Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 júní 2006

Halldór hættir sem forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun taka við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Mun Halldór Ásgrímsson þá láta af embætti eftir að hafa leitt ríkisstjórn landsins samfellt í 21 mánuð. Hann varð forsætisráðherra þann 15. september 2004, er Davíð Oddsson hætti sem forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu í embættinu. Mun Halldór láta af formennsku Framsóknarflokksins á flokksþingi hans um miðjan ágústmánuð og hætta þá þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferil. Mun staða mála innan ríkisstjórnar nú verða eins og fyrir forsætisráðherraskiptin árið 2004: Framsóknarflokkur tekur að nýju við utanríkis- og umhverfisráðuneyti og Sjálfstæðisflokkur fær forsætið. Eftir breytingarnar verða því báðir flokkar að nýju með sex ráðherra.

Geir H. Haarde verður sextándi forsætisráðherra Íslands á lýðveldistímanum. Geir nam í Bandaríkjunum. Hann hefur BA-próf í hagfræði frá Brandeis-háskóla, ennfremur MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá Johns Hopkins-háskóla og að auki MA-próf í hagfræði frá Minnesota-háskóla. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1981-1985. Geir hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1987. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1998 og kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1999. Geir varð formaður flokksins og utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum haustið 2005. Allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa með þessu setið á forsætisráðherrastóli. Enginn hefur gegnt embættinu lengur en Davíð Oddsson árin 1991-2004.

Enginn vafi leikur á því að þáttaskil verða við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Halldór hefur setið á þingi nær samfleytt frá árinu 1974. Hann var á þingi fyrir Austurlandskjördæmi 1974-1978 og aftur 1979-2003. Frá 2003 hefur hann verið alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður, en hann færði sig um set við kjördæmabreytinguna. Halldór varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Halldór hefur setið í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og varð að lokum forsætisráðherra allt frá haustinu 2004.

lesa meira af pistli á vef SUS