sannri kómík hafa alltaf gaman af þessari. Ógleymanleg og heillandi mynd.