Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 júní 2006

Óvænt pólitísk innkoma Jóns Sigurðssonar

Jón Sigurðsson

Enginn vafi leikur á því að stærstu tíðindin í ráðherrakapal Framsóknarflokksins sé innkoma Jóns Sigurðssonar, seðlabankastjóra, inn í forystusveit Framsóknarflokksins. Jafnvel fyrir nokkrum dögum, í hita og þunga innanflokksátakanna í Framsóknarflokknum, hefði fáum órað fyrir því að Jón Sigurðsson kæmi fram á sviðið og yrði ráðherra í öflugu ráðuneyti sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vissulega er. Það er þó öllum ljóst að Jón Sigurðsson er alinn upp innan samvinnukerfisins og hefur verið víða í forystusveit innan flokksins en ávallt algjörlega á bakvið tjöldin. Jón er náinn persónulegur vinur Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, og skólabróðir hans, og var ráðgjafi Steingríms Hermannssonar meðan hann var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra á sínum tíma. Jón var í innra starfi ungliðahreyfingar flokksins og varaformaður SUF um tíma og mjög áberandi í innri verkefnum í flokkskjarnanum.

Þegar að Jón Sigurðsson var skipaður í embætti seðlabankastjóra haustið 2003 var lítið tekist á um það og nokkur samstaða um þá ákvörðun Davíðs Oddssonar að skipa Jón til verka. Jón hafði mjög farsælan feril að baki og verið algjörlega óumdeildur sem seðlabankastjóri og þekktur fyrir grandvarar og íhugular athugasemdir um viðskiptamálin og staðið sig vel að mjög mörgu leyti í því sem öðrum verkefnum. Í öllum störfum hans í Seðlabankanum í þrjú ár hefur hann verið talinn fagmaður á sviðinu og ekki verið með neinum hætti dregið þar inn í fyrri stjórnmálastörf hans fyrir Framsóknarflokkinn og eða flokksvist hans fyrir Framsóknarflokkinn. Það er greinilegt mat Halldórs Ásgrímssonar og þingflokks Framsóknarflokksins að sækja hann til verka í ráðuneytið vegna þekkingar sinnar. Ég tel að hans innkoma muni í senn bæði styrkja Framsóknarflokkinn og ljá deilumálum í þessu ráðuneyti annan blæ en verið hefur.

Það er enginn vafi að það styrkir Jón Sigurðsson í forystusveit Framsóknarflokksins að koma þar inn til verka algjörlega nýr. Að því leiðir að Jón hefur nákvæmlega engar tengingar inn í þær valda- og átakaerjur sem staðið hafa innan flokksins um langt skeið. Það sást enda vel er stjórnarandstaðan talaði um innkomu Jóns að þar gátu þeir ekkert illt fundið og hann hefur nákvæmlega enga pólitíska fortíð sem andstæðingar ríkisstjórnar og Framsóknarflokks geta fundið til að hamra á. Mikil neikvæðni hefur verið um góð verk í ráðuneytinu sem Jón tekur bráðlega við og að mörgu leyti ráðist að Valgerði Sverrisdóttur með frekar lágkúrulegum og óverðskulduðum hætti. Nú fer Valgerður eins fjarri þessum málum og mögulegt getur orðið og lykilmál ráðuneytisins persónugerast í nýjum ráðherra - sem enga fortíð hefur í innanflokkserjum Framsóknarflokksins og kemur nýr til verka úr farsælum verkefnum.

Á laugardaginn voru Guðjón Arnar Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Lúðvík Bergvinsson gestir Þórhalls Gunnarssonar og Sigmars Guðmundssonar í aukafréttatíma þar sem fréttir komu um ráðherrahrókeringarnar. Þar kjaftaði á þeim hver tuska áður en fregnir komu um ráðherrakapal Framsóknarflokksins. Minntu þeir í neikvæðu blaðri sínu mjög greinilega á hina nöldrandi tvímenninga á svölunum í Prúðuleikurunum sem allt hafa á hornum sér og eru gegnumsýrðir í neikvæðnisblaðri. Er vissulega raunalegt fyrir menn eins og þá að hýrast endalaust í stjórnarandstöðu en t.d. hefur Steingrímur verið í stjórnarandstöðu í 20 af þeim 23 árum sem hann hefur setið á Alþingi Íslendinga. Í viðtalinu var nöldrað fram og til baka um stólaskiptingar og öll vandræði R-listans sáluga greinilega gleymd í þeim pælingum. Er fréttin um ráðherratign Jóns Sigurðssonar, seðlabankastjóra, varð ljós mátti greina óróa í nöldurpúkunum.

Í gær var Jón Sigurðsson gestur Róberts Marshall í ítarlegu viðtali í þættinum Pressunni á NFS. Mér fannst Jón koma verulega vel fyrir þar og tala af skörungsskap og eiginlega finnst mér hann færa stjórnmálin á annað plan með innkomu sinni. Hann hefur gríðarlega mikla þekkingu á mörgum verksviðum og nýtur virðingar langt út fyrir Framsóknarflokkinn með verkum sínum. Það læðist mjög að manni sá grunur að Jón Sigurðsson sé ekki bara að koma inn til verka í ríkisstjórn sem bráðabirgðaráðherra fram til næstu kosninga. Hann ætlar að segja af sér embætti seðlabankastjóra og láta af því og víkur af braut þeirra verkefna. Mér finnst það blasa mjög við að hann ætlar að koma til verka á nýjum vettvangi af fullum krafti. Tel ég augljóst eftir viðtalið í gær að hann muni sækjast eftir formennsku í Framsóknarflokknum og leiðtogastöðu Halldórs Ásgrímssonar í Reykjavík norður.

Verði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins, eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás seinustu daga blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það er klókt af Halldóri Ásgrímssyni að velja Jón Sigurðsson til verka, enda hann engum tengdur í innri valdaátökum innan Framsóknarflokksins og getur boðað nýja tíma fyrir flokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur tengingar til hins gamla Framsóknarflokks og getur fært þeim nýja forystu á mikilvægum tímum.

Það er því ljóst að mínu mati að innkoma Jóns Sigurðssonar í ráðherrahóp Framsóknarflokksins boðar mikil tíðindi - það er vel þess vert að fylgjast með þeim næstu mánuðina. Verði Jón formaður í sínum flokki blasa sannkölluð þáttaskil þar við. Það er held ég öllum ljóst.