Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júní 2006

Valgerður verður utanríkisráðherra

Valgerður Sverrisdóttir

Er ráðherrakapall Framsóknarflokksins opinberaðist að fullu í dag varð ljóst að Valgerður Sverrisdóttir verður utanríkisráðherra og lætur af embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hún hefur gegnt í hálft sjöunda ár. Það er sögulegt að Valgerður verði utanríkisráðherra, enda verður hún fyrsta konan sem gegnir því embætti hérlendis. Ennfremur verður Valgerður fyrsta konan í lykilráðuneyti ríkisstjórnar Íslands. Hér fyrr í vikunni spáði ég því að Valgerður yrði sá ráðherra Framsóknarflokksins sem myndi veljast til setu í þessu lykilsæti flokksins. Það gekk eftir og kemur held ég fáum í raun á óvart, þó að flestir hafi eflaust talið að fjármálin kæmu í hlut flokksins. Þótti mér þó alltaf líklegra að þeir fengju utanríkismálin og þar yrði Valgerður valin til verka. Hún hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka.

Valgerður Sverrisdóttir er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Hún hefur alla tíð verið náin pólitískur samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar og fullyrða má að enginn hafi staðið nær honum innan þingflokks Framsóknarflokksins á stjórnmálaferli hans en hún - jafnvel mun frekar en Finnur Ingólfsson. Þessi þrjú mynduðu nýtt valdabandalag í flokknum undir lok formannsferils Steingríms Hermannssonar og létu vaða í þá átt að gera flokkinn að sínum. Það gerðu þau svo sannarlega eftir að Steingrímur hætti og fór í Seðlabankann á sínum tíma og Halldór varð formaður. Henni var alla tíð treyst fyrir lykilembættum þar: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og sú önnur, síðar þingflokksformaður og loks viðskiptaráðherra - þar varð hún fyrsta konan á stóli rétt eins og nú verður raunin í utanríkisráðuneytinu.

Á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum á fimmtudaginn, eftir að Halldór hefur horfið á braut úr forystusveit ríkisstjórnar, mun Valgerður taka sæti við borðsendann gegnt Geir H. Haarde verðandi forsætisráðherra, og við hlið Ólafs Ragnars Grímssonar. Engum dylst að þetta er hápunktur hennar ferils fram að þessu og markar tilfærsla hennar í þetta ráðuneyti endanlega staðfestingu þess hversu mjög Halldór treystir Valgerði Sverrisdóttur. Valgerður og Halldór hafa verið eins og systkin í stjórnmálum. Það hefur alltaf mátt treysta því að þegar að Valgerður talar af krafti um pólitík er hún að óma áherslur og skoðanir Halldórs. Hún hefur allt frá því að hún tók sæti á þingi árið 1987 verið lykilstuðningsmaður Halldórs og ötull baráttumaður hans. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Spurt hlýtur að vera nú hvort upphefð hennar leiði til formannsframboðs.

Valgerður hefur verið þingmaður okkar hér í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt kom hún alltaf fram sem sigurvegari. Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Hún vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu. Hún hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára.

Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Eftir stóð Halldór Blöndal sigursæll sem leiðtogi kjördæmisins - það var gleðileg kosninganótt fyrir okkur en framsóknarmenn sátu eftir fúlir í gömlu lykilvígi. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Valgerður var mjög skapvond þessa kosninganótt og sagði í viðtali við Gísla Sigurgeirsson á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki gott af því að fá svona góða útkomu er við blasti og ætti enga innistæðu fyrir því. Var hún mjög þung á brá og skaut í allar áttir svo frægt varð.

Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Henni tókst að klúðra málum austur í Mývatnssveit svo eftir var tekið og Mývetningar höfðu á orði að Valgerður myndi sennilega ekki sjást þar fyrr en færi að styttast í næstu kosningar. Margt fleira mætti telja t.d. útboð við viðgerðir á varðskipunum sem sliguðu mjög Slippinn. En það er ekki pláss til að telja allt upp sem fólk talar um hér. En nú er spurning hvernig Framsóknarflokknum gengur í Norðausturkjördæmi að ári. Ef marka má kannanir hefur flokkurinn tapað miklu fylgi og sér sennilega ekki fyrir endann á því. Það verður fróðlegt hvort söguleg upphefð Valgerðar nú breytir stöðunni fyrir hana.

Valgerður Sverrisdóttir er eins og fyrr sagði mikil kjarnakona að mínu mati. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins. Það má spyrja sig að því nú hvort utanríkisráðherrann Valgerður Sverrisdóttur hafi metnað og áhuga til forystustarfa í Framsóknarflokknum er fóstbróðir hennar í stjórnmálum yfirgefur forystu flokksins. Það kemur bráðlega í ljós.

Ég vil óska Valgerði Sverrisdóttur til hamingju með utanríkisráðherraembættið og óska henni allra heilla í verkum sínum í ráðuneytinu.